Umdæmisráð hefur staðfest tillögu valnefndar umdæmisins um umdæmisstjóraefni Rótarý á Íslandi fyrir starfsárið 2024-2025. Tilnefndur umdæmisstjóri verður Jón Karl Ólafsson úr Rótarýklúbbi Reykjavíkur og aðstoðarumdæmisstjóri Rótarý á Íslandi.
Þetta kemur fram í fréttabréfi Ásdísar Helgu Bjarnadóttur, umdæmisstjóra, sem sent var rótarýfélögum í vikunni. Þar var einnig gerð grein fyrir hlutverki valnefndar umdæmisins og starfssviði umdæmisstjóra.
Umdæmisstjóri leiðir starf Rótarý á Íslandi, kemur fram fyrir hönd umdæmisins í alþjóðlegu samstarfi og er tengiliður klúbbanna við alþjóðahreyfinguna, Rotary International (RI – rotary.com). Í sérlögum RI er kveðið mjög ítarlega á hvaða reglum skuli fylgja við val umdæmisstjóra og hvaða skilyrði hann skal uppfylla. Valnefndinni ber að tilnefna þann félaga sem er hæfastur hverju sinni og hefur tök á að þjóna sem umdæmisstjóri og er valið ekki takmarkað við þau nöfn sem klúbbar í umdæminu leggja fram. Skilyrði eru einkum þau að tilnefndur umdæmisstjóri hafi gegnt embætti forseta í rótarýklúbbi þegar hann er valinn, hafi verið í hreyfingunni í a.m.k. 7 ár áður en hann tekur við embættinu, sé í góðu áliti og hafi haldgóða þekkingu á þeim skyldum sem starfinu fylgja.
Jón Karl Ólafsson er fæddur 12. september 1958. Hann gerðist félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur árið 2000, var forseti klúbbsins 2016-2017 og Paul Harris félagi 2018. Hann hefur verið virkur í Rótarýstarfinu, gegnt ýmsum embættum innan Rótarý og verið aðstoðarumdæmisstjóri frá árinu 2020. Jón Karl er menntaður viðskiptafræðingur (Cand.oceon) frá Háskóla Íslands 1984. Jón Karl er kvæntur Valfríði Möller og eiga þau fjögur börn og sjö barnabörn.
Mest alla ævi hefur hann starfað í flugi og ferðaþjónustu, m.a. verið forstjóri Icelandair, samstæðunnar Icelandair Group, Primera Air, framkvæmdastjóri Flugvallasviðs ISAVIA, stjórnarformaður Heimsferða og hefur einnig sinnt ráðgjafastörfum í gegnum eigið fyrirtæki, Funarar slf. fyrir ýmis fyrirtæki og stofnanir. Hann hefur einnig setið í fjölmörgum stjórnum og ráðum er tengjast ferðaþjónustu og íþróttahreyfingunni og hefur m.a. verið formaður aðalstjórnar Ungmennafélagsins Fjölnis frá árinu 2009. Jón Karl hefur auk þess sinnt margvíslegum sjálfboðaliðastörfum á undanförnum árum.
Umdæmisráð staðfesti valið og bauð Jón Karl velkominn í sæti tilnefnds umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi, um leið og það þakkaði Guðmundi Björnssyni Rkl. Keflavíkur, formanni valnefndar og öðrum nefndarfulltrúum, kærlega fyrir þeirra störf.