Föstudagur, september 22, 2023
HeimFréttirGjörbreyttar aðstæður hjá skiptinemum Rótarý

Gjörbreyttar aðstæður hjá skiptinemum Rótarý

Heimsfaraldurinn hefur haft víðtæk áhrif á starfsemi Rótarý um allan heim. Samkomubann olli því að fundahald klúbba lagðist niður í venjulegri mynd, námskeiðum og alþjóðaþingi var aflýst, röskun hefur orðið á ýmsum verkefnum að mannúðarmálum og aðstaða um 9000 skiptinema Rótarý um heim allan hefur verið í mikilli óvissu.

„Varðandi erlendu skiptinemana okkar hér heima og íslensku skiptinemana okkar sem eru erlendis munum við í æskulýðsnefnd umdæmisins ekki leggja til að kalla okkar skiptinema heim né senda þá sem eru hér til síns heima en að sjálfsögðu erum við á vaktinni og munum áfram fylgjast með og meta stöðuna á hverjum tíma,“ upplýsti Klara Lísa Hervaldsdóttir. 

Í orðsendingu sem nefndin sendi skiptinemunum og aðstandendum þeirra var tekið fram að alþjóðaskrifstofa Rótarýhreyfingarinnar hefði mælst til þess að rótarýklúbbar, hver í sínu landi, bregðist við eins og aðstæður leyfa og hentar á hverjum stað.

Mælst var til þess, að skiptinemarnir á Íslandi gerðu það líka, færu eftir reglum landlæknis sem birtar eru á vefsíðunni landlæknir.is. Í orðsendingunni segir ennfremur:“Við mælum ekki með því að krakkarnir fari til síns heima; það verður að taka á ástandinu á hverjum stað. Við gerum ráð fyrir að allir skiptinemarnir okkar séu á vönduðum heimilum, sem munu leysa þetta eins og um þeirra eigin börn sé að ræða (sem og er).“

Þrír erlendir skiptinemar eru hér á landi: Carlee Elaine Goold, Bandaríkjunum, Rkl. Breiðholts, Mateus Maia Fabro, Brasilíu, Rkl. Hafnarfjarðar og Pauline Clémentine Dano, Frakklandi, Rkl. Akureyrar. Carlee hyggt flýta heimför sinni til Wyoming vegna erfiðra aðstæðna hjá fjölskyldunni, þar sem faðir hennar varð atvinnulaus af völdum faraldursins.

Fjórir skiptinemar frá Íslandi hafa dvalist erlendis í vetur; í Brasilíu, Frakklandi og tveir í Bandaríkjunum. Tveir eru komnir heim vegna faraldursins, frá Brasilíu og Flórída.

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir dvelst áfram í Frakklandi.  „Það var niðurstaða okkar foreldranna að vera ekki að kalla hana heim. Hún býr í litlum bæ á Bretagne-skaganum og hefur verið hjá góðum fjölskyldum og líkar mjög vel. Við höfum ekkert heyrt um að Frakkarnir vilji senda hana heim,“ segir Sigurbjörn Gunnarsson, faðir Silju Rúnar.

Sjálf hefur Silja Rún tekið saman og sent okkur frásögn af dvöl sinni sem skiptinemi Rótarý í Frakklandi við gjörbreyttar aðstæður, sem hafa nánast lamað allt þjóðlíf Frakka og haft í för með sér miklar áskoranir fyrir Silju Rún, sem og franska skólafélaga hennar og vinina úr hópi Rótarýnema.  Silja Rún hefur orðið:

Skiptinemar Rótarý dveljast hjá nokkrum fjölskyldum yfir skólaárið. Hér er Silja Rún með fyrstu gistiforeldrum sínum á ferðalagi.

28.mars 2020

Halló. Ég heiti Silja Rún og ég er skiptinemi í Frakklandi. Ég kom hingað síðastliðinn ágúst og fagnaði 7 mánuðum í gær. Eins og flestir vita er kóróna-vírusinn á ferðalagi og er ástandið hérna í Frakklandi nokkuð flókið. Ég er heppin með það að núna bý ég í litlum bæ á Bretagne skaganum sem heitir Plougastel-Daoulas en heimilið mitt er algjörlega í útjaðri bæjarins svo ég hef ákveðið frelsi.

