Fyrr í þessum mánuði var Guðrún Sigríður Matthíasdóttir formlega boðin velkomin sem félagi í Rkl. Ísafjarðar, fyrsta konan sem gengur í klúbbinn. Með þessu var brotið blað í sögu Rótarýklúbbs Ísafjarðar. Við þetta tækifæri sagði forseti klúbbsins:

„Sögulegir atburðir gerast sjaldan. Það er einmitt ein ástæðan fyrir því að þeir eru sögulegir! Í dag féll eitt helsta karlavígi á vesturhveli jarðar, þegar kona var tekin inn í Rótarýklúbb Ísafjarðar. Verðugur fulltrúi breytinga og heimurinn verður aldrei samur!“
Rifjað var upp að Rótarýklúbbur Ísafjarðar hefði legið undir gagnrýni fyrir að vera karlaklúbbur einvörðungu og orðinn sá eini í Rótarý á Íslandi. Tekið var fram að nokkurs misskilnings hefði gætt í umræðunni þar sem vilji klúbbfélaga hefði ekkert haft með viðhorf til kvenna að gera.
„En nú bjóðum við Guðrúnu Sigríði Matthíasdóttur velkomna í klúbbinn og teljum hana góðan „ísbrjót“ til að feta konum leið og framgang í Rótarýklúbbi Ísafjarðar,“ sagði forseti klúbbsins, Sævar Þór Ríkharðsson. „Í þessu felst engin uppgjöf heldur viðurkenning á breytingum í okkar góða samfélagi og virðing fyrir konum. Klúbburinn mun breytast, örugglega til batnaðar og okkur verður bara skemmt.“