Föstudagur, júní 21, 2024
HeimFréttirKynningarfundur í netheimum...

Kynningarfundur í netheimum…

Á fjórða tug fundarmanna tók í gær þátt í kynningarfundi vegna stofnunar nýs rotarýklúbbs með fjarfundasniði innan rótarýumdæmisins á Íslandi. Fundurinn fór að sjálfsögðu fram í netheimum, þar sem fundarmenn ræddu málin á Zoom. Þátttakendur voru í Danmörku, Frakklandi, Ítalíu, Litháen, Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi auk Íslands.

Hluti fundarmanna sem fylgdust með kynningunni á Zoom.

Á síðari árum hafa klúbbar af þessu tagi, svokallaðir E-klúbbar, náð útbreiðslu innan Rótarý. Íslenski klúbburinn tekur væntanlega formlega til starfa í desember eða um áramótin. Hann er fyrst og fremst ætlaður nýjum félögum sem vilja nýta sér kosti þessa fundaforms, þar á meðal Íslendingum sem búa í útlöndum en einnig rótarýfélögum sem eru á ferðalögum eða geta af öðrum ástæðum ekki mætt á fundum hjá sínum klúbbum.

Klúbbforseti verður Hildur Bettý Kristjánsdóttir, sem búsett er í Cuxhaven í Þýskalandi. Betty er doktorsnemi í menntunarfræðum og sjálfstætt starfandi kennari. Hún þekkir vel til Rótarý. Faðir hennar hefur verið rótarýfélagi um langt árabil og hún var sjálf félagi í Rótarýklúbbi Akureyrar er hún bjó nyrðra. Bettý skipuleggur næstu undirbúningsskref og tekur á móti tilkynningum frá væntanlegum þátttakendum. Netfang hennar er: betty@hi.is

Soffía Gísladóttir, umdæmisstjóri, gerði í upphafi fundarins grein fyrir undirbúningi að stofnun klúbbsins og sagði frá störfum Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi, verkefnum hennar og gildi hins góða félagsskapar sem ríkir innan klúbbanna. Bergþór Pálsson, óperusöngvari, sem nú er skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar, tók í sama streng er hann talaði frá Ísafirði. Bergþór lýsti fræðslugildi fyrirlestranna, sem fluttir eru á rótarýfundum, og mjög ánægjulegri reynslu sinni í Rótarýklúbbi Reykjavíkur áður en hann flutti vestur og hóf að starfa í Rótarýklúbbi Ísafjarðar, þar sem vel var tekið á móti honum.

Á námskeiði verðandi umdæmisstjóra Rótarý í N-Evrópu, sem haldið var í Gdansk í Póllandi 2019. Soffía Gísladóttir og Mingaile Subaciute frá Litháen ásamt Lech Walesa, fyrrum forseta Póllands. Walesa flutti fyrirlestur um andófshreyfinguna Samstöðu í Gdansk, sem hann var leiðtogi fyrir á tímum kommúnismans í Póllandi.

Fundarfólk sá og heyrði unga forystukonu í Rótarý í Litháen, Mingaile Subaciute, sem Soffía umdæmisstjóri hefur kynnst í starfi sínu. Mingaile sagði frá alþjóðlegum viðfangsefnum Rótarý og einnig sérstökum verkefnum litháisku klúbbanna sem lúta að mannúðarmálum þar í landi. Frá Ítalíu kom einnig athyglisvert innlegg frá Sif Traustadóttur, sem nú er forseti alþjóðlega rótarýklúbbsins í Róm. Sif hefur búið á Ítalíu í fimm ár og starfar þar sem dýralæknir. Hún sagði frá sérverkefnum klúbbsins, sem helgar sig einkum aðstoð við stúlkur í Uganda og tryggir þeim skólagöngu með námsstyrkjum.

Kristján Stefánsson, félagi í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar, tók til máls í almennum umræðum á Zoom-fundinum í gær og lýsti eigin reynslu. Hann býr hluta ársins í Bandaríkjunum og sagði að æskilegt væri að róarýklúbbar hefðu fjarfundi annað slagið til að ná til félaga erlendis. Hinn nýi E-klúbbur yrði góð viðbót til að viðhalda tengslum. Í umræðunum kom einnig fram að aukin fjarvinna að undanförnu, nám og fundarhald í netheimum á hinum ýmsum sviðum, hefði aukið færni almennings í notkun þessara nýstárlegu samskiptaleiða. Skráningarskjal til útfyllingar.

Texti: Markús Örn Antonsson.

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum