NYHETSARTIKLAR

Minning - Eyjólfur Þór Sæmundsson

2018-10-17

Félagi okkar Eyjólfur Þór Sæmundsson er til grafar borinn í dag. Hann fæddist 28. september 1950 og lést 5. október 2018.
Guðni Gíslason minntist Eyjólfs á rótarýfundi 11. október:

Eyjólfur Þór Sæmundsson

 

Við minnumst í dag góðs félaga og vinar, Eyjólfs Þórs Sæmundssonar sem lést langt fyrir aldur fram, aðeins 68 ára gamall, eftir tiltölulega stutta en snarpa baráttu við krabbamein.

Ég var lengi að kynnast Eyjólfi þegar við sátum naktir á föstudögum í sánunni í Sundhöllinni og ræddum þjóðmálin. Hann var mjög fróður og vel lesinn um margt og var óspar á að deilda með öðrum. Hann hafði áhuga á svo mörgu og við náðum vel saman þegar umræðuefnið var uppland Hafnarfjarðar og fjöllin í kring. Þar þekkti hann hverja þúfu og ef hola sást í hrauninu, sást fljótt í iljar hans, jafnvel svo að bjarga þurfti honum upp aftur. Svo mikill var áhugi hans á hellum. Það var virkilega gaman að ganga með honum um hraunin, þá naut hann sín vel og fræddi okkur hin um það sem fyrir augu bar.

Það var baksíðufrétt í Hafnarfirði 2007 þegar Eyjólfur, sem þá var varabæjarfulltrúi, hljóp heilt maraþon í Reykjavík, tæplega 57 ára gamall. Hann hafði stundað hlaup um nokkurt skeið og fyrstu hlaupaskóna keypti ég þegar við hlupum saman frá Sundhöllinni.

Eyjólfur var mikill félagsmálamaður, var virkur í pólitík þar sem málefnin voru sterkari í hans huga en vinsældarkeppni. Hann var trúr sínum skoðunum.
Eyjólfur var forstóri Vinnueftirlits ríkisins frá 1981 til dánardags.

Eyjólfur gekk í Rótarýklúbb Hafnarfjarðar 6. júlí 1995. Hann hafði haldið erindi í klúbbnum og lýsti áhuga á að taka þátt í starfi klúbbsins og það gerði hann svo sannarlega. Hann var virkur félagi, hafði skoðanir, spurði spurninga og sýndi rótarýhugsjóninni mikinn áhuga. Í starfi klúbbsins nýttist þekking hans og þær voru nokkrar ferðirnar sem farnar voru undir hans dyggu leiðsögn.

Hann gegndi störfum stallara 2003-2004, gjaldkera, ritara og var forseti klúbbsins 2015-2016 og leysti öll sín störf vel af hendi.

Eyjólfur var sæmdur Paul Harris orðu 10. október 2017 fyrir störf sín fyrir klúbbinn.

Við vottum Gerði S. Sigurðardóttur eiginkonu hans og fjölskyldu virðingu okkar og samúð en börn þeirra eru tvö; Helga og Baldur Þór og barnabörnin þrjú.
 

facebook share button twitter share button linkedin share button

Hvað er Rótarý?

Rótarý er alþjóðleg hreyfing fólks úr viðskipta- og atvinnulífi og opinberri þjónustu sem stendur fyrir mannúðar- og menningarstarfi, stuðlar að sem bestu siðgæði í öllum starfsgreinum og hvetur til góðvildar og friðar í heiminum.

LESTU MEIRA

TENGILIÐIR

Netfang: hafnarfjordur@rotary.is


UPPLÝSINGAR UM FUNDI

FASTUR FUNDARSTAÐUR:

Turninn Firði
Fjarðargötu 13-15
220 Hafnarfjörður

Fastur fundatími: Fimmtudaga 12:15

Hér fundum við:
Engin mynd
Næsti fundur:

Fundir á næstunni