Miðvikudagur, 13. nóvember 2024
HeimFréttir"Stígum stolt fram" - kjörorð Soffíu Gísladóttur, umdæmisstjóra

„Stígum stolt fram“ – kjörorð Soffíu Gísladóttur, umdæmisstjóra

Umdæmisstjóraskipti hjá Rótarý á Íslandi fóru fram á fundi Rkl. Akureyrar, sem haldinn var sl. miðvikudag 24. júní. Við það tækifæri flutti Soffía Gísladóttir, umdæmisstjóri 2020-2021, ávarp eftir að hún hafði tekið við embættistáknum sem Anna Stefánsdóttir, fráfarandi umdæmisstjóri, afhenti henni. Ávarp Soffíu birtist hér í heild.

„Kæru félagar og  kæru vinir. Í dag er ég þakklát. Ég er þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt af Rótarý á Íslandi að fela mér þetta mikilvæga verkefni að vera umdæmisstjóri á næsta starfsári. Ég er líka þakklát klúbbfélögum mínum sem hafa stutt mig í þessu verkefni, allt frá því að ég var tilnefnd fyrir tveimur árum síðan. Það er mikils virði.

Kjörorð mitt á starfsárinu er „Stígum stolt fram“. Ég höfða til stolts rótarýfélaga um allt land, að þeir séu stoltir af því að vera félagar í mikilvægum mannúðarsamtökum á heimsvísu sem hafa þjónustu ofar eigin hag að markmiði sínu.

Ég vil með kjörorði mínu höfða til innra starfs klúbbanna. Ég mun hvetja klúbba til þess að huga að félagauppbyggingu, ekki eingöngu með það í huga að laða að nýja félaga til klúbbanna, heldur einnig með því að byggja upp góða klúbba, innan frá. Klúbbastarfið er grasrótin í Rótarýhreyfingunni, því án félaganna værum við ekki til. Það er því mikilvægt að okkur líði vel í klúbbnum okkar, fyrst og fremst, og að við styrkjum hann með því að fela öllum félögum skilgreind verkefni.

Það virkar að minnsta kosti best á mig, að hafa hlutverk og sinna því af kostgæfni. Því meiri ábyrgð sem ég fékk innan Rótarý, því skemmtilegra fannst mér og því stoltari varð ég af því að vera rótarýfélagi.

Virkjum nefndirnar okkar, skilgreinum hlutverk þeirra, búum til nýjar nefndir ef þess þarf og leggjum niður gamlar, ef þess þarf. Rótarý er lifandi, er á fullri ferð inn í framtíðina og klúbbastarfið ætti að einkennast af því. Það er líka mikilvægt að horfa út á við, skoða samfélagið og máta sig við það. Erum við með félaga úr öllum starfsgreinum?, úr öllum hópum samfélagsins? Höfum við boðið innflytjendur velkomna í klúbbinn okkar? Ég hef hvatt forseta klúbba á mínu starfsári til að huga vel að vali formanna félagaþróunarnefndanna og hef boðað þá til fræðslumótsins sem haldið verður í Garðabænum í lok ágúst. Með því vil ég leggja áherslu á virkt og öflugt félagaval til framtíðar um allt land.

Ég ætla mér á starfsárinu að byggja umdæmið upp innan frá og hef farið þá leið, nú á undirbúningstímanum mínum, að ná fyrirfram góðu sambandi við forseta klúbbanna í umdæminu með því, meðal annars, að stofna facebooksíðu þar sem við getum á einfaldan hátt átt í óformlegum samskiptum.

Ég hef lokið skipan í allar nefndir umdæmisins og geri þá nýbreytni meðal annars að stofna fræðslunefnd undir formennsku umdæmisleiðbeinanda. Ég vil leggja mikla áherslu á fræðslu innan Rótarý, með öllu því flotta fræðsluefni sem til er í svokölluðum „Learning Centre“ á heimasíðu Rotary International. Umdæmisleiðbeinandinn er Rannveig Björnsdóttir, félagi hér í Rótarýklúbbi Akureyrar, og hefur hún þegar hafið leiðtogaþjálfun á vegum danska umdæmisins 1450 á Jótlandi. Hún, ásamt nefndarfólki sínu mun innleiða öflugt fræðslustarf Rótarý á Íslandi, sem ég hef miklar væntingar til.

Ég hef líka stofnað kynningarnefnd þar sem ég er að sameina vefsíðunefndina og ritnefndina í eina öfluga nefnd undir forystu Guðrúnar Ragnarsdóttur sem er að ljúka forsetaárinu sínu í Rótarýklúbbi Reykjavík Miðborg. Markmið mitt með kynningarnefndinni er að við gerum Rótarý á Íslandi enn sýnilegri á samfélagsmiðlum en verið hefur og vekjum þannig athygli á því góða starfi og áherslum sem við stöndum fyrir. Þannig stígum við stolt fram.

Ég geri ráð fyrir að nýta tæknina enn frekar á umdæmisárinu með því að hafa Zoom fundi með forsetum klúbbanna sem og nefndum umdæmisins. Ég verð vissulega fjarri skrifstofunni okkar mestan hluta ársins og því er mikilvægt fyrir mig og fyrir starfið í umdæminu að fjarskiptatæknin, sem COVID kenndi okkur að kunna að meta svo vel, verði nýtt og þróuð. Með þessari tækni færumst við nær hvert öðru, styrkjum samstarfið og eflum þannig Rótarý á Íslandi.

En ég er líka fulltrúi Alþjóðaforseta Rotary, Þjóðverjans Holgers Knaack. Kjörorð Holgers á starfsárinu er Rotary Opens Opportunities sem við hér heima höfum útlagt sem Rótarý opnar gáttir. Holger leggur áherslu á öll þau gríðarlegu tækifæri sem Rótarý skapar, viljir þú nýta þér þau. Hann hefur verið mjög virkur í æskulýðsstarfi Rótarý í árafjöld og leggur ríka áherslu á stofnun Rotaract klúbba og öfluga ungliðahreyfingu um allan heim „……því ef við umgöngumst ekki unga fólkið þá verðum við gamaldags!“ segir hann. Þetta eru skilaboð sem við verðum að taka alvarlega hér á Íslandi sem og annars staðar. Við ætlum okkur að stofna Rotaractklúbb eða jafnvel klúbba og við ætlum okkur líka að efla æskulýðsstarfið.

Holger leggur líka ríka áherslu á að stofna nýja og fjölbreytta Rótarýklúbba og hvetur okkur til að hugsa út fyrir boxið í þeim efnum. Ég tel að COVID hafi líka kennt okkur það, að það eru engin takmörk varðandi landssvæði eða fjarlægðir, við getum átt gefandi samstarf á netinu. Við erum við það að stofna nýjan klúbb í Húnavatnssýslum undir forystu Ingvars Björnssonar fyrrum félaga í Rótarýklúbbi Akureyrar. Hugsunin með stofnun rótarýklúbbsins þar er að sameina, félagslega, sveitarfélögin í báðum sýslum og þau ætla að nýta sér tæknina, funda til skiptis í sveitarfélögunum og á erfiðasta árstímanum, yfir háveturinn að nýta sér Zoom tæknina til fundarhalda.

Þessi nýja nálgun, til fundarhalda á netinu, endurspeglar vissulega kjörorð Holgers, Rótarý opnar gáttir og sem dæmi um það tók ég þátt í ráðstefnu í Róm á vegum umdæmisins 2080 á Ítalíu fyrr í þessum mánuði þar sem ég bæði sat í pallborði og var með erindi á Zoom frá heimili mínu hér á Akureyri. Okkur eru því engin takmörk sett.

En Holger leggur líka áherslu á uppbyggingu innan frá og þó svo að áherslan hans sé á unga fólkið, leggur hann líka ríka áherslu á að „það sé enginn rangur aldur til að verða Rótarýfélagi“ og sem dæmi um það er móðir mín nýgengin í Rótarýklúbb Húsavíkur, 78 ára og í kvöld var dóttir mín tekin inn í Rótarýklúbb Akureyrar, 33 ára. Já, fjölskyldur eru líka velkomnar, pabbi minn hefur verið Rótarýfélagi í Rótarýklúbbi Húsavíkur í 53 ár og eiginmaður minn er líka félagi, hér í Rótarýklúbbi Akureyrar.

Kæru félagar, við erum fjölbreytt og við erum flott, við erum fulltrúar 115 ára gamallar, gríðarlega öflugrar hreyfingar hér heima og um heim allan sem hefur þróast og þroskast með samtímanum. Stígum stolt fram, berum pinnann með stolti því við erum Rótarý.

Rótarýfjölskylda Soffíu. Guðmundur Baldvin Guðmundsson, eiginmaður hennar, móðirin Katrín Eymundsdóttir, Soffía, dóttir hennar Íris Gunnarsdóttir og faðir Soffíu, Gísli G. Auðunsson. Öll félagar í Rótarý.

 

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum