Miðvikudagur, 16. október 2024
HeimFréttirFjölmenni var á nýstárlegum rótarýfundi umdæmisins á Rótarýdaginn

Fjölmenni var á nýstárlegum rótarýfundi umdæmisins á Rótarýdaginn

„Þessi fundur heppnaðist mjög vel að mínu mati og tel ég að þessi tilraun verði til þess að við munum senda út einn svona hátíðarfund á hverju ári. Um 300 manns fylgdust með útsendingunni í rauntíma og lá vefsvæðið rotary.is niðri um tíma vegna álags. Margir hafa horft á fundinn eftir á, bæði rótarýfélagar sem og aðrir áhugasamir,“ sagði Soffía Gísladóttir, umdæmisstjóri Rótarý að afloknum rótarýfundi í beinni útsendingu í netheimum, sem fram fór á Rótarýdaginn, sl. þriðjudag, 23. febrúar. Þátturinn er áfram til sýningar á Youtube.

Það ríkti sérstök stemmning á skrifstofu rótarýumdæmisins á Suðurlandsbraut 54, svipað og rétt fyrir útsendingu á lítilli sjónvarpsstöð. Tæknimenn frá fyrirtækinu Skjáskot undir forystu Þorvarðar Goða Valdimarssonar höfðu í nógu að snúast við að stilla upptöku- og útsendingartækjum sínum upp og ræða við þátttakendur í dagskránni.

Í skrifstofuherberginu var förðunarmeistari að snurfusa andlit þátttakenda áður en þeir settust í sterk stúdíóljósin, og inni í sjálfu myndverinu í fundarherbergi Rótarý var búið að koma upp ljóskösturum og nokkrum tökuvélum sem gerðu kleift að auka á fjölbreytni í myndrænni útfærslu. Á slaginu kl. 17.00 sló Soffía umdæmisstjóri í bjöllu og sagði fund settan.

Umdæmisráð hafði undirbúið rammann um dagskrá Rótarýdagsins og ákveðið þetta nýstárlega form, rótarýfund „í beinni“, vegna sérstakra aðstæðna af völdum Covid-19. Útbúin voru kynningargögn með góðum fyrirvara til að vekja athygli á fundinum á vefsíðu umdæmisins og í samfélagsmiðlum. Þá birtist fréttatilkynning í Morgunblaðinu í tilefni dagsins.

Það var Soffía umdæmisstjóri sem fékk gesti í sófann og stjórnaði fundi. Á slaginu kl. 17.00 sló hún í bjöllu og sagði fund settan. Hún vék að kostum og göllum þess að halda fundi með þessum brag og gat þess að Holger Knack, núverandi alþjóðaforseti Rótarý hefði sótt fleiri fundi með rótarýfólki um allan heim en nokkur heimsforseti á undan honum vegna þess að hann hefur ekki getað farið í tímafrek ferðalög heldur notað fjarfundi í staðinn. Soffía gat þess að hún hefði sjálf verið á mörgum fundum og ráðstefnum víða um heim með aðstoð tækninnar heima á Akureyri. Minnti hún á, að þrátt fyrir hinar erfiðu aðstæður í félagsstarfi hefðu nýlega verið stofnaðir tveir nýir klúbbar í rótarýumdæminu, Rkl. Húnavatnssýslu og E-rótarýklúbbur, sem heldur rafræna fundi þvert yfir landamærin, fyrst og fremst ætlaður Íslendingum erlendis en jafnframt opinn öðrum. Forsetinn er í Cuxhaven og verðandi forseti í Texas.  

Á dagskránni var þriggja mínútuna frásögn Guðríðar Helgadóttur, Gurrýar, félaga í Rótarýklúbbnum Borgum Kópavogi, sem skýrði frá persónulegri reynslu sinni af Rótarý og hversu gefandi félagsskapurinn væri. Nefndi hún rótarýfundi með mjög áhugaverðum fræðsluerindum gestafyrirlesara á ólíkum sviðum, skemmtilegar samverustundir með klúbbfélögum og stuðning við mikilvæg samfélagsverkefni sem Rótarý vinnur að innanlands og alþjóðlega, þar sem baráttuna gegn útbreiðslu lömunarveiki ber hæst.

