Stefnt er að því að halda verkefninu áfram og fylgja stúlkunum þar til þær hafa útskrifast. Allar stúlkurnar sem njóta styrkjanna eru duglegir námsmenn en koma frá fátækum fjölskyldum og eiga á hættu að þurfa að hverfa frá námi ef þær fá ekki fjárhagslega aðstoð. Þar sem Úganda er fátækt land, sem er illa statt eftir áratuga borgarastyrjöld, standa stúlkur þar höllum fæti þegar kemur að námi, og fjölskyldur vilja frekar styrkja drengi til náms en stúlkur. Án menntunar bíður þeirra fátækt og oft eru þær giftar áður en þær ná 15 ára aldri.
Íslenskur forseti í alþjóðlegum rótarýklúbbi í Róm
„Ég byrjaði í Rótarý sem stofnfélagi í E-rótarýklúbbnum í Reykjavík árið 2013. Þegar ég flutti til Ítalíu frétti ég af því að það væri verið að stofna nýjan alþjóðlegan rótarýklúbb í Róm og gerðist félagi þar þegar ég flutti í litla þorpið þar sem ég bý núna og er um klukkutíma akstur frá Róm.“ Þannig lýsir Sif Traustadóttir aðdragandanum að því að hún tengdist Rótarý á nýjan leik suður í Róm. Hún er sjálfstætt starfandi dýralæknir og hefur verið félagi í Rotary Club Rome International síðan 2017 og tók við sem forseti þar núna í sumar. Rome International er ungur klúbbur, stofnaður 2016 og meira en helmingur félagsmanna eru konur.
„Við höfum frá upphafi stundað öfluga fjáröflun og höfum einbeitt okkur að menntun stúlkna, fyrst í samstarfi við Matvælastofnun Sþ. en núna á þessu ári höfum við verið að vinna að því að setja upp okkar eigið alþjóðlega verkefni í samstarfi við Alliance for African Assistance og rótarýklúbbinn í Gulu í Úganda,“ segir Sif um helstu viðfangsefni hjá klúbbnumi. „Verkefnið fékk styrk frá umdæminu okkar, D2080 fyrir Róm og Sardiníu. Við fengum 3300€ styrk og höfum alls safnað yfir 11.000€. Við getum því fjármagnað 50 stúlkur í Úganda til að fara í skóla og fá skólamáltíðir í eitt ár.
„Ég er mjög stolt af því að hafa verið valin forseti klúbbsins og taka virkan þátt í að koma verkefninu okkar á laggirnar,“ segir Sif. „Þetta ár hefur verið erfitt hjá okkur eins og öðrum félagasamtökum varðandi fundi og við höfum þurft að færa mestalla starfsemina á netið.“ Fjarfundir hafa gefið klúbbnum frábært tækifæri til að fá gesti frá öðrum löndum og hafa tveir gestir frá Íslandi flutt erindi. Fyrst, þann 11. maí, kom Sigrún Guðjónsdóttir, sem er frumkvöðull í fyrirtækjarekstri á netinu og heldur heimili bæði á Íslandi og í Zürich í Sviss. Erindi hennar var “Closing the Dream Gap” og fjallar um hvernig hægt er að efla stúlkur og konur í gegnum fyritækjarekstur. Þann 28. september kom Soffía Gísladóttir, umdæmisstjóri á Íslandi, í heimsókn og sagði frá Rótarý á Íslandi og sinni sögu. Þá hafa einnig verið haldnir sameiginlegir klúbbfundir með klúbbum erlendis, til dæmis í Bandaríkjunum og Serbíu.
„Við erum hópur fólks frá öllum heimshornum og höfum lagt áherslu á að fundirnir okkar séu fjölbreyttir og áhugaverðir. Félagsmenn hafa verið mjög ánægðir með að kynnast betur Íslandi og Íslendingum,“ sagði Sif og bað fyrir kveðjur heim.