Rótarýklúbburinn Borgir-Kópavogur
STOCKHOLMS VÄSTRA
ArticleView

GREINAR

Aðventuhugvekja o.fl.

Hjálmar Jónsson, fyrrverandi dómkirkjuprestur og þingmaður flutti hugleiðingar á aðventu.

Fundurinn var í  umsjón Skemmtinefndar, formaður Ingi Kr. Stefánsson. Rannveig Guðmundsdóttir kynnti ræðumann sem var Hjálmar jónsson fyrrverandi dómkirkjuprestur og þingmaður. Hjálmar er fæddur og uppalinn í Borgarholti í Biskupstungum. Hann lauk guðfræðiprófi frá HÍ og fór til framhaldsnáms til Bandaríkjanna. Hann hefur starfað við ýmis störf, s.s. sóknarprestur, prófastur, kennari, ritstjóri, þingmaður og dómkirkjuprestur. Þegar hann fór á þing var Ólafur G. Einarsson forseti Alþingis og þá var til þessi vísa.

Út úr kirkju með eftirsjá
inn á þing er ég dottinn.
Það er ólíkt að ávarpa þá
Ólaf G. eða Drottinn.

Hjálmar sagði að morgunsöngurinn í klúbbnum vekti upp gamlar minningar úr guðfræðinni þegar Garðar Cortes kenndi söng og tónun og svo Guðrún Á. Símonardóttir. Hún minntist þess tíma í viðtali  en sagðist svo hafa hætt kennslunni þar og þar sem hún vildi bara snúa sér að efnilegum nemendum! Hann sagði einnig frá þeim sið í sínum Rótarýklúbbi að í upphafi fundar væru allir lesnir upp sem ekki voru mættir og sérstaklega getið þeirra sem ekki mættu án afsökunar. Hann ræddi um ýmsar dauðasyndir en taldi að það væri einungis ein dauðasynd: Að vera leiðinlegur! Hann sagði að aðventan væri alltaf sérstök og flestir ættu að geta tekið undir það að það sé alltaf gaman að lifa. Þetta sé tími ljóss og friðar og ræddi um börnin og vitnaði til guðspjallanna: „Í hverju barni sé ég þína mynd,“ þar sem sakleysið er augljóst. Hjálmar talaði einnig um nafna sinn, Bólu-Hjálmar og hans sé helst minnst fyrir skammarvísur, en hann hafi líka verið hið besta sálmaskáld og vildi þannig frekar minnast hins fallega og góða í fari þess manns en hinu. Svo tók hann upp léttara hjal og minntist þess þegar rætt var um að hægt væri að hafa kórsönginn á segulbandi í kirkjum, þá orti Kjartan Sigurjónsson félagi okkar:

Kórar eru í kirkjum ómissandi,
hins vegar er hægur vandi
að hafa prest á segulbandi!

Að því loknu var farið með fjórprófið og forseti sleit fundi.