Rótarýklúbbur Kópavogs hefur útnefnt Helga Ólafsson, stórmeistara í skák, Eldhuga Kópavogs 2019. Rótaryklúbbur Kópavogs hefur mörg undanfarin ár útnefnt Eldhuga Kópavogs.
Á námsárum Helga í Menntaskólanum í Hamrahlíð hófst skákferill hans fyrir alvöru og hefur hann helgað sig skáklistinni síðan. Helgi er einn sigursælasti skákmaður Íslands og hefur orðið Íslandsmeistari í skák sex sinnum. Helgi varð alþjóðlegur meistari FIDE 1978 og alþjóðlegur stórmeistari 1985.
Helgi hefur orðið Íslandsmeistari, sex sinnum, árin 1978, 1981, 1991, 1992, 1993 og 1996 auk þess atskákmeistari Íslands fjórum sinnum og hraðskákmeistari Íslands fimm sinnum. Helgi varð efstur á Skákþingi Norðurlanda 1985 og efstur í aukakeppni ásamt Simon Agdestein og Norðurlandameistari unglinga.
Helgi var kjörinn íþróttamaður ársins í Kópavogi 1980 og ,,Maður ársins” hjá DV ásamt íslenska ólympíuliðinu 1986. Helgi hefur teflt á 15 Ólympíuskákmótum, oftar en nokkur annar Íslendingur, þar af langoftast á 1. borði. Hann komst hæst í kringum 30. sæti á heimslista FIDE og var reglulega á topp 50 í heiminum á níunda áratugnum.
Þá hefur Helgi látið sig ýmis réttlætismál varða og var í RJF–hópnum sem barðist fyrir frelsun Bobby Fischers úr japanskri dýflissu og skrifaði bókina „Benóný“ ásamt Jóni Torfasyni og Braga Halldórssyni. Er höfundur bókarinnar „Reykjavíkurskákmót í 50 ár“ sem gefin var út í tveimur bindum árið 2015 og er að vinna að stórri bók um Friðrik Ólafsson, æviferil hans og skákferil.
Texti og myndir: Geir Guðsteinsson