Laugardagur, 14. september 2024
HeimFréttirHlutu viðurkenningar úr styrktarsjóði Rótarý

Hlutu viðurkenningar úr styrktarsjóði Rótarý

Rótarýumdæmið á Íslandi hefur það markmið að láta samfélagið árlega njóta góðs af starfi Rótarý á Íslandi, en tilgangur Verðlauna- og styrktarsjóðs Rótarý á Íslandi er að veita viðurkenningar fyrir framúrskarandi eða nýstárlegt framtak, sem unnið er í umdæminu á sviði mennta, lista, vísinda eða atvinnumála, og að styðja samfélagsverkefni.

Sú hefð hefur fests í sessi að veita viðurkenningar til aðila á félagasvæði þess rótarýklúbbs sem umdæmisþingið heldur, í ár Rótarýklúbbs Selfoss.

Jón B. Guðnason, formaður stjórnar sjóðsins, tilkynni þá ákvörðun á nýafstöðnu umdæmisþingi að veita að þessu sinni viðurkenningar til þriggja aðila á félagasvæði Rótarýklúbbs Selfoss og ráðstafa til þess 1.050.000 krónum.

Konubókastofa fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi framtak á sviði mennta og lista. Konubókastofa er fræðslu- og varðveislusafn, tileinkað íslenskum kvenrithöfundum og verkum þeirra. Formleg stofnun var í apríl 2013. Markmið Konubókastofu er að halda til haga þeim ritverkum sem íslenskar konur hafa skrifað í gegnum tíðina, kynna höfundana og verk þeirra. Rannveig Anna Jónsdóttir tók við viðurkenningunni og styrk að upphæð 350.000 kr.

Vallaskóli fékk viðurkenningu fyrir nýstárlegt framtak á sviði mennta og samfélagsverkefna. Vallaskóli er að innleiða smiðjuvinnu á elsta stigi með þverfaglegu námi og teymiskennslu kennara. Verkefnið hefur verið í undurbúningi og er nú að verða fullmótað. Bókleg fög verða kennd saman á elsta stigi. Rannsóknir sýna að þverfagleg teymiskennsla skilar sér í samhentu starfsfólki, betra námsumhverfi og öflugri skólaþróun. Leifur Viðarsson tók við viðurkenningunni og styrk að upphæð 350.000 kr.

Fischersetur á Selfossi fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi framtak á sviði mennta og lista. Fischersetur var opnað 2013. Í safninu er rakin saga Bobby Fischers, heimsmeistara í skák, en hann dvaldist hér á landi sem Íslendingur í tæp þrjú ár þar til hann dó í janúar 2008, þá sextíu og fjögurra ára.  Í setrinu eru haldnir viðburðir og fyrirlestrar tengdir skákinni. Aldís Sigfúsdóttir tók við viðurkenningunni og styrk að upphæð 350.000 kr.

 

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum