Um miðjan maí síðastliðinn lagði af stað 15 manna hópur íslenskra rótarýfélaga á vit ævintýranna til Ástralíu á leið sinni á heimsþing Rotary International 2023 í Melbourne.
Hópurinn myndaðist þegar Soffía Gísladóttir, fyrrum umdæmisstjóri, fékk þá hugmynd að bjóða rótarýfélögum að slást í för með henni og eiginmanni hennar Guðmundi Baldvin í tæplega 3ja vikna reisu um Ástralíu, frá norðri til suðurs, sem myndi enda á heimsþinginu.

Þessir 15 félagar komu úr ýmsum áttum og margir að hittast í fyrsta sinn. Ferðin hófst með ferðalagi frá Íslandi til Darwin í Northern Territory. Þar dvaldi hópurinn í 4 daga og skoðaði m.a. Kakadu þjóðgarðinn með viðkomu á krókódílaslóðum.


Þaðan var flogið til Cairns í Queensland þar sem hópurinn dvaldi í 3 daga. Farið var í ævintýralega siglingu að The Great Barrier Reef þar sem megnið af hópnum snorklaði á meðal litríkra fiska og dásamlegra kóralrifja, en aðrir sáu dýrðina í kafbáti. Hópurinn fór svo með forláta lest til Kuranda þar sem okkur gafst færi á að skoða dýragarða og upplifa síðan regnskóginn á leið okkar til baka með kláfi.
Frá Cairns fór hópurinn til Sidney og upplifði dásamlega tvo daga í þeirri fallegu borg, hvort sem var á notalegum haustdegi eða í ljósadýrð kvöldrökkursins.
Við flugum síðan til Melbourne þar sem við fórum í magnaða ferð um The Great Ocean Road þar sem við sáum klettamyndanirnar The Twelve Apostles sem eru á heimsminjaskrá UNESCO sem og aðra dásemdarstaði við strandveginn.
Þá var komið að hápunkti ferðarinnar, heimsþinginu. Jennifer Jones, fyrsti kvenheimsforseti Rotary International var í forgrunni þar og heillaði hún alla með útgeislun sinni og skýrum skilaboðum um bjarta framtíð Rótarý. Aðalkynnar heimsþingsins voru íslensku mæðgurnar Ásthildur Ómarsdóttir, forseti Rotaract á Íslandi og fyrrum fjölmiðlakona á N4 og móðir hennar María Björk Ingvadóttir, rótarýfélagi í Rótarýklúbbi Sauðárkróks og fyrrum framkvæmdastjóri N4. Þeim hlotnaðist þessi mikli heiður eftir að hafa kynnst Jennifer Jones á Rotary Action Summit þinginu heima á Íslandi í september sl. þar sem þær tóku mjög skemmtilegt viðtal við hana. Aldrei fyrr hefur Íslendingum gefist jafn mikið tækifæri innan Rótarýheimsins, eins og þarna og þær stóðu sig frábærlega vel og okkur öllum til sóma.


Það er erfitt að lýsa heimsþingi fyrir þeim sem ekki hafa upplifað það. Heimsþingið einkennist af stórum viðburðum með virkilega áhugaverðum fyrirlestrum um málefni Rótarý sem og önnur málefni tengd Rótarý. Þar er líka boðið upp á fjöldan allan af málstofum, eftir áhugasviði hvers og eins. House of Friendship er svo gríðarlega skemmtilegt opið rými þar sem fjöldinn allur af Rotary Fellowship samtökum er kynntur á básum og þar eru uppákomur allan daginn alla daga. Þar eru líka sölubásar með alls kyns rótarývarningi sem freistar margra. Heimsþing Rótarý er hreint út sagt mögnuð upplifun og ástæða til að hvetja alla rótarýfélaga til að fara a.m.k. einu sinni á heimsþing á rótarýævi sinni. Það var alsæll hópur sem hélt svo heimleiðis eftir stórkostlegt ferðalag sem seint gleymist og skilur eftir ógleymanlegar minningar og ómetanlega vináttu.
Næsta heimsþing verður haldið í Singapore í maí 2024 og stefna þau Soffia og Guðmundur á að fara aftur í svipaða reisu.