Fimmtudagur, febrúar 22, 2024
HeimFréttirFrú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, 90 ára

Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, 90 ára

Í dag 15. apríl er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, 90 ára. Vigdís gekk til liðs við Rkl. Reykjavík Miðborg á fullgildingarhátíð klúbbsins 16. nóv. 1995.  Eitt af markmiðum með stofnun Rkl. Reykjavík Miðborg var að klúbburinn yrði blandaður klúbbur með jafnri þátttöku karla og kvenna. Sólveig Pétursdóttir, fyrrverandi ráðherra, var fyrsti forseti Rkl. Reykjavík Miðborg.  Sólveig ákvað á fyrsta starfsári klúbbsins að bjóða Vigdísi aðild að klúbbnum. Vigdís sýndi klúbbnum mikinn sóma með að þekkjast boð Sólveigar og ganga til liðs við nýjan klúbb.

Vigdís og Bryndís Torfadóttir, fyrrv. forseti Rkl. Kópavogs.

Á þessum árum heyrðust efasemdaraddir um að konur ættu erindi í félagsskapinn. Það varð konum því mikil hvatning til að starfa í Rótarýhreyfingunni, þegar frú Vigdís gerðist félagi í Rkl. Reykjavík Miðborg og gerði jafnréttismarkmiðum klúbbsins hátt undir höfði.  Vigdís á ríkan þátt í því öfluga starfi sem er innan klúbbsins. Þar hafa konur alltaf verið mjög sýnilegar í embættum og mikið jafnræði ríkir meðal félaganna.

Frú Vigdís hafði löngu áður markað spor sín í Rótarýhreyfingunni, en talið er að hún hafi verið fyrsta konan til að halda erindi í Rkl. Reykjavíkur og árið 1989 var hún sæmd Paul Harris-orðu á Bessastöðum.  Jón Arnþórsson var þá umdæmisstjóri; hann sagði við afhendinguna:  „Á Íslandi er nú framundan umdæmisþing á Akureyri í júní n.k. og enn er gróður á dagskrá. Motto þess verður „Gætum að gróðri jarðar“. En það er einmitt þessi óeigingjarna framtíðartrú að sá og gróðursetja, ekki til að uppskera sjálfir heldur að fjárfesta í framtíðinni, sem er aðall Rótarýs.  Okkur er ljóst kæri forseti, frú Vigdís, að þar eigum við samleið með yður. Íslensk Rótarýhreyfing óskar að fá að heiðra yður og afhenda Paul Harris orðuna, ásamt heiðursskjali undirrituðu af forsetum Rótarýsjóðsins og hinnar alþjóðlegu Rótarýhreyfingar, þar sem þakkað er sérstaklega mikilvægt starf að því að efla og bæta skilning og vináttu þjóða heimsins.“

Á umdæmisþingi árið 2010 sæmdi Sveinn Skúlason, umdæmisstjóri, frú Vigdísi Paul Harris orðu með þrem rúbínum, fyrst  Rótarýfélaga  á Íslandi. Hann sagði af því tilefni að frú Vigdís „ hafi sýnt með fasi sínu og framkomu að hún sé sannur Rótarýfélagi sem allir séu stoltir af“.

Frú Vigdís  hefur ávallt verið dyggur talsmaður Rótarýhugsjónarinnar með framgöngu sinni og málflutningi.  Oft hefur hún brugðist við kalli Rótarýklúbba og flutt erindi á klúbbfundum og ávallt eru þeir fundir fjölsóttir. Við Rótarýfélagar vitnum oft í orð hennar þar sem hún líkir Rótarý við „opinn háskóla“.   Það er mikill heiður fyrir Rótarý á Íslandi að hún er einn af félögum okkar.   Frú Vigdís er heiðursfélagi í Rkl. Frederiksberg Danmörk. Hún er einnig heiðursfélagi í Rkl. Reykjavik Miðborg.

Fyrir tæpu ári síðan gáfu Rkl. Reykjavík Miðborg og aðrir velunnarar Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur málverk af frú Vigdísi.   Stephen Lárus Stephen, sonur Karólínu Lárusdóttur myndlistarkonu, málaði myndina. Vigdís sagði við afhendinguna að málverkið væri sér kært. „Þakka þér fyrir að mála svona flotta mynd af mér, ég þori ekki að segja að hún sé falleg,“ sagði Vigdís við Stephen.

Rótarý á Íslandi þakkar frú Vigdísi Finnbogadóttur fyrir að vera fyrirmynd innan sem utan Rótarý, fyrir hennar stuðning við Rótarýhugsjónina sem er „Þjónusta ofar eigin hag“ og ekki síst fyrir hennar sérstaka framlag til að efla hlut kvenna í starfi Rótarýhreyfingarinnar.  Megi hún áfram vera landsmönnum hvatning með framgöngu sinni.

                                                       Anna Stefánsdóttir, umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi.

                                                                                  

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum