Nýlega sótti Soffía Gísladóttir verðandi umdæmisstjóri fræðslumót og leiðtogaþjálfun Rótarý fyrir verðandi umdæmisstjóra ásamt eiginmanni sínum Guðmundi Baldvini Guðmundssyni. Soffía skýrir í eftirfarandi pistli frá höfuðatriðum mótsins, sem haldið var í Kaliforníu.
-Það var mikil eftirvænting og tilhlökkun í okkur hjónum þegar við komum til San Diego í janúar sl. Okkar beið Rótarý-ævintýri þar sem 530 verðandi umdæmisstjórar frá öllum heiminum hittust, margir ásamt mökum sínum, til þess að upplifa, kynnast og læra á nýja hlutverkið sem í vændum er. Við vorum í góðum höndum reyndra Rótarýmanna og kvenna, heimsforsetum, núverandi, verðandi og fyrrverandi ásamt fjöldanum öllum af þjálfurum.
Eftir að hafa blandað geði fyrsta kvöldið hófst þjálfunin með opinberun Holger Knaack, heimsforseta 2020-2021 á þemanu hans “Rotary Opens Opportunities” eða “Rótarý opnar gáttir”, eins og ég hef kosið að yfirfæra það. Holger er Þjóðverji, úr Rótarýklúbbnum Herzogtum Lauenburg-Mölln, og sá fyrsti í sögu Rótarý í Þýskalandi til að gegna þessu mikilvæga embætti. Hann hefur verið öflugur Rótarýfélagi og m.a. hafa þau hjónin, Susanne og Holger hýst 43 Rótarýskiptinema.
Síðan tók við öflug leiðtogaþjálfun bæði fyrir verðandi umdæmisstjóra og maka. Málstofurnar voru fjölmargar með 20 þátttakendum í hverri svo við kynntumst ótrúlegum fjölda áhugaverðra Rótarýfélaga sem við munum eiga að vinum um ókomna tíð.
Þá var komið að „stóru stundinni“, myndatöku með Holger og Susanne. Þau stóðu í ströngu hjónin, fimm hádegi í röð, frá mánudegi til föstudags þar sem teknar voru af þeim rétt rúmlega 100 myndir hverju sinni, en fyrir okkur Munda var þetta mikilvægt augnablik sem og fyrir alla verðandi umdæmisstjóra og maka þeirra. Spennandi stund þar sem allt þurfti að ganga upp á nokkrum sekúndum, en afraksturinn var góður.
Þetta var gríðarlega fjölbreytt og skemmtileg vika og sérstaklega var menningarkvöldið
mikil upplifun þar sem margar þjóðir voru með uppákomur með söng og dansi og skörtuðu litríkum, fallegum og efnismiklum þjóðbúningum ásamt alls konar fylgihlutum. Við Mundi nutum þess að horfa á og dást að skemmtiatriðunum, en héldum okkur sjálf til hlés, enda einu fulltrúar Íslands.
Í San Diego mynduðum við mikilvæg tengsl við Rótarýfólk með magnaða sögu innan hreyfingarinnar. Fyrir utan að kynnast núverandi og verðandi heimsforsetum þá kynntumst við verðandi leiðtogum innan Rótarý og erum við óendanlega þakklát fyrir þetta tækifæri. Við upplifðum mikinn áhuga á Íslandi og fjöldinn allur hefur hug á að tengjast okkur í verkefnum eða vinaskiptum til framtíðar.
Holger Knaack er mikill talsmaður þess að konum fjölgi í Rótarý á heimsvísu og að konum fjölgi í leiðtogahlutverkum innan Rótarý, enda hefur hann valið konu sér við hlið, Johrita Solari, til að gegna starfi varaforseta í hans tíð. Hann leggur líka mikið upp úr að efla starf Rotaract um allan heim, enda verða þau formlegur hluti Rótarýsamfélagsins frá 1. júlí nk.
Skilaboðin frá Holger, verðandi heimsforseta, voru þessi í lok þingsins:
- Stofnið nýja klúbba, eins fjölbreytta og hugsast getur
- Hver klúbbur ætti að hafa stefnumótunardag einu sinni á ári
- Passið upp á Rótarýfélagana, gefið þeim hlutverk og ábyrgð og bjóðið fjölbreyttum hópi fólks í klúbbana
- Ljúkum baráttunni gegn Polio.