Rótarý er meira en að hittast, borða saman og hlusta á góð erindi. Innan Rótarýhreyfingarinnar eru samtök af ýmsum toga, þar á meðal rótarýfélagar sem stunda langhlaup, International Marathon Fellowship of Rotarians. Hugmyndin að stofnun samtakanna varð til árið 2005 í Parísarmaraþoninu og síðan þá hafa rótarýfélagar hittst á hverju ári og tekið þátt í maraþoni víðs vegar um heiminn.
Markmið samtakanna er fyrst og fremst að stofna til kynna og vináttu meðal rótarýfélaga sem stunda langhlaup, þátttaka í langhlaupum víðs vegar í heiminum ár hvert, kynnast landinu sem heimsótt er og stuðla þannig að skilningi milli þjóða. Einnig er safnað framlögum í Polio Plus sjóðinn og hafa framlögin aukist ár frá ári.
Milli 40 og 50 erlendir Rótarýfélagar hafa skráð þátttöku sína í Reykjavíkurmarþoninu í sumar. Hefð er fyrir því meðal félaga í samtökunum að ferðast um landið, heimsækja rótarýklúbba og kynnast rótarýfélögum í því landi sem hlaupið fer fram. Hópur rótarýfélaga og maka ætlar að ferðast um landið vikuna fyrir Reykjavíkurmaraþonið og heimsækja nokkrar náttúruperlur Íslands.
Rótarýumdæmið á Íslandi ætlar að stofna til viðburðar í tengslum við komu maraþonhlauparanna og Rótarýklúbbur Akureyrar undirbýr að taka á móti þeim meðan þau dveljast á Akureyri.
Rótarýfélagar sem hyggjast taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu eru hvattir til að skrá sig sem slíka og eiga samleið með gestum okkar í hlaupinu.
Hægt er að gerast félagi í International Marathon Fellowship of Rotarians á heimasíðu samtakanna https://rotarianrun.org/ þar má líka finna meiri upplýsingar um samtökin. Einnig er hægt að fylgjast með fréttum af samtökunum á Facebooksíðu þeirra.