Miðvikudagur, febrúar 28, 2024
HeimFréttirSamfélagsverkefniKolefnisjöfnun rótarýfólks á Kluftum

Kolefnisjöfnun rótarýfólks á Kluftum

Í ágúst sl. hittust norrænir rótarýfélagar og vinir ásamt eiginkonum sínum uppi á Kluftum í Hrunamannahreppi í boði hjónanna Björns B. Jónssonar, fyrrv. umdæmisstjóra, og Jóhönnu Róbertsdóttur. Til að bæta fyrir mengun vegna flugferða milli landa og ferða hér innanlands ákvað hópurinn að gróðursetja trjáplöntur í því augnamiði að kolefnisjafna.

Þarna voru komnir félagar Björns, sem höfðu verið samtíða honum umdæmisstjórar í rótarýumdæmum sínum. Erlendu gestirnir voru Anders og Monika Lindberg, D2380, Svíþjóð, Jan Brinck og Randi Brorson, D1440, Danmörku og Jens Pauli og Lone Høhne, D1450, Danmörku. Björn og Jóhanna hafa ráðist í geysiviðamikið verkefni í skógrækt á Kluftum, sem var eyðijörð þegar þau festu kaup á henni árið 2003. Björn hefur lengi starfað að skógræktarmálum m.a. sem framkvæmdastjóri Suðurskóga og nú sem sérfræðingur skógræktarinnar á Selfossi.

„Ég er búfræðingur og garðyrkju-fræðingur í grunninn,“ sagði Björn.
„Árið 1991 hóf ég nám í Ekenäs Forstinstitut í Finnlandi í skógarverkfræði sem ég síðan lauk árið 1994. Samhliða því námi lagði ég stund á fil.cand  nám árin 1993 til 1995 í umhverfisfræðum við Åbo Akademi í sama landi.“

 -Hvenær hófust heimsóknir og ferðalög ykkar í vinahópnum og hvað hafið þið hist víða?

 „Upphaflega hittumst við á fræðslunámskeiði fyrir verðandi umdæmisstjóra, sem haldið var í Sundsvall í Svíþjóð 2012. Við hittumst svo nokkrum sinnum á fræðslunámskeiðum og síðar á umdæmisþingum og varð vel til vina. Eftir að umdæmisstjóraári okkar lauk, ákváðum við að halda áfram að hittast og skiptast á að undirbúa slíka hittinga árlega.

Fyrst hittumst við árið 2014 á Læsö, eyju úti fyrir Jótlandi, næst hittumst við á Íslandi og dvöldum þá og ferðuðumst um Suðurland. Næst lá leiðin til Svíþjóðar þar sem við dvöldumst í Blekinge og skoðuðum okkur um nágrennið, og árið þar á eftir hittumst við í Århus og skoðuðum okkur um í borginni og nágrenni. Í fyrra hittumst við svo í Færeyjum þar sem við dvöldumst í viku og skoðuðum okkur um og í ár var aftur komið að Íslandi. Að þessu sinni voru Vesturland og Vestfirðir heimsóttir ásamt því að enda samveruna á Kluftum.

Á næsta ári er stefnt að því að vera í Svíþjóð. Þessar heimsóknir hafa verið allt frá því að vera langar helgar í upphafi í að vera vikulöng samvera síðustu árin. Alltaf jafn gefandi og skemmtilegt að hittast og styrkja vinaböndin. Við köllum hópinn „ISVEDA“ sem er skammstöfun fyrir löndin okkar, þ.e. I (Island) SVE (Sverige) DA (Danmark).

Það þarf ekki annað en að horfa í seinni hluta fjórprófs Rótarý til að  skilja vel tilganginn með þátttöku í starfi hreyfingarinnar. „Eykur það velvild og vinarhug – er það öllum til góðs“.  Í okkar tilfelli hefur starf innan Rótarý komið á vinskap sem hefur verið okkur öllum til góðs. Vinátta fólks sem hefur líkar skoðanir til lífsins er ómetanleg.“

-Hvernig gekk svo ferðalagið hér á Íslandi í sumar?

„Eins og áður sagði, þá ferðuðumst við um Vesturland og Vestfirði og enduðum ferðina svo á Kluftum. Við vorum einstaklega heppin með veður allan tímann og nutum þess að skoða fallega náttúru og heimsækja sögustaði. Að þessu sinni heimsóttum við líka skemmtilegan æðabónda á Vestfjörðum, fræddumst um æðavarp, menningu og siði í kringum það. Afar fróðleg og skemmtileg heimsókn þar sem tekið var á móti hópnum af miklum höfðingsskap. Við leitum uppi skemmtileg kaffihús og veitingastaði en reynum þó alltaf að elda saman veislumat á kvöldin.

-Þið gróðursettuð til að kolefnisjafna eftir ferðalagið. Hvað þurfti margar plöntur til?

„Isveda hópurinn ákvað í ár að kolefnisjafna ferðalög okkar. Um var að ræða bæði flug til og frá  Íslandi og eins ferð okkar um Vestfirði. Niðurstaðan var sú að við þyrftum að gróðursetja u.þ.b. 40 tré til að kolefnisjafna samveru okkar að þessu sinni. Þar sem við erum ákveðin í að hittast áfram þá var ákveðið að kolefnisjafna ferðir okkar á næsta ári. Það voru því gróðursett  80 tré alls, íslenskt birki en einnig voru berjarunnar gróðursettir m.a. til að laða að fugla í ISVEDA skóginn.“

-Er mikið landrými til skógræktar á Kluftum?

„Kluftir er 550 hektarar af stærð. Jörðin er frá 150 metra yfir sjávarmáli upp í 444 metra þar sem hæst er í Kluftafjalli. Búskapur og föst búseta var á Kluftum til ársins 1954. Þá lagðist búskapurinn niður og sveitarfélagið eignaðist jörðina. Árin þar á eftir var jörðin notuð til sumarbeitar fyrir kálfa bænda í  Hrunamannahreppi. Enginn vegur var kominn að Kluftum þegar jörðin fór í eyði.

Fyrstu árin eftir kaup okkar 2003 var lítið gert á jörðinni en árið 2016 var gerð heilstæð skógræktaráætlun fyrir hana þar sem gert er ráð fyrir gróðursetningu alls 270.000 skógarplantna í 114 hektara lands. Gert er ráð fyrir að gróðursetja 80.000 furur, 70.000 greni, 33.000 birki og 70.000 aspir. Einnig nokkur þúsund af öðrum tegundum sem verða til skrauts. Þegar er búið að gróðursetja 97 þúsund skógarplöntur alls.

Ég sé fyrir mér rúmlega hundrað hektara skóg í framtíðinni sem verður bæði hefðbundinn timburnytjaskógur og ekki síður skógur sem nýtist til útivistar og yndisauka. Skógurinn á að vera skipulagður þannig að hann hafi fjölbreytni í tegundavali trjáa og runna. Ekki væri verra ef ætlunarverk okkar tækist og við náum að laða ólíkar fuglategundir í skóginn hjá okkur.“

-Veðrátta og vaxtarskilyrði fyrir gróðurinn?

„Almennt má segja að sumarhiti að Kluftum sé góður en vetur kaldari þar sem jörðin er langt inn í landi. Þetta þýðir að vöxtur skóga á að vera nokkuð öruggur og allskonar trjásjúkdómar eiga erfiðara uppdráttar svo langt inni í landi og hátt yfir sjó. Á móti kemur að slæm vor- og haustveður geta sett strik í reikninginn og skaðað trjágróður. En með réttum trjátegundum á að vera hægt að draga úr þessari hættu.

Þegar við eignuðumst jörðina var hluti hennar girtur af og höfum við reynt að halda þeirri girðingu við ásamt því að girða nýja spotta eftir þörfum. Vegir voru engir í upphafi, engin vatnsveita eða rafmagn, en til þess að við gætum komið okkur fyrir þarna þurftum við að leggja 3 km langan veg inn í landið og brúa Kluftá, ásamt því að leggja kaldavatnsveitu. Auk þess höfum við lagt 8 km af væntanlegum skógarslóðum, sem við við notum í dag til að komast um jörðina í gróðursetningum.“

-Þið hafið byggt nýtt hús á Kluftum en búið nú á Selfossi. Ætlið þið að flytja upp í Hreppinn?

„Húsið á Kluftum er ætlað til heilsársnotkunar, en við hjónin reiknum með að vera mikið á jörðinni frá því snemma á vorin fram á haustin við gróðursetningu og umhirðu skógarins, ásamt því að njóta útiveru og friðsældar. Þegar við svo ákváðum að byggja heilsárs hús ákváðum við að bora eftir volgu vatni til notkunar í varmadælu og fá rafmagn frá samveitu.

Húsið er 127 fermetrar af stærð. Það er byggt úr svokölluðum yleiningum sem á að gera það sérstaklega hlýtt. Varmadælan hitar upp húsið, neysluvatn og vatn í heitan pott. Varminn í varmadæluna er tekinn úr 18° heitri borholu sem er skammt frá húsinu.

Síðustu árin höfum við haft 15 fermetra sumarhús á jörðinni sem við höfum nú þegar selt til flutnings.“

 -Hvert er þitt viðhorf til mikilvægis skógræktar fyrir Íslendinga og markmiðanna sem sett hafa verið vegna loftslagsbreytinga?

„Til að jarðarbúum takist  að draga úr hlýnun jarðar þarf margt að gerast til að árangur eigi að nást. Ekkert eitt getur leyst vandann í þeim efnum en margar skipulagðar aðgerðir, stórar sem smáar geta gert kraftaverk. Ein af þessum aðgerðum er að auka skóga heimsins. Við Íslendingar eigum ekki að vera eftirbátar annarra þjóða í þeim efnum. Ísland er með innan við 2% af landinu skógi vaxið. Þetta þarf að auka til muna, en stefnan hefur verið sett á að setja skóga í 5% af landinu. Það getur tekið tíma en nú þegar hefur verið ákveðið að tvöfalda skógrækt á Íslandi á næstu fjórum árum. Það mun gera það að verkum að skógar landsins eiga eftir að binda stóran hluta af losun koltvísýrings sem við Íslendingar losum árlega.“

Texti og myndir: MÖA

 

 

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum