Föstudagur, júní 21, 2024
HeimFréttirHvöttu til enn öflugra starfs og fleiri góðra verka

Hvöttu til enn öflugra starfs og fleiri góðra verka

Á umdæmisþingi Rótarý í Kópavogi fluttu tveir erlendir heiðursgestir, Virpi og Patrick, ávörp og kveðjur að utan

Patrick Callaghan, fyrrv. umdæmisstjóri frá Írlandi, sem nú starfar að leiðtogaþjálfun fyrir Rótarý, var fulltrúi Mark Maloney, núverandi alþjóðaforseta Rótarý á umdæmisþinginu í Kópavogi og flutti kveðjur hans. Patrick sagðist einnig tala sem Íri við Íslendinga sakir sameiginlegs menningararfs og hefða tveggja sjálfstæðra eyþjóða og nágranna, sem koma fram á alþjóðavettvangi og láta rödd sína heyrast á eigin forsendum. Hann vék síðan að innri málefnum Rótarý og talaði um nauðsyn þess að hrinda í framkvæmd nýjum og einfaldari reglum sem hafa tekið gildi og væru til þess fallnar að efla hreyfinguna, fjölga klúbbum og klúbbmeðlimum.

Patrick fór nokkrum orðum um samstarf Rótarý við Sameinuðu þjóðirnar og rifjaði upp að Rótarýmenn víða um heim hefðu starfað að því að kynna þessi alþjóðlegu friðarsamtök þegar þau voru stofnuð í lok seinni heimstyrjaldarinnar. Sjálfur starfaði Patrick sem friðargæslumaður Sameinuðu þjóðanna í Líbanon á sínum tíma. Hann undirstrikaði nauðsynina fyrir áframhaldandi samvinnu Rótarý við stofnanir Sameinuðu þjóðanna.  

Gestirnir við setningu þingsins í Kópavogskirkju ásamt Önnu Stefánsdóttur, umdæmisstjóra: Ursula Callaghan, Matti og Virpi Honkala, Anna Stefánsdóttir og Patrick Callaghan.

Patrick gerði einnig grein fyrir þróun Rótarý á Írlandi og rakti viðbrögð þar við breyttum aðstæðum vegna fækkunar félaga. Lagði hann áherslu á að hafa starf klúbbanna aðlaðandi fyrir ungt fólk og bjóða það velkomið í Rótarý. Vakti hann einnig athygli á sterkri stöðu margra Rotaract-klúbba fyrir ungt fólk víða um lönd, m.a. háskólanema. Samstaðan með þeim vex og forystumenn þeirra koma nú til sameiginlegra funda með umdæmisstjórum Rótarý .”Ungt fólk, sem erfir heiminn, vill sjá breytingar og er mikilvægt fyrir hugsjónir Rótarý í framtíðinni” sagði Patrick.

Virpi Honkala var fulltrúi norrænu rótarýumdæmanna á umdæmisþinginu. Hún er læknir og hefur gegnt störfum umdæmisstjóra í umdæmi 1400 í Finnlandi. Þá tekur hún sæti í stjórn Rotary International 2020-2022 sem framkvæmdastjóri. Hún flutti árnaðaróskir til Rotarý á Íslandi og sagðist gera það fyrir hönd norrænu umdæmanna en einnig sem fulltrúi fyrir svæði 17 í Rótarý, sem nær yfir Pólland, Eystrasaltslöndin, Finnland og umdæmi í Rússlandi.

”Við Finnar gerum okkur grein fyrir að við eigum margt sameiginlegt með Íslendingum í norrænu og alþjóðlegum tilliti,” sagði Virpi.”Við höfum sérstöðu vegna þess að við erum ekki í miðri hringiðu stórþjóða og stórborga. Við tölum okkar sérstöku tungumál, sem fáir aðrir gera og skilja, og miðað við höfðatölu eru margir rótarýfélagar í löndum okkar.”

Virpi nefndi hið góða álit sem Rótarý nýtur og að við gætum treyst hvert öðru í hinu innra starfi. Út á við ríki traust til verkefna okkar og þeir sem styrkja átak eins og PolioPlus treystu því að framlögin skili sér til árangursríkra viðfangsefna. Rótarýfólk hefur gert stórkostlega hluti, sem hafa breytt gangi sögunnar. Nefndi Virpi að PolioPlus hefði borið þann árangur að 70-80 milljónir barna í heiminum hefðu getað varist lömunarveikinni vegna bólusetninga á vegum PolioPlus.

Hún sagði fjölbreytni og fjölmenningu innan Rótarý afar mikilvæga. Þar kæmu saman ungir og aldnir, konur og karlar af ólíkum uppruna. Allir deildu sömu gildum og afstöðu. ”Í hreyfingu okkar tekur fólk höndum saman og hefur aðgerðir sem leiða til heilla og viðvarandi breytinga,” sagði Virpi Honkala.

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum