Rótarýhreyfingin á Íslandi veitti Láru Bryndísi Eggertsdóttur viðurkenningu og stóran og vel þeginn fjárstyrk árið 2014, vegna náms hennar í orgelleik og kirkjutónlist. Í þakklætisskyni er félögum í Rótarýhreyfingunni; þeim sem hafa áhuga og eiga heimangengt, boðið ásamt mökum á tvenna orgeltónleika (annan hvorn eða báða), sem Lára heldur í Hallgrímskirkju um næstu verslunarmannahelgi.
Þeir fyrri verða kl 12.00, laugardaginn, 3. ágúst. Á efnisskrá eru verk eftir Johann Sebastian Bach og Elsa Barraine.
Þeir síðari kl 17.00, sunnudaginn 4. ágúst. Á efnisskrá eru verk eftir Johann Sebastian Bach, Elsa Barraine, Vivaldi, Gaston Litaize og Jean Guillou.
Eftir sunnudagstónleikana er móttaka fyrir tónleikagesti í Suðursal Hallgrímskirkju.
Þessir tónleikar eru liður í „Alþjóðlegu orgelsumri“ á vegum Listvinafélags Hallgrímskirkju, 22. júní – 28. ágúst 2019, þar sem fram koma alþjóðlega viðurkenndir organistar.
Boðsgestum nægir að vísa í þessa orðsendingu og nefna Rótarýhreyfinguna í miðasölu Hallgrímskirkju fyrir tónleikana.
Lára Bryndís er fædd í Reykjavík árið 1979 og ólst upp í Kópavogi. Sex ára gömul hóf hún nám í píanóleik, lengst af undir handleiðslu Árna Harðarsonar í Tónlistarskóla Kópavogs og síðar Halldórs Haraldssonar, og lauk 8. stigi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1998. Þá sneri hún sér að orgelnámi og eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1999 lauk hún 8. stigi á orgel ásamt kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar vorið 2001 og einleikaraprófi ári síðar, ásamt því að taka próf við Tónlistarháskólann í Piteå í Svíþjóð. Aðalkennarar hennar voru Hörður Áskelsson á Íslandi og prófessor Hans-Ola Ericsson í Svíþjóð. Einnig lauk Lára burtfararprófi í söng frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 2004. Lára Bryndís hefur leikið á fjölmörgum meistaranámskeiðum á Íslandi og erlendis, meðal annars hjá Jennifer Bate, Harald Vogel, Mattias Wager, Daniel Roth, Michael Radulescu, Susan Landale og Winfried Bönig.
Lára Bryndís Eggertsdóttir er hugmyndasmiðurinn á bak við tónlistarverkefnið „Ég heyrði þytinn frá vængjum þeirra“ og stýrir framvindu þess harðri hendi. Hún er fyrst og fremst orgelleikari – með margvíslegt tónlistarnám að baki – og býr núna ásamt fjölskyldu sinni í Danmörku. Þegar Lára er ekki að fást við uppeldi barnanna þriggja (Ágúst Ísleifur 2008, Hekla Sigríður 2010 og Jörundur Ingi 2012), ásamt eiginmanni sínum Ágústi Inga Ágústssyni, lækni og orgelleikara, reynir hún að koma íslenskri orgeltónlist á framfæri út um víðan völl auk þess að starfa sem organisti við Sønderbro kirkju í Horsens. Hún tekur einnig virkan þátt í tónlistarlífinu á Íslandi og heldur reglulega einleikstónleika bæði á höfuðborgarsvæðinu og víðar um landið. Lára hefur sérstaklega sterk tengsl við Langholtskirkju þar sem hún tók þátt í fjölbreyttu kórastarfi og lék fyrst í messu 14 ára gömul, og Hallgrímskirkju sem var aðalvettvangur orgelnáms hennar á Íslandi.
Lára Bryndís flutti á síðasta ári aftur heim til Íslands eftir 10 ára búsetu í Danmörku þar sem hún lauk meistaraprófi í kirkjutónlist frá Tónlistarháskólanum í Árósum vorið 2014. Aðalkennarar hennar þar voru Ulrik Spang-Hanssen og Lars Colding Wolf.
Undanfarin ár hefur hún starfað sem organisti við Sønderbro kirkju í Horsens og semballeikari hjá barokksveitinni BaroqueAros í Árósum. Frá því í september 2018 hefur Lára Bryndís verið organisti Hjallakirkju í Kópavogi auk þess að kenna við Tónskóla Þjóðkirkjunnar.