Fjölsmiðjan og Snjallkennsluvefurinn, sem starfa á Akureyri að félagslegri þjónustu við ungt fólk annars vegar, og aðstoða kennara við störf þeirra með rafrænum gagnagrunni hins vegar, fengu styrk og viðurkenningu frá Rótarýumdæminu á aðalfundi þess. Verðlaunin nema kr. 500.000 til hvors aðila. Jóhanna Ásmundsdóttir, Rótarýklúbbi Akureyrar, sem á sæti í stjórn Verðlauna- og styrktarsjóðs Rótarý á Íslandi, gerði grein fyrir störfum stjórnarinnar. Samkvæmt hefð eru styrkir veittir til aðila á svæðinu, þar sem umdæmisþing er haldið hverju sinni. Tilgangur sjóðsins er að veita viðurkenningar fyrir framúrskarandi eða nýstárlegt framtak, sem unnið er í umdæminu á sviði mennta, lista, vísinda eða atvinnumála. Fram komu níu tillögur frá Rkl. Akureyrar um verðlaunahafa í ár.
Fjölsmiðjan var stofnuð á Akureyri í júlí 2007. Hún er vinnusetur fyrir ungt fólk sem stendur á krossgötum. Þar gefst því tækifæri til að þjálfa sig fyrir almennan vinnumarkað eða áframhaldandi nám. Erlingur Kristjánsson hefur verið forstöðumaður frá upphafi. Hjá Fjölsmiðjunni gefast möguleikar til að koma og starfa nokkra tíma á dag áður haldið er út á vinnumarkaðinn eða sest á skólabekk. Flestir eru á aldrinum 16-24 ára en líka er tekið á móti eldra fólki í atvinnuleit. Fjölsmiðjan rekur nytjamarkað með notuð húsgögn. Eldhús og mötuneyti er starfrækt fyrir starfsmenn en gestir og gangandi geta einnig fengið þar mat. Þá er bílaþvottastöð sem á föst viðskipti við fyrirtæki og einstaklinga. Raftækjaverkstæði tekur á móti áhöldum sem gert er við og komið á nýtjamarkaðinn. Þá eru tölvur teknar í sundur og sendar í endurvinnslu eða reynt að endurnýta það sem hægt er. Núna eru starfandi hjá Fjölsmiðjunni 24 ungmenni en hafa verið hátt á fjórða hundrað samtals frá upphafi. Þegar valið stendur á milli skólanáms og atvinnu velja langflestir vinnumarkaðinn.
Snjallkennsluvefurinn, snjallkennsla.is er vefsíða sem framsýnir kennarar hafa sett saman til að hvetja aðra kennara til að stíga fyrstu skrefin til að nýta sér tæknina við kennslu. Bergmann Guðmundsson og Hans Rúnar Snorrason eru eigendur að Snjallkennsluvefnum. Skólakerfið hefur ekki ekki náð að fylgja örri þróun og kennsluefni hefur aðallega verið á erlendum tungumálum. Eftir námskeið, sem þeir félagar sóttu töldu þeir skorta nýtt vefsvæði fyrir kennara með ókeypis aðgangi að marvíslegu efni til notkunar í skólastarfinu, og án auglýsinga.
Nú eru 73 stutt myndbönd vistuð á vefnum, samtals fjórar klukkustundir. Einnig er hægt að komast í prófa- og verkefnabanka. Þannig hafa kennarar sameiginlegan aðgang að verkefnum sem þeir hefðu sjálfir þurft að smíða. Kennarar um allt land hafa lagt til efni inn á vefinn. Það hefur gefið kennurum betri tíma til annarra þátta í þróun kennslustarfsins. Vegna COVID-farsóttarinnar hefur heimsóknum á heimasíðuna snjallkennsla.is fjölgað mikið.
Texti: Markús Örn Antonsson.