Föstudagur, júní 21, 2024
HeimFréttirMagnús Gíslason, íþróttafrömuður, útnefndur "Eldhugi Kópavogs 2020"

Magnús Gíslason, íþróttafrömuður, útnefndur „Eldhugi Kópavogs 2020“

Magnús Gíslason var útnefndur „Eldhugi Kópavogs 2020“ á fundi í Rótarýklúbbi Kópavogs í gær fyrir störf sín að æskulýðs- og íþróttamálum í bænum. Tólf ára gamall árið 1969 stóð hann fyrir undirbúningi að stofnun Handknattleiksfélags Kópavogs og hefur alla tíð síðan helgað félaginu  störf sín sem handknattleiksmaður, stjórnarmaður og þjálfari. 

Guðmundur Jens Þorvarðarson gerði grein fyrir ákvörðun viðurkenningarnefndar klúbbsins og rakti forsöguna að stofnun HK nánar:

„Magnús ólst upp sem drengur í vesturbæ Kópavogs og stundaði nám í Kársnesskóla eins og önnur börn á hans reki. Snemma bar á því í skólanum að hann væri framtakssamur í félagsmálum og vel til forustu fallinn,“ sagði Guðmundur.  „Hann hafði mikinn áhuga á íþróttum og þá sérstaklega handbolta, en stundaði einnig frjálsar íþróttir.  Ekkert íþróttahús var þá á skólasvæðinu og aðeins eitt íþróttafélag, sem var Ungmennafélagið Breiðablik.  Þetta þótti hinum unga framtakssama manni óviðunandi.  Tólf ára gamall hafði hann því frumkvæði að því að stofna handknattleiksfélag í bekknum sínum og gerðist þar formaður. Ekki lét hann þar við sitja, heldur fór ásamt jafnaldra sínum í ferð á alla fjölmiðla á höfuðborgarsvæðinu og tilkynnti um stofnun þessa félags sem héti Handknattleiksfélag Kópavogs og fékk birt viðtal við þá félaga ásamt myndum.“
Afhending viðurkenningarinnar „Eldhugi Kópavogs“ er árlegur og mikilvægur viðburður í starfsemi Rótarýklúbbs Kópavogs.

Hófst nú fjáröflun á vegum félagsins til að kosta kaup á búningum og leigja hús til æfinga fyrir hið unga félag. Fengu félagarnir leyfi skólastjórans í Kársnesskóla til að efna til getraunastarfsemi, kvikmyndasýninga, diskóteks og dansleikja.  Þótti nú heldur lifna yfir félagsstarfsemi í skólanum.

Ásgeir Jóhannesson, félagi í Rkl. Kópavogs, sat í bæjarstjórn Kópavogs og tók þátt í kappleik bæjarstjórnar við liðsmenn HK. Hann rifjaði upp ánægjulega samvinnu þeirra sem beittu sér fyrir félagslegri eflingu bæjarfélagsins á fyrri árum.

En strákarnir hugsuðu hærra. Nú vildu þeir skrá félagið í Ungmennasamband Kjalarnesþings og Íþróttasamband Íslands.  En þá kom babb í bátinn, því  svona drengir voru ekki teknir alvarlega og fékk félagið þeirra ekki inngöngu í þessu virðulegu íþróttasambönd.  Þó fengu þrír af þessum drengjum að sitja sem gestir á aðalfundi UMSK er þeir voru 12 og 13  ára gamlir.  Þar var þeim gert ljóst að inngöngu fengi félagið ekki nema fullorðið fólk yrði þar í forsvari.  Þetta varð til þess að strákarnir fengu feður sína til að ganga í þetta strákafélag og manna stjórnina.  Tóku feðurnir því við stjórninni eftir stutta formennsku Magnúsar. En strákarnir sneru sér að handknattleiksæfingum og keppni hvar sem húsnæði var að fá svo sem í ÍR húsinu við Túngötu í Reykjavík og íÞróttahúsinu að Hálogalandi í Reykjavík. Var  félagið stofnað skv. öllum formlegheitum hinn 26 . janúar 1970 og varð því 50 ár í byrjun þessa árs.

Ævintýraleg velgegni fylgdi fljótt þessum ungu iðkendum Handknattleiksfélags Kópavogs og spiluðu þeir úrslitaleik í Íslandsmóti sömu aldursflokka strax á öðru ári félagsins.   Fimm árum síðar spilaði félagið í meistaradeildinni á Íslandsmótinu.

Á fyrstu árum HK æfði Magnús og keppti fyrir félagið auk þess að sitja í stjórn. En um 1990 kom hann inn í unglingaráð  handknattleiksdeildar félagsins af miklum krafti og sat þar í nokkur ár.  Beitti hann sér árið 1996 fyrir að komið yrði á svonefndu Ákamóti fyrir yngstu handknattleiksiðkendurna, stúlkur og drengi í 6.og 7. flokki og er það enn haldið árlega.  Er það fjölmennasta handknattleiksmót sem haldið er hér á landi.  Það er nefnt eftir fyrsta fullorðna formanni HK Þorvarði Áka Eiríkssyni. Á næstu árum sat Magnús í stjórn hanknattleiksdeildar HK, en kom svo inn í aðalstjórn HK, sem varaformaður stjórnar allt til síðasta árs er hann baðst undan endurkjöri eftir 50 ára starf fyrir félagið. Auk þessa hefur hann setið í stjórn UMSK fyrir HK og verið þar varaformaður s.l. 7 ár.

Magnús Gíslason þakkaði fyrir heiðurinn, sem Rótarýklúbbur Kópavogs hefði sýnt sér og rifjaði upp fyrstu árin í starfi HK.

„Það var mikil gæfa fyrir HK að fá til liðs við sig öfluga foreldra strax við stofnum félagsins 26.janúar 1970,“ sagði Magnús. „Stofnfundurinn var haldinn í skólastofunni okkar í Kársnesskóla og voru stofnfélagar 15 talsins. Vil ég þar helstan nefna Þorvarð Áka Eiríksson, fyrsta formann félagsins sem leiddi félagið áfram frá því að vera drengjafélag í það að verða alvöru íþróttafélag. Við stofnfélagarnir mynduðum fyrsta æfinga- og keppnisflokk félagsins, 4. flokk, sóttum um aðild að UMSK og tókum þátt í okkar fyrsta Íslandsmóti, löglegir, og urðum í öðru sæti eftir eins marks tap gegn Víkingi í úrslitaleik í Laugardalshöllinni. Auk þess vorum við strákarnir í stjórn með Áka næstu 11 árin sem hann gegndi formennsku í félaginu. 19 ára gamlir mynduðum við fyrsta meistaraflokk HK, fengum til liðs við okkur nokkra eldri og reyndari leikmenn og sigruðum það ár 3. deildina í handbolta. Árið eftir sigruðum við 2. deildina í handbolta og vorum komnir í efstu deild í handbolta tæpum 10 árum eftir stofnun félagsins.“

Árið 1983 var íþróttahúsið í Digranesi opnað, gjörbylting fyrir HK sem þá fékk góða aðstöðu til æfinga og heimaleikir HK í handbolta fóru þar fram. Árið 1974 var stofnuð blakdeild hjá HK og er hún í dag ein stærsta og öflugasta blakdeild landsins.

Árið 1992 var stofnuð knattspyrnudeild hjá HK eftir að ÍK gekk til liðs við HK, en ÍK hafði lent í fjárhagserfiðleikum og var þrýstingur frá Kópavosbæ um að sameina bæri félögin. HK var við það tækifæri úthlutað svæði við Snælandsskóla fyrir knattspyrnudeildina og fékk svæði nafnið Fagrilundur. HK gróðursetti öll trén umhverfis svæðið.

Fundarmenn hlýddu með athygli á frásagnir af hinum miklu uppbyggingarárum frumherjanna í HK í Kópavogi.

Sama ár gerðu HK og Kópavogsbær með sér samning um að HK sæi um allan rekstur íþróttahússins í Digranesi og við það tækifæri eignaðist HK sína fyrstu félagsaðstöðu í Digranesi sem fékk nafnið Hákon Digri. Árið 2009 var tekið í notkun nýtt íþróttahús við Snælandsskóla sem kom sér vel fyrir blakdeild HK sem hafði verið á hrakhólum með æfinga- og keppnishús allt frá stofnun deildarinnar. Jafnframt var tekin í notkun ný og glæsileg félagsaðsta HK við hið nýja íþróttahús.

HK er í dag eitt af 5 stærstu og fjölmennustu íþróttafélögum landsins með yfir 2100 iðkendur í 6 deildum, með yfir 160 þjálfara og leiðbeinendur á launaskrá. Á launaskrá eru einnig á annan tug starfsmanna íþróttamannvirkjanna í Kórnum sem HK sér um rekstur á fyrir hönd Kópavogskaupsstaðar og 4 starfsmenn HK sem sjá um daglegan rekstur. Þá eru í HK á fjórða hundrað sjálfboðaliðar í aðalstjórn félagsins, stjórnum deilda og ráða og til aðstoðar við þjálfun og umgjörð alls íþróttastarfs á vegum félagsins.

„Þetta uppátæki okkar strákanna í upphafi, að finna okkur eitthvað að gera og hafa eitthvað fyrir stafni, hefur heldur betur undið upp á sig og orðið að stórveldi,“ voru lokaorðin hjá Magnús Gíslasyni þegar hann veitti viðtöku verðlaunagripnum „Eldhuganum“ frá Rkl. Kópavogs.

 

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum