Föstudagur, júní 21, 2024
HeimFréttirUmdæmisfréttirÁsdís Helga Bjarnadóttir tilnefnd umdæmisstjóri 2021-2022

Ásdís Helga Bjarnadóttir tilnefnd umdæmisstjóri 2021-2022

Ásdís Helga Bjarnadóttir, Rótarýklúbbi Héraðsbúa, hefur að tillögu valnefndar umdæmisins verið tilnefnd umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi 2021-2022.

Tilnefningin var kynnt við umdæmisstjóraskipti á fundi í Rkl. Borgum Kópavogi hinn 11. júní sl. er Anna Stefánsdóttir, tók við umdæmisstjóraembættinu fyrir næsta starfsár. Á eftir Önnu verður Soffía Gísladóttir, Rótarýklúbbi Akureyrar, umdæmisstjóri 2020-2021. Er það fagnaðarefni og til marks um vaxandi áhrif kvenna innan hreyfingarinnar, að þrjár konur skuli gegna leiðtogaembættinu hér á landi næstu árin.

Ásdís Helga, sem er fimmtug að aldri, starfar hjá Umhverfisstofnun á Egilsstöðum sem sérfræðingur innan veiði- og verndarteymis. Meginverkefni eru skipulag og umsjón námskeiða, s.s. skotvopna- og veiðinámskeiða, samskipti og þjónusta við veiðimenn og leiðsögumenn á hreindýraveiðum auk annarra tilfallandi verkefna innan lífríkis- og veiðistjórnunar. Ráðstefnuhald er varðar lífríkismál er einnig meðal viðfangsefna. Áður hafði Ásdís Helga kennt við Landbúnaðarháskóla Íslands, unnið innan Endurmenntunardeildar skólans, komið að ferðamálum og starfað fyrir Matvælastofnun á Austurlandi.

Ásdís Helga er fædd og uppalin á Hvanneyri í Borgarfirði. Hún stundaði nám við Reykholtsskóla og lauk síðan B.Sc. námi í búsvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands og útskrifaðist frá Norges Landbrukshøjskole með Cand.Agric.- gráðu árið 1997.  Auk þess sem hún lauk leiðsögumannanámi við Ferðamálaskóla Íslands 2011, stundaði hún nám í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst og lauk MA-gráðu frá Háskólanum á Hólum á þessu ári í ferðamálafræðum með áherslu á viðburðastjórnun.

Ásdís Helga varð félagi í Rótarýklúbbi Héraðsbúa 2015 og er forseti klúbbsins á þessu starfsári. Hún hefur áður tekið þátt í fjölbreyttum félagsstörfum og m.a gegnt stjórnunarstörfum innan UMFÍ og hjá Ungmennasambandi Borgarfjarðar (UMSB) og Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands (UÍA). Ennfremur hefur Ásdís Helga starfað í nefndum sveitarfélaga innan menningar- og æskulýðsmála. Þá hefur hún tekið virkan þátt í störfum kvennasamtaka, norrænu samstarfi á sviði æskulýðs- og landbúnaðarmála sem og á sviði íþrótta; auk þess æft, keppt og þjálfað í frjálsum íþróttum, sundi, hestaíþróttum, blaki og körfubolta.

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum