Rótarýklúbburinn Alexandria Cosmopolitan – District 2451″ í Egyptalandi kynnir um þessar mundir alþjóðlega flaggskipið sitt: „Cross Egypt Challenge“ sem klúbburinn hefur staðið fyrir í 11 ár samfleytt.
„Cross Egypt Challenge“ er alþjóðleg ævintýraferð á mótorhjólum, stórum og smáum, sem liggur um ýmis glæsileg og heillandi svæði í Egyptalandi. Þátttaka í ferðinni er opin fyrir rótarýfélaga og maka þeirra víðsvegar að úr heiminum eða vini sem eru í fylgd með þeim. Þeir sem ekki aka bifhjóli geta líka tekið þátt í þessu ótrúlega ævintýri í loftkældum fylgdarbílum.
Egypski rótarýklúbburinn hefur á undanförnum árum tekið á móti rótarýfólki víðsvegar að úr heiminum til þátttöku í þessu ótrúlega ævintýri sem hefur skilið eftir ógleymanlegar minningar og upplifanir.
Verkefnið var kynnt í janúarhefti „The Rotarian“ 2017 – sjá hér. – Það miðar að því að kynna ferðaþjónustu Egyptalands, sem efnahagslega er mjög háð móttöku erlendra ferðamanna.
Í orðsendingu frá Rkl. Alexandria Cosmopolitan til umdæmisstjóra kemur fram að klúbburinn hefur áhuga á að senda forystufólki í rótarýklúbbunum á Íslandi tölvupóst til nánari kynningar í febrúar og maí n.k.