Bala Kamallakharan, fjárfestir í upplýsingatækni, er félagi í Rótarýklúbbnum Reykjavík International. Hann fluttist hingað til lands frá Houston í Texas með íslenskri konu sinni fyrir 15 árum. Honum var boðin þátttaka í alþjóðlega rótarýklúbbnum í Reykjavík, sem hann sagði vera eins konar sendiráð Rótarý á Íslandi, þar sem erlendir rótarýfélagar kæmu gjarnan í heimsókn meðan þeir dveljast í borginni. Minntist hann fundar þar sem 30 tannlæknar frá ýmsum löndum, allt rótarýfélagar, voru mættir á klúbbfund.  Bala hefur náin tengsl við Chennai, heimaborg sína á Indlandi. Hann beitti sér fyrir stuðningi Rkl. Reykjavík International og íslenska rótarýumdæmisins við verkefni rótarýfélaga í Chennai, þar sem mikil neyð ríkti vegna Covid-19. Verkefnið tekur m.a. til fræðslu barna sem þurfa að stunda vinnu til að afla sér og fjölskyldum sínum lífsviðurværis. Árangurinn birtist m.a. í því að nemendur hafa komist áfram í framhaldsnám í tölvufræðum eftir að hafa fengið aðgang að tölvubúnaði og öðrum áhöldum sem aflað hafði verið með styrk frá Rótarý. Sagði ánægjulegt að sjá hvernig Rótarý kæmi góðu til leiðar um víða veröld.

Eins og gerist í bestu sjónvarpsþáttum var samtalið brotið upp með frábæru tónlistaratriði, sem tekið var upp fyrirfram. Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, sópran, söng „Hexenlied“ eftir Felix Mendelsohn-Bartoldy. Kunal Lahiry lék á píanóið. Fyrir rúmu ári hlaut Álfheiður Erla  tónlistarstyrk Rótarý til framhaldsnáms erlendis.

Undir lok dagskrár á þessum velheppnaða rótarýfundi umdæmisins á Rótarýdaginn var erindi Boga Ágústssonar, fréttamanns RÚV, um bandarísk stjórnmál í aðdraganda og kjölfar nýafstaðinna forsetakosninga vestan hafs. Var þetta fjölþætt og ítarleg samantekt hjá Boga, sem býr yfir áratugalangri reynslu af fréttaumfjöllun um erlend málefni og miklum fróðleik um þróun alþjóðamála. Bogi sagði forsetana fyrrverandi og núverandi, Trump og Biden, eiga það sameiginlegt að vilja ógilda gjörðir fyrirrennara síns. Eigi þetta t.d. við um heilbrigðiskerfið og loftslagsmál. Vaxandi sundrungu meðal bandarísku þjóðarinnar og innanlandsóróa bar einnig á góma. Þá nefndi Bogi, að Trump hefði niðurlægt leiðtoga hefðbundinna bandalagsþjóða Bandaríkjanna eins og ríkjaleiðtoga í NATO og sýnt Sameinuðu þjóðunum og fleiri alþjóðasamtökum lítinn áhuga en viljað eiga tvíhliða viðræður við leiðtoga Kína, Rússlands og Norður-Kóreu.  Í sambandi við samskipti Bandaríkjanna og Íslands benti Bogi á vaxandi áhuga Bandaríkjanna á norðurskautssvæðinu og leiðir þeirra til að tryggja hagsmuni sína þar. Sú athygli beindist þó fremur að Grænlandi en Íslandi.

Sjónvarpsþætti Rótarýdagsins lauk svo með fjörlegu myndbandi, þar sem félagar í Rkl. Héraðsbúa bjóða rótarýfólk á Íslandi og maka velkomna til næsta umdæmisþings, sem haldið verður á Hallormsstað 8. og 9. október n.k.

Sjá myndband Rótarýdagsins á Youtube.

Texti og myndir Markús Örn Antonsson.

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum