Þriðjudagur, 29. apríl 2025
HeimFréttirKlúbbafréttirFræðandi haustlitaferð um Suðurland

Fræðandi haustlitaferð um Suðurland

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Breiðholt

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Breiðholt fór í sína árlegu haustlitaferð í september. Lagt var af stað frá Breiðholtskirkju svo sem venja hefur verið. Formaður ferðanefndar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson lýsti tilhögun ferðarinnar og nefndi staði sem heimsóttir yrðu. Fyrsti viðkomustaður skyldi vera Veiðsafnið á Stokkseyri og sá síðasti Sagnagarður í Gunnarsholti. Að svo mæltu rétti hann Sigurði Bjarnasyni hljóðnemann sem Sigurður hélt utan um stóran hluta leiðarinnar, stundum með hjálp Vilhjálms.

Á Stokkseyri var höfð viðdvöl í Veiðisafninu þar sem rekstrarstjóri og eigandi safnsins Páll Reynisson útskýrði á skemmtilegan hátt gripi þá sem á safninu er að finna, bæði byssur og uppstoppuð dýr, í heilu lagi og að hluta til. Frá Veiðisafninu var ekið austur í gegnum þorpið á Stokkseyri í átt að Vestri-Loftsstöðum. Þar tók á móti ferðafólkinu Jónína Bjartmarz og eiginmaður hennar Pétur Þ. Sigurðsson. Jónína sem er meðlimur í Rkl. Reykjavík-Breiðholt bauð gesti velkomna og bað þá um að láta fara vel um sig. Ferðafélagar smökkuðu á nesti sínu sem var hið girnilegasta. Á Loftsstöðum er ferðaþjónusta í uppbyggingu og boðið upp á gistingu í stórum hvítum tjöldum, vel útbúnum að innanstokksmunum.

Eftir skamma dvöl að Loftsstöðum voru húsráðendur kvaddir og ekið að Rjómabúinu á Baugsstöðum. Rekstur þess hófst 1905 og stóð til 1952 en þá var því breytt í verslun sem rekin var til ársins 1969. Rjómabúið var opnað sem safn 1975 og þangað er athyglisvert að koma og fræðast um rekstur og vinnubrögð sem viðhöfð voru á þessum stað fyrir eitt hundrað árum.

Skammt fyrir austan Rjómabúið, í þjóðbraut, er bærinn Tunga, þar sem rekin er snotur verslun sem ber heitið „Sveitabúðin Sóley“. Í versluninni er að finna ýmsa nytja- og skrautmuni sem smekklega er fyrirkomið. Eftir stutta viðkomu í Sveitabúðinni var aftur haldið af stað í austurátt og upp með Þjórsá til listakonunnar Sigríðar, „Siggu á Grund í Flóahreppi“. Sigga er útskurðarmeistari, löngu landskunn, og hefur unnið til fjölda viðurkenninga og verðlauna í sinni listgrein bæði hérlendis og erlendis. Þótti fólki mikið til koma um handbragð hennar og spurði hana margs í tengslum við verk hennar. Eftir skemmtilega heimsókn og spjall við listakonuna var haldið að Urriðafossi sem er í Þjórsá skammt frá Grund og í sömu sveit. Urriðafoss er vatnsmesti foss landsins. Hér fellur Þjórsá fram af jaðri hins mikla Þjórsárhrauns sem átti upptök sín á Veiðivatnasvæðinu fyrir 8.500 til 10.000 árum. Í fyrrasumar (2017) hófst stangveiði við fossinn (tvær stangir) og var það góð að fjölgað var í fjórar stangir í sumar og er hér hæsta meðalveiði á stöng á landsvísu.

Eftir að hafa góða stund virt fyrir okkur fossinn og veiðimenn var haldið af stað til loka áfangastaðar sem var Landgræðslustöðin að Gunnarsholti. Þar tók á móti hópnum Guðmundur Halldórsson í húsi sem nefnist Sagnagarður. Guðmundur hefur starfað hjá Landgræðslunni um árabil. Hann leiddi hópinn um salarkynni Sagnagarðs og upplýsti í máli og myndum, sem voru fjölmargar, hvað áunnist hefur í baráttunni við uppblástur, sandfok og landeyðingu. Í máli hans kom fram að beitarfriðun gegn ágangi búfjár spilar hér stóra rullu. Að loknu erindi Guðmundar var honum klappað lof í lófa enda var frásögn hans hin fróðlegasta og greinilegt að Landgræðslan sinnir störfum sínum af alúð og dugnaði.

                                           Frásögn: Sigurður Bjarnason. Myndir: Friðrik Alexandersson.

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum