Laugardagur, 14. september 2024
HeimFréttirHvatt til þátttöku rótarýfélaga í vináttuheimsóknum til útlanda

Hvatt til þátttöku rótarýfélaga í vináttuheimsóknum til útlanda

Á Vefstofu Rótarý á fjarfundi Zoom sl. mánudag fjallaði Róbert Melax, Rkl. Reykjavík Landvættir, um vinaheimsóknir rótarýfólks ásamt mökum, Rotary Friendship Exchange, RFE.

Róbert er formaður RFE-nefndar umdæmisins og hefur reynslu af slíkum skiptiheimsóknum frá því að hann var rótarýfélagi í klúbbum erlendis. Hann stóð á sínum tíma að skipulagi skiptiheimsókna milli rótarýfélaga á Íslandi og í Höfðaborg í Suður-Afríku.

Í kynningu sinni á vefstofufundinum rakti Róbert nokkur atriði um gildi heimsókna RFE: að auka víðsýni, fá að kynnast störfum og verkefnum í öðrum löndum og læra um menningu, siði og starfsgreinar annarra þjóða. Þá eru einnig byggð upp vináttusambönd og stuðlað að friði og þjónustu ofar eigin hag.

Hið hefbundna fyrirkomulag RFE-heimsóknar er þannig, að stærð hóps er 8-12 manns, lengd heimsóknar 12-14 dagar og að gestir ferðist á milli klúbba og séu að hámarki 3-4 daga hjá sama gestgjafa.  Rökrétt skipulag hér á landi væri lengri heimsókn í Reykjavík og styttri heimsókn á 2-3 staði úti á landi.

Fjallað var um nýafstaðna heimsókn sænskra rótarýfélaga og maka þeirra til Íslands. Þeir dvöldust hjá gestgjöfum sínum í Reykjavík, ferðuðust um Suðurland og fóru síðan til Akureyrar, dvöldust þar hjá rótarýfólki og skoðuðu sig um á Norðurlandi.

Sænskir þátttakendur í RFE-heimsókn á Akureyri skoðuðu m.a. Flugsafnið og höfðu Arngrím Jóhannsson, flugstjóra og rótarýfélaga, sem leiðsögumann.

Heimsóknir RFE til Íslands hafa hingað til verið skv. dagskrá sem kölluð er „mini-exchange“, og stendur t.d. frá fimmtudegi til mánudags. Það er talið æskilegt fyrirkomulag til að kynna Rotary Friendship Exchange á Íslandi.

Ekki eru öll Rótarýumdæmi þátttakendur í skiptiheimsóknunum. Áhuginn er hins vegar mikill víða og sum umdæmi taka á móti 2-3 hópum árlega og senda jafnmarga utan. Í umdæmi  2400 í Suður-Svíþjóð er t.d. mikil eftirspurn eftir að komast í ferðir, og punktakerfi ræður hverjir fá að fara. Róbert sagði að á næsta ára yrðu skipulagðar tvær heimsóknir til Suður-Svíþjóðar, vor og haust, og er óskað eftir þátttöku í þær báðar. Sérstaklega er óskað eftir þátttakendum utan af landi.

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum