Laugardagur, 15. febrúar 2025
HeimFréttir"Járnfólkið"- verkefni Rkl. Þinghóls á sviði heilbrigðismála

„Járnfólkið“- verkefni Rkl. Þinghóls á sviði heilbrigðismála

„Járnofhleðsla, hvað er það ?“ er yfirskrift á upplýsingabæklingi, sem Rkl. Þinghóll í Kópavogi hefur gefið út til að vekja athygli á hættum sem fylgja of miklu járni í blóði hjá fólki og hvernig brugðast skuli við einkennum. Félagar í klúbbnum hafa verið í viðbragðsstöðu vegna útsendingar á bæklingum til annarra rótarýklúbba og ýmissa stofnana í landinu en þeim aðgerðum hefur seinkað vegna Covid-faraldursins.

Sveinn Óskar Sigurðsson, félagi í Rkl. Þinghóli og verkefnisstjóri, hefur unnið sleitulaust að útbreiðslu fróðleiks um þennan sjúkdóm, sem fer leynt og getur haft hinar alvarlegustu afleiðingar. Járnofhleðsla er t.d. einn helsti orsakavaldur lifrarkrabbameins á Íslandi. Sveinn Óskar hefur komið fram í útvarpsþáttum og blaðaviðtölum. Skömmu fyrir jól afhenti hann Ölmu Möller, landlækni, eintök af upplýsingabæklingnum um járnofhleðslu. Viðtal við Svein Óskar í Mannlega þættinum á RÚV má heyra hér. 

Alma Möller, landlæknir, hefur veitt frumkvæði Rkl. Þinghóls mikilsverðan stuðning.

„Verkefnið fékk heitið „Járnfólkið“, segir Sveinn Óskar. „Rótarýklúbburinn Þinghóll samþykkti einróma árið 2018 að taka að sér að kynna og upplýsa almenning á Íslandi um þennan sjúkdóm sem er arfgengur og getur valdið alvarlegum sjúkdómum. Þetta verkefni hefur þróast og tekið á sig mynd fyrir tilstuðlan margra en þó helst Brynjars Viðarssonar, blóðsjúkdómalæknis. Mikilvægt er að fólk viti af tilurð þessa sjúkdóms sem er algengur, sérstaklega á norðurhveli jarðar.“

Talið er að um eða yfir 2.000 Íslendingar hafi greinst með járnofhleðslu. Sjúkdómurinn hefur verið þekktur í meira en eina öld. Það var ekki fyrr en 1996 sem vísindamenn í Kaliforníu í Bandaríkjunum greindu HFE-litninginn sem benti til arfgengni sjúkdómsins. Hér á landi má finna hann í nokkrum ættum og oft telur fólk að aðrar orsakir liggi að baki en raun ber vitni. „Þess vegna töldum við mikilvægt að dreifa upplýsingum sem þessum og tryggja þannig að fólk fái innsýn í sjúkdóminn, einkennin og úrræðin sem í boði eru. Við þökkum öllum sem að þessu verkefni koma og stuðla að því að efla þekkingu á sjúkdómnum,“ segir Sveinn Óskar.

Sveinn Óskar Sigurðsson hefur sem verkefnisstjóri m.a. haft umsjón með útgáfu upplýsingabæklingsins og verið öflugur talsmaður fyrir verkefnið í fjölmiðlum.

Mikilvægt er að lesa sér til um sjúkdóminn og spyrjast fyrir innan fjölskyldunnar. Kanna hvort einkenni séu til staðar og meta hvort blóðprufa sé eina úrræðið til að kanna járnmagn í blóði. Þá er brýnt að leita til læknis og óska eftir blóðprufu séu einkennin t.d. þreyta, slappleiki, liðverkir, þyngdartap, kviðverkir eða breyting á húðlit (brúnt eða bronslitað hörund). Eftir að búið er að taka blóðsýni er metið hvort þörf sé á að bregðast við. Ef einstaklingur er með of mikið járnmagn í blóði, að mati sérfræðings, er úrræðið að taka blóð reglulega þar til réttu gildi er náð.

Brynjar Viðarsson, blóðsjúkdómalæknir, hefur veitt ómetanlega aðstoðað við undirbúning verkefnsins. „Járnofhleðsla (hemochromatosis) er mun algengara ástand en flestir gera sér grein fyrir og getur valdið skemmdum á mörgum líffærum, sérstaklega lifur og hjarta,“ segir Brynjar.

Mikilvægt er að meta járnhag líkamans um miðjan aldur, sérstaklega ef fjölskyldusaga er um járnofhleðslu. Ef járnofhleðsla greinist er hægt að koma í veg fyrir sjúkdóm/líffæraskemmdir með einfaldri aftöppunarmeðferð.

„Leitið til ykkar heimilislæknis og óskið eftir ráðgjöf,“ ráðleggur Brynjar. „Blóðsýni er síðan mögulega tekið og rannsakað m.t.t. járnofhleðslu. Það er þakkarvert þegar félagasamtök, eins og Rótarýklúbburinn Þinghóll í Kópavogi, vekja athygli á mikilvægi margvíslegra meðferða er tengjast læknisfræði og úrræðum sem í boði eru.“

 

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum