Í tilefni af alþjóðlega Rótarýdeginum þann 23. febrúar sl. bauð Rótarýklúbburinn Reykjavík – Miðborg til opins fundar í Háskólanum í Reykjavík. Rótarýhreyfingin hefur að venju að vekja athygli á starfi Rótarý um allan heim á þessum degi með ýmsum hætti.
Að þessu sinni var ákveðið að sýna samfélagshlutverk Rótarý í verki, kynna fjölbreytt starf klúbbsins ásamt því að veittur var styrkur til Hollvina Grensásdeildar Landspítalans.
Hrefna Sigríður Briem, forseti klúbbsins, kynnti starf Rótarýhreyfingarinnar, Rótaract og starfsemi klúbbsins sem hittist á Nauthóli í hádeginu á mánudögum yfir starfsárið. Jafnframt eru aðrir viðburðir og verkefni skipulögð utan hefðbundinna funda. Þar má nefna gönguferðir á sumrin, þátttöku í golfmótum auk menningarviðburða og síðast en ekki síst þátttöku í mannúðar- og samfélagsverkefnum. Klúbburinn er jafnframt bakhjarl Rótaract klúbbs, sem er í stofnun, en Rótaract klúbbar eru ætlaðir yngra fólki á aldrinum 18-30 ára. Rótaract klúbbar starfa af miklum þrótti víða um heim og veita ungu fólki tækifæri til að efla leiðtogahæfni sína, láta gott af sér leiða í samfélaginu og stuðla að velvild og friði í heiminum.
Gestur fundarins var Guðrún Pétursdóttir, formaður Hollvina Grensáss. Hún flutti erindi um starf Hollvina og það mikilvæga endurhæfingarstarf sem unnið er á Grensásdeild. Hafnar eru framkvæmdir á lóðinni sem Hollvinir Grensáss kosta framkvæmdir við. Í garðinum verður sérstaklega hugað að þjálfunaraðstöðu undir berum himni sem nýtast mun sjúklingum. Jafnframt sagði Guðrún frá núverandi aðstöðu og áætlunum um nýbyggingu sem mun bylta allri aðstöðu sjúklinga og starfsmanna Grensásdeildar. En þessar framkvæmdir hafa verið í undirbúningi lengi og kominn er tími á endurnýjun til að aðlaga aðstöðu að breyttum og vaxandi þörfum.
Að loknum kynningum afhenti forseti Rótarý Reykjavík – Miðborg fyrir hönd klúbbsins Hollvinum peningagjöf að upphæð kr. 400.000.- sem nýtast munu í brýn tækjakaup fyrir Grensásdeild í náinni framtíð.