Þetta byrjaði allt fimmtudaginn 12. mars þegar forseti Frakklands, Macron, kom fram í sjónvarpinu og hafði tekið þá ákvörðun að loka öllum skólum í Frakklandi í óákveðinn tíma. Ég var á æfingu þegar ávarpið var en þegar ég leit á símann minn eftir á var ég með helling af tilkynningum frá krökkum úr skólanum en líka hinum skiptinemunum sem eru á Bretagne skaganum. Ég var fyrst frekar glöð, hver vill ekki fá smá frí úr skólanum, en svo gerði ég mér betur grein fyrir því hvað þetta allt þýddi. Ég hafði auðvitað áhyggjur af því að ég yrði send heim og hvað þetta þýddi yfirhöfuð fyrir skiptinámið mitt. 

Með franskri systur.

Ég er núna búin að vera heima í tvær vikur. Fyrstu dagana var þetta frekar rólegt. Ég og ‘host’ systir mín fórum saman á ströndina sem er nálægt heimilinu mínu, fórum út að hlaupa og allskonar fleira. En svo voru reglurnar hertar og eins og staðan er núna má ég fara út einu sinni á dag, ekki lengur en klukkutíma og ekki lengra heldur en 500m til 1km frá heimilinu mínu. Eins og ég sagði áður er ég nokkuð heppin með staðsetningu því þegar við fjölskyldan förum út að labba hittum við oftast engan og getum farið inn í skóg ef við viljum, eða gengið eftir veginum. 

Skólarnir hafa tekið upp kennslu í gegnum netið, það er app þar sem kennararnir setja inn heimavinnu og verkefni til að gera. Það er erfiðara að fylgja skólanum núna þar sem ég skil ekki allt en ég geri það sem ég get og fæ hjálp frá fjölskyldunni minni ef það er eitthvað sérstaklega flókið. Ég á líka vini úr skólanum sem geta útskýrt eitthvað fyrir mér í gegnum netið en samskiptin hafa aðeins breyst því við hittumst ekki lengur á hverjum degi. Ég reyni eins og ég get að vera í sambandi við krakkana úr skólanum en ég spjalla líka mikið við hina skiptinemana af Bretagne skaganum.

Sem betur fer er ég ekki ein allan daginn, ég á þrjú systkini sem eru líka heima en ‘host’ mamma mín vinnur þrjá daga í viku heima. Ég átti að skipta um fjölskyldu fyrstu helgina í apríl en núna er búið að lengja útgöngubannið í minnsta kosti í 15 daga í viðbót, eða þangað til 15. apríl svo ég verð hjá þessari fjölskyldu þangað til útgöngubanninu er létt, en við vitum ekkert hversu lengi það gæti orðið. Við erum þó öll mjög róleg, erum ekki á miklu hættusvæði og gerum okkur öll grein fyrir því að ef við pössum okkur ætti allt að vera í lagi. 

Silja Rún með öðrum skiptinemum Rótarý á ferðalagi.

Það sem mér finnst erfiðast við allar þessari lokanir er að akkúrat núna ætti að vera Rótarý helgi þar sem allir skiptinemarnir í Frakklandi hittast. Það voru rosalegar væntingar en auðvitað líka spennandi að hitta alla skiptinemana í Frakklandi, ekki bara þá sem eru úr mínu umdæmi. Krakkarnir úr mínu umdæmi eru samt bestu vinir mínir hérna úti og það voru líka mikil vonbrigði þegar rútuferðinni um Evrópu var seinkað, kannski aflýst. Eins og staðan er núna er planið að hafa rútuferðina í byrjun júní en við verðum að sjá hvernig þetta þróast. Allir hittingar þar til í júní hafa verið aflýstir og er ennþá spurningamerki við rútuferðina um Bretagne sem á að vera um miðjan júní.

Eins og staðan er núna er ég ekki á leiðinni heim. Ég vil endilega ná að klára skiptinámið mitt og vona bara að ástandið batni og skólarnir opni aftur. En á meðan útgöngubannið er í gildi er ég bara heima, geri heimavinnuna mína, spila allskonar leiki og á spil með fjölskyldunni og reyni að halda í jákvæðnina.

Með kveðju, Silja Rún.

 

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Most Popular

Recent Comments