Rótarýklúbbur Akureyrar
STOCKHOLMS VÄSTRA

FORSETI: Geirlaug G. Björnsdóttir,,Stígum stolt fram” er kjörorð Soffíu Gísladóttur umdæmisstjóra fyrir næsta starfsár og ,,Rótarý opnar gáttir” er kjörorð heimsforseta Holger Knaack. Bæði þessi kjörorð viljum við í stjórn leggja áherslu á, á okkar starfsári og spinna þau saman. Því munum við leggja áherslu á að kynna okkur og rótarýhreyfinguna með því að ,,stíga stolt fram” og fá fólk til að fylgja okkur í góðum verkum meðal annars með áherslu á að ,,Rótarý opnar gáttir” fyrir fólk og efli þeirra tengslanet. Með þessu vonumst við til að geta kynnt klúbbinn okkar betur og einnig höfða til yngra fólks. 
Í samræmi við þetta verður þema starfsársins í 3ja mínútna erindum ,,Eitthvað tengt Rótarý - kynnumst Rótarý betur og verum stolt af því að vera rótarýfélagar”.
Stærsta verkefnið er auðvitað komandi umdæmisþing dagana 09.-10. október og hlökkum við mikið til að sjá sem flesta félaga frá öllum landshornum mæta til okkar, sýna þeim bæinn okkar og hvað við höfum upp á að bjóða hér fyrir norðan.
Við í stjórn hlökkum til komandi starfsárs og erum búin að setja saman, að okkur finnst, áhugaverða dagskrá. Við komum til með að brjóta hefðbunda dagskrá aðeins meira upp en gert hefur verið hingað til. Við vonum að það mælist vel fyrir og við munum skemmta okkur saman í vetur. 
Búið er að gera stefnumótun fyrir klúbbinn til næstu þriggja ára og tók verðandi forseti Geirlaug G. Björnsdóttir þátt í þeirri vinnu. Stefnt er að því að fjölga félögum um þrjá á hverju starfsári og kynna klúbbinn okkar mun betur, meðal annars með því að vera virk á samfélagsmiðlum, semja kynningarbréf og senda út til fyrirtækja, setja saman kynningarglærur sem við getum notað á kynningum okkar almennt, kynningaflögg verða keypt og stefnt að því að kynna klúbbinn bæði í Botni og einnig á Glerártorgi næsta vetur. Einnig viljum við auka samstarf við aðra klúbba á svæðinu, kynnast þeirra verkum og kynna okkur meðal þeirra.
Stjórn hefur sett saman nýjar nefndir til næstu 3ja ára. Við viljum virkja nefndirnar meira og fylgja þeim eftir og hvetjum því nefndirnar til að byrja sína undirbúningsvinnu strax í ágúst. Við stefnum á að nefndir setji sér markmið og setji upp starfsáætlun fyrir starfsárið í samræmi við markmiðasetningu, stefnumótunarvinnu og dagskrá stjórnar. 
Stefnan er að nýta klúbbfundi meira til almennar vinnu í klúbbnum, fara yfir það sem er í vinnslu hjá stjórn til að halda öllum upplýstum um það sem stjórn er að vinna að hverju sinni. Einnig gæfist nefndum þá tími til að sinna sinni vinnu og því mjög mikilvægt að sem flestir mæti á klúbbfundi og sérstaklega formenn nefnda. 
Stjórn hyggst setja upp í vetur, starfslýsingar fyrir helstu stöður innan klúbbsins, setja upp ramma vegna styrkveitinga, hverjir eru þess verðugir að hljóta PH orðu klúbbsins og hvað þarf til til að verða heiðursfélagi. 
Einnig þarf seinna í vetur að endurskoða sérlögin okkar með tilliti til nýrra alþjóðalaga sem var verið að samþykkja. Þessa vinnu munum við bera undir ykkur á klúbbfundum jafn óðum og drög að viðkomandi skjölum líta dagsins ljós. 

Við í stjórn vonumst til að eiga við ykkur ánægjulegt samstarf og hlökkum til að vinna með ykkur.

Kristbjörg Góa Sigurðardóttir,
forseti Rótarýklúbbs Akureyrar.