Föstudagur, 6. desember 2024
HeimFréttirÁsdís Helga Bjarnadóttir umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi

Ásdís Helga Bjarnadóttir umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi

„Rótarýfélagar sjá heim, þar sem einstaklingar vinna saman að varanlegum breytingum – á jörðinni, í samfélögum og okkur sjálfum.  Grunnstoðirnar byggja á fjölbreytileika, vinskap, heilindum, þjónustu ofar eigin hag og leiðtogahæfni,“ sagði Ásdís Helga Bjarnadóttir í ræðu sem hún flutti við umdæmisstjóraskipti, sem fóru fram sl. laugardag á fundi í heimaklúbbi hennar, Rkl. Héraðsbúa. Soffía Gísladóttir, fráfarandi umdæmisstjóri, afhenti Ásdísi Helgu embættistákn umdæmisstjóra. Voru Soffíu þökkuð fjölbreytt og árangursrík störf á liðnu starfsári við erfiðar aðstæður vegna heimsfaraldursins. Hún beitti sér fyrir öflugu fjarfundastarfi, stofnun nýrra klúbba með því sniði og efndi m.a. til dagskrár Rótarýdags í netheimum með miklum glæsibrag. 

Í ræðu sinni minnti Ásdís Helga á kjörorð heimsforseta Shakhar Mehta, sem kemur frá Indlandi. Hann hefur valið sér kjörorðið: „Serve to change lives“ eða „Breytum lífi, bætum hag“. Athyglinni þetta starfsárið er því beint að þjónustuhlutverki Rótarý í gegnum samfélags- og samstarfsverkefni. Áfram verður unnið markvisst í að uppræta lömunarveikina í Pakistan og Afganistan og bæta hag samfélaga sem á þurfa að halda. Umtalsverð fjölgun félaga í Rótarýhreyfingunni er einnig ofarlega á dagskrá hjá heimsforsetanum og sérstök áhersla lögð á fjölgun kvenna og yngra fólks. 

Áherslur í starfinu á Íslandi

Rótarýumdæmið á Íslandi mun vinna að áherslum Shakhar Mehta starfsárið 2021-2022 eins og Ásdís Helga rakti í einstökum atriðum í ræðu sinni:

  • Félagsmenn eru 1117 í dag (1134 með heiðursfélögum) og stefnt á að minnsta kosti 10% nettó fjölgun félagsmanna og ná uppfyrir það viðmið sem sett er um sjálfstæði umdæma.
  • Konur eru um 30% félagsmanna en stefnan tekin á 32%.
  • Meðalaldur er 65 ára en stefnan sett á 62 ára.
  • Framlag í Rótarýsjóðinn og Polio plus hefur verið breytilegt milli ára en stefnt á 60 USD á félagsmann.
  • Klúbbarnir eru 31 undir umdæminu, mögulega 32 fyrir 1. júlí næstkomandi en stefnt er á að veita stuðning til fjölgunar klúbba eins og hægt er. Þá er einnig stefnt á að stofna Rotarex klúbb sem byggir á skiptinemum sem hafa farið erlendis á vegum Rótarý.
  • Þjónustuverkefnum rótarýklúbbanna á landinu verða gerð skil með upplýsingaskiltum á Umdæmisþinginu sem vonandi kveikir hugmyndir, samtal og mögulega samstarf á milli klúbba hér innanlands.
  • Boðið verður upp á vefræna fræðslu um helstu viðfangsefni Rótarýhreyfingarinnar fyrir stjórnir en öðrum áhugasömum einnig boðin þátttaka. Fræðslu um Rótarýsjóðinn, félagakerfið, um æskulýðsmál er tekur á ungmennaskiptum, sumarbúðum og friðarnámi, um verkefnasjóðinn, Rótarýdaginn og Polio plús svo eitthvað sé nefnd.
  • Farið verður í kynningarátak um Rótarý á Íslandi sem afhjúpað verður á Umdæmisþinginu.
  • Unnið verður áfram að því að íslenska fræðsluefni á Rotarý Learning Center sem félagsmenn eru hvattir til að nýta sér, ekki síst þeir sem eru að taka við stjórnarstörfum innan rótarýklúbba.
  • Stefnt er að því að halda Rótarýtónleika í Tónlistamiðstöð Austurlands á Eskifirði á tímabilinu.
  • Hvatt verður til þátttöku í Rótarýdeginum og athygli vakin á PolioPlúsdeginum.
  • Stefnt verður að alþjóðlegum sumarbúðum hér á landi sumarið 2022 ef aðstæður leyfa í samfélaginu og
  • haldið verður Rótarý GETS/Summit fyrir zone 17-20 daganna 13. – 18. sept. 2022 í Reykjavík og nágrenni, þar sem von er á um 400-500 þátttakendum.
  • Hvatt verður til góðrar þátttöku á Heimsþing Rótarý sem fer fram í byrjun júní á næsta ári í Houston, Texas. Það ættu allir rótarýfélagar að taka þátt í að minnsta kosti einni heimsráðstefnu, hefur mér verið sagt, og stefni ég því á að upplifa stemninguna í Texas, vonandi með góðum hópi frá Íslandi.
  • Á tímabilinu verður jafnframt rýnt í félagakerfið okkar, og reynt að bæta og samtengja vistun gagna er fellur til hjá nefndum og ráðum umdæmisins.

