Lagt var af stað síðdegis miðvikudaginh 25. maí frá Keflavík og flogið til
Kaupmannahafnar. Þaðan var tekin lest til Älmhult í Svíþjóð og síðan með rútu
til Möckelnes sem var rétt utan við bæinn. Þar sameinaðist hópurinn og
borðaði saman máltíð og kynntist aðeins.
Daginn eftir komu gestgjafar okkar og sóttu okkur á hótelið. Þá var haldið í Ikea-safnið í Älmhult en þar var fyrsta Ikea-verslunin sem Ingvar Kamprad stofnaði 1950. Þaðan var haldið til fæðingarstaðar Carls von Linné og snæddur hádegismatur á grænmetismatsölustað. Síðan hlýddum við á „sjálfan Linné“ segja okkur frá bernsku sinni og menntun, vinnu og landinu hans sem við skoðuðum undir hans leiðsögn. Linné er þekktur fyrir nafnakerfi plantna og dýra. Þá fórum við heim með gestgjöfunum sem ýmist sýndu fólki bæjarlífið eða bújarðir í nágrenninu.
Næsta dag hittumst við á Elgs-safarí í Markaryd. Þar var lítil lest sem ók með okkur milli elgja sem voru þar í girðingu. Komu þeir og þáðu birkigreinar af farþegunum, þeim til mikillar kátínu. Vísundar voru líka á svæðinu. Þá fóru ferðalangarnir heim með gestgjöfum og hittust allir í heimahúsi í Ljungby um kvöldið þar sem var borðað, drukkið og sungið að sænskum sið.
Laugardagsmorguninn héldum við til Wanås Castle þar sem við fengum vöflukaffi og kvöddum gestgjafana og hittum þá nýju. Gengum við um mjög skemmtilegan hallargarðinn sem var fullur af listaverkum. Margar hallir voru á svæðinu og kíktum við í þær nokkrar á leiðinni heim til gestgjafanna. Um kvöldið vorum við boðin í heimahús með gestgjöfunum þar sem snæddur var dýrindismatur og vín og sungið aftur að sænskum sið.
Sunnudagsmorguninn hittumst við í Naturum, upphafsstað vatnasvæðis Kristjansstad. Svæðið var gert aðgengilegt svo fólk gæti áttað sig á fjölbreyttu lífríki votlendissvæðisins sem er í útjaðri Kristianstad. Sáum við kvikmynd um vatnasvæðið, fórum í skemmtilegan hermi sem sýndi okkur lífríkið ofan og neðan vatnsborðs. Gengum við síðan um svæðið og nutum náttúrunnar í góða veðrinu. Þessu svæði var veitt viðurkenning sem líffræðilegu verndarsvæði árið 2005. Síðan þá hefur það þjónað sem módel um sjálfbæra þróun undir kjörorðinu til ávinnings fyrir náttúru og fólk. Um allan heim eru 700 svæði af þessu tagi. Kristianstad-vatnaríkið er það elsta af sjö verndarsvæðum af þessu tagi í Svíþjóð. Eftir skoðunarferðina var svo borðaður hádegismatur á staðnum.
Þá var haldið til Åhus þar sem viðhittum Sten Liljedal, rótarýfélaga, en hann fór með okkur til kirkju þar sem hann sagði okkur frá upphafi bæjarins á 12. öld. Leiddi hann okkur um gamla bæinn og sagði sögu hans niður eftir ánni að þekktri ísbúð þar sem við gæddum okkur á sænskum rjómaís. Gengum við fram hjá höfuðstöðvum Absolut vodka- framleiðslunnar sem eru staðsettar þarna í gömlu borginni. Næst var haldið á vínekru þar sem ein gestgjafahjónin sýndu okkur ræktunina og hvernig þau sáu um eina röð af vínviði í frístundum. Þar var grillað og drukkið vín frá framleiðslunni.
Mánudagsmorguninn var haldið að ráðhúsinu í Kristianstad þar sem við hittum Evu Mårtenson rótarýfélaga sem er upplýsingafulltrúi bæjarfélagsins. Gekk hún með okkur um miðbæinn og sagði okkur sögu hans en bærinn er mjög gamall, stofnaður af Kristjáni IV Danakonungi. Eftir gönguna var haldið á rótarýfund hjá rótarýklúbbi bæjarins þar sem við fengum mat og Róbert Melax flutti kynningu um Ísland. Næst var haldið á lestarstöðina þar sem við kvöddum gestgjafana og héldum til Kaupmannahafnar og svo heim.
Texti: Þuríður Yngvadóttir, Róbert Melax.