Miðvikudagur, febrúar 28, 2024
HeimFréttirNýr umdæmisstjóri tók við embætti á hátíðarfundi Rkl. Akureyrar

Nýr umdæmisstjóri tók við embætti á hátíðarfundi Rkl. Akureyrar

Umdæmisstjóraskipti hjá Rótarý á Íslandi fóru fram er Soffía Gísladóttir tók við embætti umdæmisstjóra á kvöldverðarfundi í klúbbi sínum, Rótarýklúbbi Akureyrar, sem haldinn var á Hótel KEA, miðvikudaginn 24. júní sl. Þetta var síðasti fundur starfsársins hjá Rótarýklúbbi Akureyrar. Framundan eru mikilvæg verkefni fyrir klúbbinn. Dagana 9. og 10 október n.k. stendur hann fyrir umdæmisþingi, sem haldið verður á Akureyri með fjölbreyttri dagskrá og eru allir rótarýfélagar velkomnir.                                               Forseti klúbbsins, Inga Þöll Þórgnýsdóttir, bauð félaga og gesti velkomna og flutti skýrslu stjórnar. Hún fagnaði einnig nýjum félaga, Írisi Gunnarsdóttur, dóttur Soffíu Gísladóttur, sem gekk í klúbbinn á fundinum og hlaut hlýjar viðtökur fundarmanna. Þá voru sérstaklega boðnir velkomnir gestir úr Rótarýklúbbi Eyjafjarðar. Félagar í honum ganga til liðs við Rkl. Akureyrar eftir að stofnaður hefur verið rótarýklúbbur í Húnavatnssýslum, sem mun nota kennitölu Rkl. Eyjafjarðar. Þetta gerist seinna í sumar.
Forsetaskipti fóru fram og tók Kristbjörg Góa Sigurðardóttir við embættti forseta Rótarýklúbbs Akureyrar og annaðist hún síðan fundarstjórnina. Um miðbik dagskrárinnar stigu fram á sviðið söngkonan Embla Björk Jónsdóttir og gítarleikarinn Eyþór Daði Eyþórsson og fluttu tónlistaratriði.

Inga Þöll Þórgnýsdóttir, forseti Rótarýklúbbs Akureyrar, bauð Írisi Gunnarsdóttur velkomna sem nýjan félaga í klúbbnum.
Umdæmisstjórar ásamt nýrri stjórn Rótarýklúbbs Akureyrar. Anna Stefánsdóttir, Arna Georgsdóttir, gjaldkeri, Kristbjörg Góa Sigurðardóttir, forseti, Jóhanna Ásmundsdóttir, ritari klúbbsins og Soffía Gísladóttir.

Umdæmisstjóraskiptin voru aðalefni fundarins. Soffía Gísladóttir, félagi í Rótarýklúbbi Akureyrar tók við umdæmisstjóraembættinu af Önnu Stefánsdóttur, Rótarýklúbbnum Borgum Kópavogi. Anna Stefánsdóttir flutti ávarp þar sem hún gerði grein fyrir stöðu Rótarý á heimsvísu, hjálparstarfi vegna heimsfarsóttarinnar og hvernig þátttöku Rótarý á Íslandi i því er háttað. Anna ræddi einnig um hin fjölbreyttu verkefni, sem Rótarý á Íslandi hefur beitt sér fyrir á starfsári hennar, sem hefur verið afar óvenjulegt vegna langvarandi hlés á fundahaldi klúbbanna í samkomubanni og tilrauna þeirra með fjarfundi í staðinn. Sjá nánar ávarp Önnu hér.  

Anna Stefánsdóttir afhenti Soffíu Gísladóttur embættiskveðju umdæmisstjóra Rótarý á Íslandi.

Soffía Gísladóttir kynnti nýja embættismenn, sem með henni starfa á komandi starfsári. Hún gerði einnig grein fyrir helstu markmiðum sínum undir kjörorðinu „Stígum stolt fram“. Soffía vinnur að því að efla innviðina í starfi Rótarý á Íslandi með endurskipulagningu nefnda og skipan verkefna. Hún hvatti klúbbana til að virkja nefndir sínar.             „Skilgreinum hlutverk þeirra, búum til nýjar nefndir ef þess þarf og leggjum niður gamlar, ef þess þarf. Rótarý er lifandi, er á fullri ferð inn í framtíðina og klúbbastarfið ætti að einkennast af því. Það er líka mikilvægt að horfa út á við, skoða samfélagið og máta sig við það. Erum við með félaga úr öllum starfsgreinum? Úr öllum hópum samfélagsins? Höfum við boðið innflytjendur velkomna í klúbbinn okkar?“ spurði Soffía. Sjá ávarp Soffíu hér.

Hinn nýi umdæmisstjóri kynnti síðan samstarfsmenn sína í viðtakandi umdæmisráði og afhenti þeim embættistáknin, viðeigandi barmmerki og konunum slæður að hafa um hálsinn og körlunum sérstök rótarýhálsbindi.                                                                           

                                                                           Texti og myndir Markús Örn Antonsson.

Bjarni Kr. Grímsson tilnefndur umdæmisstjóri 2022-2023, Rkl. Reykjavík Grafarvogur, virðir fyrir sér nýja hálsbindið frá Rótarý. Eiginkona hans Brynja V. Eggertsdóttir fylgist með.
Soffía umdæmisstjóri kynnti aðstoðarumdæmisstjórana og afhenti þeim embættistákn, slæður og hálsbindi. Embættunum munu gegna, talið frá vinstri, Bjarni Þór Þórólfsson, Rkl. Görðum Garðabæ, Rannveig Björnsdóttir, Rkl. Akureyrar, Guðlaug Birna Guðjónsdóttir, Rkl. Borgum Kópavogi og Jón Karl Ólafsson, Rkl. Reykjavíkur.
Fyrrverandi, núverandi og verðandi umdæmisstjórar: Knútur Óskarsson, 2017-2018, Rkl. Mosfellssveitar, Garðar Eiríksson, 2018-2019, Rkl. Selfoss, Anna Stefánsdóttir, 2019-2020, Rkl. Borgum Kópavogi, Soffía Gísladóttir, 2020-2021, Rkl. Akureyrar, Ásdís Helga Bjarnadóttir, 2021-2022, Rkl. Héraðsbúa og Bjarni Kr. Grímsson, 2022-2023, Rkl. Reykjavík Grafarvogur.
Bjarni, tilnefndur umdæmisstjóri 2022-2023, Brynja eiginkona hans og Ásdís Helga, verðandi umdæmisstjóri 2021-2022.
Hjónin Guðmundur Baldvin og Soffía ásamt dótturinni Írisi, sem gekk í Rkl. Akureyrar á þessum fundi.

                        Svipmyndir frá ánægjulegri kvöldstund

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum