Eftir fjarfundi fyrir nýja klúbbleiðtoga í Rótarý sl. tvö ár fengu hinir tilnefndu embættismenn fyrir næsta starfsár tækifæri til að koma saman persónulega án sóttvarnagrímu á fræðslunámskeiði sem haldið var í Borgarholtsskóla í Reykjavík um síðustu helgi. Bjarni K. Grímsson, sem í sumar tekur við embætti umdæmisstjóra á Íslandi, flutti ávarp í upphafi námskeiðsins og stjórnaði fundum þess. Því næst flutti Ásdís Helga Bjarnadóttir, núverandi umdæmisstjóri, yfirlit yfir helstu atriði í starfi Rótarý á Íslandi.

Nýr þáttur í starfinu hjá Rótarý á Íslandi er efling kynningarstarfs inn á við og út á við, sem sérstök kynningarnefnd umdæmisins annast undir forystu Sigríðar Bjarkar Gunnarsdóttur. Gerði hún þátttakendum grein fyrir mikilvægi kynningarstarfs fyrir einstaka klúbba og hreyfinguna í heild, og hvernig Rótarýmiðlar starfa.
Esther Guðmundsdóttir, sem sæti á í stjórn Verkefnasjóðs umdæmisins, gerði grein fyrir úthlutunum styrkja úr sjóðnum fyrir þetta ár. Veittar voru 3,7 millj. króna til 11 verkefna. Sjóðurinn hefur á stuttum starfstíma sínum stóreflt starf einstakra klúbba að margvíslegum verkefnum í nærsamfélögum sínum og verið mikil lyftistöng fyrir Rótarý á Íslandi.
Dagana 13.-18. september n.k. verður haldið „Iceland 2022 Action Summi“ með þátttöku Rótarýleiðtoga í umdæmum á svæðum 17,18,19 og 20a í N-Evrópu en einnig með almennri, alþjóðlegri þátttöku rótarýfélaga. Gert er ráð fyrir að um 500 manns sæki viðburðinn, sem fram fer í Reykjavík. Soffía Gísladóttir, fyrrv. umdæmisstjóri, sem er framkvæmdastjóri verkefnisins hér á landi, gerði grein fyrir undirbúningi ráðstefnunnar.
Geir A. Guðsteinsson og Sigríður Björk Gunnarsdóttir tóku myndirnar frá fræðslumótinu, sem fylgja þessari grein.
Guðni Gíslason, vefstjóri umdæmisins, skýrði þátttakendum frá innleiðingu Polaris, sem er nýtt upplýsingakerfi fyrir félagaskráningu sem forystufólk í kúbbunum mun vinna með. Þar að auki var ítarlegar farið í hin margvíslegu störf og verkþætti sem bíða nýrra forseta, ritara og gjaldkera. Það var Garðar Eiríksson, fyrrv. umdæmisstjóri, sem fór nákvæmlega yfir þau atriði og gerði hann einnig grein fyrir greiðslum klúbba og umdæmisins til sjóða Rotary International og skýrði tilgang þeirra.
Undir stjórn aðstoðarumdæmisstjóranna Guðlaugar B. Guðjónsdóttur, Jóns Karls Ólafssonar og Vilborgar Stefánsdóttur störfuðu siðan umræðuhópar þar sem skipst var á hugmyndum um áhugaverð verkefni. Leitað var svara við spurningunni: „Hvernig ætlum við að styrkja klúbbana?“ og síðast en ekki síst var fjallað um starfsáætlanir þeirra 2022-2023. Hópstjórar gerðu síðan grein fyrir helstu niðurstöðum í almennum umræðum.
Þessu fyrsta fræðslumóti í tvö ár, þar sem þátttakendur hittust persónulega, lauk síðan með ræðu Bjarna K. Grímssonar um starfið framundan.