Föstudagur, september 29, 2023
HeimFréttirAlþjóðafréttirFjórtán rótarýfélagar komnir heim eftir frábært heimsþing

Fjórtán rótarýfélagar komnir heim eftir frábært heimsþing

Ásdís Helga Bjarnadóttir, umdæmisstjóri, sótti þingið í Houston og tók saman eftirfarandi frásögn:

Heimsþing Rótarý fór fram dagana 4. til 8. júní síðastliðinn í George R. Brown ráðstefnuhöllinni í Houston í Bandaríkjunum. Frá Rótarý á Íslandi sóttu 14 félagsmenn þingið frá sex klúbbum, Rkl. Héraðsbúa, Akureyrar, Mosfellssveitar, Selfoss, Grafarvogs og E-klúbbsins.

Þátttakendur voru 11.000 frá nánast öllum aðildarlöndum Rótarý. Gert var ráð fyrir mun fleirum en Covid spilaði töluvert inn í þátttökuna. Þetta var þó í fyrsta skipti sem líka var hægt var að kaupa aðgang í gegnum streymi frá þinginu og fylgjast með heima í stofu.

Setningarathöfnin var mjög hátíðleg og ekki laust við að þátttakendur fylltust stolti þegar fáni viðkomandi lands kom fram á sjónarsviðið. Fram kom í setningu að aðildarlönd Rótarý eru fleiri en að Sameinuðu þjóðunum en rótarýfélagar komu m.a. að því að stofna til þess samstarfs milli þjóða á sínum tíma. Fjöldi ávarpa voru flutt. Heimsforseti Rótarý Shekar Metha frá Indlandi fór yfir árangur starfsársins en meðal áherslna hans var fjölgun félaga og klúbba sem og að styrkja og efla unglingsstúlkur (Girl empowerment). Óhætt er að segja að í báðum málaflokkunum hefur náðst gríðarlegur árangur. Félögum hefur fjölgað yfir 40.000 á heimsvísu og klúbbar farið úr því að vera um 14 félagsmenn í um 120. Það kemur ekki síst til af því að búið er að rýmka um fundarformið og farið að bjóða upp á fleiri útfærslur á utan um haldi klúbba, s.s. fjarfundum og rótarskotum, sem og eflingu Rótarakt klúbba fyrir yngra fólk.

Shekar og yfirmaður Rótarýsjóðsins komu inn á það að rótarýfélagar ásamt Gates Foundation hafa lagt frá árinu 1985 til dagsins í dag alls 2,5 milljarða USD til að vinna gegn lömunarveikinni og náð 99,5% árangri. Mikil stemning er milli aðildarfélaga að ná 100% árangri og miðað við stöðuna núna eru líkur á að það náist enda orðin nokkuð góð samstaða um bólusetningarherferðir í Pakistan og Afganistan þar sem veiran hefur greinst.

Jennifer Jones verðandi heimsforseti og fyrsta konan sem gegnir því hlutverki innan RI hélt áhrifaríka ræðu þar sem hún fór yfir sínar áherslur á komandi starfsári. Í meginatriðum leggur hún áherslu á þá staðreynd að í gegnum samstarf innan Rótarý, með allri þeirri flóru fagstétta, getum við náð ótrúlegum árangri og jafnvel draumkenndum markmiðum. ,,Imagine“ er hennar áherslu yfirskrift.  Þessi áhersla fékk jafnframt byr í gegnum ávarp sem Apollo-geimfarinn Charlie Duke flutti. Þar sem hann greindi frá þeim mikilvægu fagteymum sem valin eru saman til að undirbúa hverja og einustu geimferð. Teymi sem þurfa að rýna í alla þætti og sjá fyrir sér, ekki bara hvernig hlutirnir eru frá A-Ö, heldur umfram það og langt umfram það – allar sviðsmyndir sem upp geta komið. Á vissan hátt þarf og er Rótarý að starfa í gegnum sín samfélags- og mannúðarverkefni. Jennifer mun einnig halda áfram með þá áherslu að efla ungar stúlkur sem og hefur verið framlengdur þriggja ára samningur um verkefnið Shelter Box er varðar kistla með neyðarbúnaði fyrir þá sem hafa misst húsnæði sitt í átökum, náttúruhamförum eða öðru. Mikilvægt verkefni sem hefur sannað gildi sitt víða um heim.

Afþreying og dagskráratriði voru með fjölbreyttu sniði.

Fjölmargar málstofur voru í gangi alla daga sem þátttakendur gátu valið um. Hver um sig tók á málefnum klúbba, umdæma, viðfangsefnum daglegs lífs og gagnvart yfirstjórn RI og Rótarýsjóðsins ásamt helstu verkefnum á vegum Rótarý. Jafnframt var ákveðið svæði í ráðstefnuhöllinni sem nefndist ,,House of Friendship“. Þar voru nokkrir sölubásar en fyrst og fremst kynningar á samstarfsverkefnum rótarýklúbba sem og á samtökum Rótarýfélaga, „Fellowhips“ er tengjast ákveðnum áhugamálum. Til að kynna sér það frekar má vísa á eftirfarandi slóð: https://www.rotary.org/en/our-programs/more-fellowships Þarna eru hópar áhugafólks um mótorhjól sem fara einu sinni á ári í ferðalag saman, hópar sem hafa áhuga á húsaskiptum, umhverfismálum, bútasaum, radíoamatörar eru í félagi og margt, margt fleira. Virkilega áhugaverður þáttur innan Rótarý sem er öllum opinn og er mjög gefandi.

Ásdís Helga ásamt nokkrum öðrum norrænum umdæmisstjórum í Houston.

Samhliða heimsþinginu sjálfu var boðið upp á ýmsa viðburði, m.a. heimsókn í Space Center og til Galveston, kvöldboð þar sem Rótarýklúbbar buðu gestum til fundar, menningarkvöld með áherslu á sérstöðu Texas og margt fleira. Íslensku þátttakendurnir tóku virkan þátt í þessum viðburðum sem og í fjölmörgum málstofum. Auk þess buðu umdæmisstjórar innan zone 17-18 til kvöldverðar. En, Ísland tilheyrir zone 18 og varð algjör sprenging í þátttöku þannig að færri komust að en vildu.

Í heildina var þetta einstök upplifun og því óhætt að hvetja alla rótarýfélaga til að taka þátt í svona viðburði og sem flestum viðburðum sem eru á vegum umdæma, Sóna (zones) og Rotary International. Þátttakan er afar fræðandi, gefandi og yndislegt að kynnast fólki með svipuð áhugamál hvaðanæva úr heiminum. Þátttökuna má að nokkru líkja við ættar- eða bekkjarmót og því einstök upplifun, um leið að hún kveikir á hugmyndum, ástríðu og verður jafnvel til þess að samstarfsverkefni mótist, eða leggur grunn að heimsóknum milli aðila og klúbba.  

Næsta heimsþing verður í Melbourne í Ástralíu 27.-31. maí 2023 – https://convention.rotary.org/en/melbourne búið er nú þegar að opna fyrir skráningar á það og því um að gera að skrá sig, því fyrr því lægri eru þátttökugjöldin. Það er svo að lokum mikilvægt að minna á einn stærsta viðburð sem Rótarý á Íslandi hefur komið að með því að skipuleggja með sónum 17-21 í Reykjavík í haust, nánar til tekið 13-18. september – sjá https://www.rotary.is/summit/. Við hvetjum félagsmenn til að skrá sig sem fyrst á viðburðinn sem nefnist Action Summit including Power of Rotary Seminar sem og Summit dinner/partynight.

Þessi alþjóðlegi viðburður verður einstakur og ekki síst vegna þess hversu margir fyrrverandi heimsforsetar og forsvarsmenn RI ætla að mæta. Meðal gesta verður verðandi heimsforseti 2022-2023 Jennifer Jones, sem er mikill heiður fyrir okkur innan Rótarý á Íslandi. Virk þátttaka innan hins fjölbreytta starfs Rótarý er einstaklega gefandi og því hvetjum við alla til að kynna sér það sem er í boði og virkilega njóta þess sem og miðla til annarra.

 

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Most Popular

Recent Comments