Tvennir veglegir tónlistarstyrkir voru veittir afburða tónlistarkonum, þeim Hörpu Ósk Björnsdóttur og Ragnheiði Ingunni Jóhannsdóttur, á hátíðartónleikum Rótarý í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar 4. apríl sl. en styrkirnir eru ætlaðir til að styðja við frekara nám þeirra í tónlist.
Harpa Ósk Björnsdóttir sópransöngkona hlaut annan styrkinn en hún var ein örfárra söngvara sem tekin var inn í Óperudeild leiklistar- og tónlistarakademíunnar í München fyrir tveimur árum og lýkur hún þaðan meistaraprófi í vor.
Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir, sópransöngkona, fiðluleikari og hljómsveitarstjóri, hlaut hinn styrkinn en hún var valin „Bjartasta vonin í íslensku tónlistarlífi“ á íslensku tónlistarverðlaununum 2023. Hún stundar nám í hljómsveitarstjórnun við Malko Academy for Young Conductors á vegum DR hljómsveitarinnar í Kaupmannahöfn og lýkur þaðan prófi í vor. Hún heldur síðan til enn frekara náms í hljómsveitarstjórnun í Ósló í haust.
Glæsilegir tónleikar
Tónleikarnir voru hinir glæsilegustu þar sem þær Harpa Ósk og Ragnheiður Ingunn sungu sig inn í hjörtu viðstaddra með glæsilegri túlkun sinni á lögunum sem þær sungu.
Þá lék Matthías Stefánsson fyrir gesti á fiðlu og Helga Bryndís Magnúsdóttir lék undir eins og svo oft áður á rótarýtónleikum.
Umdæmisstjóri, Ómar Bragi Stefánsson bauð gesti velkomna og Stefán Baldursson, formaður Tónslistarsjóðs Rótarý á Íslandi sagði frá sjóðnum og þeim styrkjum sem hann hefur veitt í gegnum tíðina.
María Björk Ingvadóttir var kynnir kvöldsins og kynnti tónlistarfólkið.
Umdæmisstjóri afhenti í lokin þeim Hörpu Ósk og Ragnheiði Ingunni viðurkenningarskjal frá Rótarýhreyfingunni en hvor um sig hlaut 800 þúsund kr. styrk til framhaldsnáms.
Styrkirnir koma annars vegar frá Tónlistarsjóðnum en klúbbur umdæmisstjóra, sem í ár er Rótarýklúbbur Sauðárkróks fjármagnaði hinn styrkinn.
Ungir tónlistarflytjendur, sem stunda framhaldsnám við erlenda tónlistarháskóla og stefna á að gera tónlist að meginstarfi, geta sótt um styrkinn.
Fyrst var úthlutað úr sjóðnum á 100 ára afmæli Rótarýhreyfingarinnar á tónleikum í Salnum í Kópavogi þann 7. janúar 2005. Átján umsóknir voru þá um styrk úr tónlistarsjóðinum. Það var eindóma álit dómnefndar að Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikari, hlyti fyrstu viðurkenninguna að upphæð 500 þúsund kr. til frekara náms.
Harpa Ósk Björnsdóttir, sópransöngkona
hefur stundað tónlistarnám frá barnsaldri, lærði bæði á fiðlu og píanó. Hún hóf síðan söngnám í Kórskóla Langholtskirkju og söng í Gradualekórum kirkjunnar í tæpan áratug og var jafnframt í söngnámi í Söngskólanum í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur. Harpa hlaut titilinn Rödd ársins í Vox domini söngkeppninni 2019 og hlaut jafnframt áhorfendaverðlaunin. Sama ár var hún ein sigurvegara í keppninni Ungir einleikarar og söng af því tilefni með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu. Hún þreytti frumraun sína hjá Íslensku óperunni haustið 2019 í hlutverki Barbarinu í Brúðkaupi Fígarós. Eftir eins árs viðkomu í söngnámi í Listaháskóla Íslands hélt hún utan til náms við Felix Mendelssohn tónlistarháskólann í Leipzig og lauk þaðan bakkalárnámi 2022. Harpa hefur tekið þátt í fjölmörgum óperusýningum og tónleikum víða um Þýskaland og hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar. Þá var Harpa Ósk ein örfárra söngvara sem tekin var inn í Óperudeild leiklistar- og tónlistarakademíunnar í München fyrir tveimur árum og lýkur hún þaðan meistaraprófi í vor.
Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir,
sópransöngkona, fiðluleikari og hljómsveitarstjóri
hefur verið í tónlistarnámi frá unga aldri. Hún stundaði nám í fiðluleik við Tónlistarskólann í Reykjavík / Menntaskólann í tónlist hjá Guðnýju Guðmundsdóttur og söngnám hjá Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og útskrifaðist 2019. Hún var valin Rödd ársins í Vox domini keppninni 2022. Ragnheiður hóf nám við Listaháskóla Íslands og lauk tvöfaldri bakkalárgráðu í fiðluleik og klassískum söng með hljómsveitarstjórn sem aukafag. Hún lauk meistaranámi í menningarstjórnun frá Bifröst 2023. Ragnheiður stundaði einnig meistaranám í klassískum söng við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi frá 2021 til 2023 og byggði nám hennar á rannsóknum á aðferðum til að syngja einsöng og stjórna hljómsveit samtímis. Hún hóf jafnframt hljómsveitarstjórnarnám við Malko Academy for Young Conductors á vegum DR hljómsveitarinnar í Kaupmannahöfn frá 2022, var þar valin ein af sex nemendum af á annað hundrað umsækjendum. Ragnheiður Ingunn lýkur þaðan prófi í vor með því að stjórna Sinfóníuhljómsveit Danska útvarpsins á tónleikum. Þá hefur hún unnið til ýmissa verðlauna og viðurkenninga, var ma. valin Bjartasta vonin í íslensku tónlistarlífi á Íslensku tónlistarverðlaununum 2023.