    Umdæmisstjórar, fyrrverandi, núverandi og verðandi. Anna Stefánsdóttir, 2019-2020, Soffía Gísladóttir, 2020-2021, Ásdís Helga Bjarnadóttir, 2021-2022, Bjarni Kr. Grímsson, verðandi umdæmisstjóri 2022-2023 og Ómar Bragi Stefánsson, Rkl. Sauðárkróks, tilnefndur umdæmisstjóri 2023-2024.

Hugleiðing nýs umdæmisstjóra um starfið framundan

Í ræðu sinni gerði Ásdís Helga ítarlegri grein fyrir hugmyndum sínum og viðhorfum til ýmissa þátta í starfinu framundan:

„Rótarý hefur gefið mér ótrúlega margt. Að kynnast frábærum einstaklingum í mínu nærsamfélagi sem og innan umdæmisins. Að fá tækifæri til að fræðast um fjölbreytt verkefni, – hinar ólíku starfsgreinar, fara í fyrirtækjakynningar og taka virkan þátt í samfélagsverkefnum. Þetta er háskóli lífsins eins og Vigdís Finnbogadóttir sagði á jólafundi sem ég sótti hjá Rótarýklúbbi Reykjavík Miðbæ. Hugmynd sem ég lagði inn til umræðu í mínum klúbbi varð að veruleika, þ.e. að verðlauna lokaverkefni nemenda við Menntaskólann á Egilsstöðum og kynna í leiðinni hreyfinguna.  Þannig geta félagar jafnvel fundið leið fyrir hugmyndir og ástríðu sína í gegnum hreyfinguna og virkjað með sér fleiri til góðra verka fyrir einstaklinga, nærsamfélag eða á alþjóðlega vísu. 

Með þátttöku innan Rótarý hef ég líka notið leiðsagnar er fellur að leiðtogaþjálfun, það að koma fram, tjá skoðanir, virða settar starfsreglur og öðlast þekkingu á mismunandi embættum sem eiga sér samsvörun við mannleg samskipti og verklag í stjórnum almennt og jafnvel á vinnustað. Reynsla fólks og þekking er afar fjölbreytt og eru allir boðnir og búnir að veita upplýsingar, gefa ráð eða leggja lið. Þessi félagsskapur er því afar gefandi og í raun verðmætur hverju samfélagi.

Að undanförnu hef ég verið að leita til Rótarýfélaga um að taka að sér ákveðin viðfangsefni innan umdæmisins. Það er skemmst frá því að segja að allir hafa tekið gríðarlega vel í að leggja fram starfskrafta og verðmætan tíma hreyfingunni til handa. Ég er öllum þessum einstaklingum afar þakklát um leið og ég vil þakka þeim sem hafa fram að þessu lagt sína krafta í starfið í óeigingjarnri sjálfboðavinnu. Hlutirnir gerast nefnilega ekki af sjálfu sér. Að baki hvers fundar, verkefnis, frétta eða kynningar liggur framlag félaga. Við megum ekki gleyma því. Til þess að hafa áhrif og breyta eigin líðan, okkar samfélagi eða til að breyta heiminum þarf vilja, ástríðu, frumkvæði, fjölbreytta hæfileika og þekkingu, og ekki síst að gefa sér tíma til að sinna því.

Umdæmisþingið á Hallormsstað í október

Umdæmisþingið sem haldið verður á Hótel Hallormsstað 8.-9. október hefur yfirskriftina – „Þar sem hjartað slær er hamingjan nær“. Það er von mín að sem flestir Rótarýfélagar skrái sig á þingið og að allir klúbbar sendi að minnsta kosti þrjá fulltrúa til þátttöku. Dagskráin er fræðandi, fjölbreytt og skemmtileg. Fyrir rótarýfélaga er einstakt og eftirminnilegt að fá tækifæri til að sækja fundi til annarra klúbba, mæta á umdæmisþing, starfa að verkefnum og taka þátt í nefndum innan umdæmisins. Sækja alþjóðlega fundi, málstofur eða heimsráðstefnur. Kynnast fólki hvaðanæva úr heiminum, með fjölbreyttan bakgrunn og reynslu, en allir að vinna að sömu hugsjón. – af drengskap, með velvild og vinarhug, og til að láta gott af sér leiða.

Ástríða og hæfni hvers einstaklings getur fengið að njóta sín innan Rótarý. Við getum því stolt borið rótarýpinnann, greint frá því sem við stöndum fyrir og hvatt aðra til að ganga til liðs við okkur.

Kæru félagar, ég hlakka til að takast á við þetta embætti sem féll svo óvænt í skaut mér. Fá tækifæri til að njóta leiðsagnar mér reyndari félögum, starfa með nefndum umdæmisins og að heimsækja og kynnast félögum um allt land. Þetta verður í senn ævintýri og áhugaverð lífsreynsla sem ég vona að allir félagsmenn fái samhliða að upplifa með sinni þátttöku í Rótarý á starfsárinu.

Ég þakka það traust sem mér hefur verið sýnt með þessu vali og mun reyna að gera mitt besta. Takk fyrir.“

 

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum