Við umdæmisstjóraskipti á fundi í Rkl. Akureyrar 24. júní sl. flutti Anna Stefánsdóttir, fráfarandi umdæmisstjóri, ávarp sem fjallaði um störf Rótarý á alþjóðavísu við óvenjulegar aðstæður vegna heimsfarsóttarinnar. Hún gerði einnig grein fyrir árangursríku starfi rótarýklúbbanna á Íslandi, meðal annars í umræðum og verkefnum er lúta að umhverfis- og loftslagsmálum. Ávarp Önnu birtist hér í heild:
„Ágætu rótarýfélagar og vinir Rótarý.
Skemmtilegt en um leið afar óvenjulegt Rótarýár er á enda. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að gegna embætti umdæmisstjóra. Ég hef lært mikið um Rótarýhreyfinguna, um sérstakt framlag hennar til mannúðarmála og hvernig hreyfingin bregst við óvæntum og óþekktum aðstæðum eins og við stöndum frammi fyrir í heiminum í dag.
Mikilvægi Rótarýhreyfingarinnar kemur berlega í ljós nú þegar kórónaveirufaraldurinn geisar um heimsbyggðina. Afleiðingar farsóttarinnar valda mörgum þjóðum miklum erfiðleikum, með auknu atvinnuleysi og skorti á nauðsynjum. Rótarýhreyfingin ákvað snemma í faraldrinum að veita styrki úr neyðarsjóði sínum til COVID-19 verkefna, aðallega þó til að takast á við afleiðingar farsóttarinnar. Umdæmin á Ítalíu voru með þeim fyrstu sem fengu styrki, m.a til kaupa á hlífðarbúnaði fyrir heilbrigðisstéttir og aðrar stéttir í framlínu.
Rótarýsjóðurinn hefur fram til þessa dags veitt 20 milljónir dala til verkefna sem tengjast kórónaveirufaraldrinum. Margir klúbbar víða í heiminum hafa einnig lagt sitt af mörkum og aðstoðað við bjargir í sínu nærsamfélagi. Rótarý á Íslandi ákvað að taka þátt og styðja verkefni erlendis sem tengjast afleiðingum farsóttarinnar. Um þessi verkefni má lesa á heimasíðunni okkar.
Allt starfið í Rótarýhreyfingunni hefur farið úr skorðum vegna kórónaveirufarsóttarinnar. Allir staðbundnir fundir, þing og námskeið voru felld niður eða frestað um miðjan mars og klúbbar og umdæmi hvött til að halda rafræna fundi. Alþjóðahreyfingin hefur fylgst vel með framgangi farsóttarinnar og alltaf hvatt umdæmin til að fara að fyrirmælum alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og sóttvarnarstofnana í hverju landi. Mark Maloney, alþjóðaforseti, hefur sett heilsu og velferð félaga og fjölskyldna þeirra í forgrunn. Hann hefur haldið sig heima ásamt konu sinni frá miðjum mars og átt rafræn samskipti út um allan heim. Hann sendir reglulega fréttir og hvatningu til Rótarýfélaga á facebókarsíðu sinni, og þann 15. júní s.l kynnti hann göngukeppni sem lið í slagorðinu „Rótarý tengir heiminn“ og hvatti fólk alls staðar að úr heiminum til þátttöku Hægt er skrá sig í göngukeppnina frá 22-26 júní.
Alþjóðaþingið 2020 sem halda átt á Honolulu í byrjun júní var fellt niður, en RI ákvað að dagana 22-26 júní yrði „sýndarþing“. Hægt er að fylgjast með því á heimasíðu RI og einnig á facebókarsíðunni.
Góðir félagar og gestir.
Allir klúbbar í okkar umdæmi hættu staðbundnum fundum í byrjun mars í samræmi við fjöldatakmarkanir sóttvarnarlæknis. Einnig þurfti að fresta eða fella niður alla viðburði sem búið var að ákveða að halda á vormisserinu. Umdæmið hvatti klúbba til að halda fjarfundi og Rkl. Ólafsfjarðar reið á vaðið og hélt fyrsta fjarfundinn 26. mars. Rkl. Akureyrar fylgdi fast á eftir ásamt fleiri klúbbum. Nú hafa allir klúbbar byrjað staðbundna fundi þó með ákveðnum fyrirvörum í stærri klúbbunum.
Þrátt fyrir afar óvenjulegar aðstæður hafa flest þau markmið sem ég setti í upphafi Rótarýárins náðst. Umhverfisstefna umdæmisins var samþykkt á umdæmisþinginu í Kópavogi. Klúbbarnir settu umhverfismálin á dagskrá bæði í orði og verki. Erindi tengd umhverfis- og loftlagsmálum voru á dagskrá hjá flestum ef ekki öllum klúbbum. Umsóknir í verkefnasjóð umdæmisins sem stofnaður var á starfsárinu, tengdust flestar umhverfismálum, m.a fengu tveir klúbbar styrk til að taka þátt í verkefninu Aldingarður æskunnar. Um þetta má lesa á heimasiðunni
Undirbúningur var hafinn að stofnun tveggja nýrra klúbba í umdæminu. Ekki reyndist unnt að ljúka vinnunni, en stefnt er að stofnun klúbbs í Húnavatnssýslunum á haustdögum. Margir klúbbar lögðust á árarnar við fjölgun félaga með góðum árangri. Félagar eru núna 1140 voru 1126 í byrjun starfsársins. Meirihluti nýrra félaga eru konur og eru þær nú 30% af rótarýfélögum í umdæminu sem er, eftir því sem ég best veit það hæsta á Norðurlöndunum. En betur má ef duga skal. Við erum ennþá undir viðmiði RI um sjálfstætt umdæmi.
Starfið í klúbbunum er öflugt, áhugverð erindi eru á dagskrá fundanna, flestir klúbbar gera sér reglulega dagamun með margvíslegum hætti og styðja verkefni í sínu nærsamfélagi.
Þegar ég hugsa til baka þá eru það heimsóknir mínar til klúbbanna sem veittu mér hvað mesta ánægju. Ég er þakklát fyrir góðar móttökur og gaman er að hitta rótarýfélaga víðsvegar um landið. Sumir klúbbar bjóða mökum klúbbfélaga á fund þegar umdæmisstjóri heimsækir klúbbinn. Ég verð að segja að mér fannst þeir fundir sérstaklega ánægjulegir og skemmtilegir. Ég er mörgum vinum ríkari bæði hér heima og erlendis að loknu starfsárinu.
Ég er þakklát aðstoðarumdæmisstjórunum fyrir að koma með mér í heimsóknir til klúbbanna. Ég er þakklát félögum mínum í umdæmisráði fyrir stuðninginn, góð ráð og hvetjandi samtöl. Síðast en ekki síst er ég embættismönnum klúbba og félögunum öllum þakklát fyrir mikilvægt framlag til að efla Rótarý og styrkja þannig alþjóðlegt mannúðarstarf.
Við látum verkin tala í Rótarý.“