Rótarýumdæmið á húsnæði á Suðurlandsbraut 54 og rekur þar skrifstofu. Rótarýklúbbur Reykjavíkur hefur verið meðeigandi og haft þar skrifstofurými. Aðstaða til fundarhalda á vegum umdæmisins og nefnda þess er einnig fyrir hendi. Umdæmið hefur nú eignast allt húsnæðið og fundaraðstaðan hefur verið stækkuð. Jafnframt verða breytingar á rekstri skrifstofunnar.
Nýlega var gengið frá samningi við Rótarýklúbb Reykjavíkur um kaup umdæmisins á hlut hans í húsnæðinu, sem var um 15%. Umdæmið á nú eitt allt húsnæðið. Unnið hefur verið að endurbótum þannig að það nýtist betur til námskeiðahalds og annarra stærri funda, sem leitað hefur verið með í aðra aðstöðu. „Þetta er fjárfesting til framtíðar og umdæmið hefur þar með tækifæri til að breyta og laga sig að þörfum hvers tíma,“ sagði Garðar.
Garðar kynnti verðandi leiðtogum í Rótarý þessar breytingar á fræðslumóti í síðustu viku. Hann rfijaði upp, að skrifstofa umdæmisins hefði verið opin hluta úr degi, fjóra daga vikunnar. Nú verður breyting þar á. Margrét Sigurjónsdóttir, skrifstofustjóri, hefur sagt starfi sínu lausu. Garðar færði henni þakkir fyrir góð störf um langt árabil í þágu Rótarý og óskaði henni velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.
Í þessu samhengi hefur verið hugað að framtíðarskipan skrifstofunnar. Með rafrænum samskiptum og tölvutækni hafa þarfirnar breyst. Því verður ekki lengur höfð opin skrifstofa á Suðurlandsbrautinni heldur verður netfang umdæmisins rotary.is stillt beint á umdæmisstjóra og síminn verður annað hvort símsvari með leiðbeiningum eða tengdur við síma umdæmisstjóra hverju sinni.