Föstudagur, 6. desember 2024
HeimFréttirAlþjóðafréttirKynntust ShelterBox verkefninu á áhugaverðan hátt með samstarf í huga

Kynntust ShelterBox verkefninu á áhugaverðan hátt með samstarf í huga

Tveir rótarýfélagar fóru í boði ShelterBox í fræðsluferð til Svíþjóðar

Tveir forvitnir og fróðleiksfúsir íslenskir Rótarý félagar ferðuðust til Svíþjóðar í haust að hitta norræna rótarýfélaga og fræðast um starfsemi, hlutverk og tilgang ShelterBox. Lítið vissu þeir um hvað biði þeirra þess utan að hafa á því staðfasta trú að vita meira og að þeirra biði spennandi ævintýri. Þeir vissu að þeir myndu gista við nokkuð frumstæðar aðstæður þar sem minnst var á svefnloft og tjald og að fram færi hlutverkaleikur af einhverju tagi.

Sigríður Ólafsdóttir og Bjarni Pálsson.

Rótarýfélagarnir eru hjónin Sigríður Ólafsdóttir úr rótarýklúbbnum eClub Iceland og Bjarni Pálsson úr Rótarýklúbbi Akureyrar. Þau fóru í boði ShelterBox í fræðsluferð til Svíþjóðar með það fyrir augum að Rótarýumdæmið á Íslandi fari í samstarf um ShelterBox á Norðurlöndunum.

„Hlutverkaleikurinn hófst um leið og við mættum á svæði seinni part föstudags og við þá og þar sett í hlutverk fólks á flótta ásamt samferðafólki okkar frá hinum Norðurlöndunum. Með röggsaman flóttabúðastjóra voru gerðar æfingar og verkefni í tengslum við upplifun og stöðu fólks á flótta,“ segja þau Sigríður og Bjarni sem deila með okkur ferðasögunni. 

Skjól fyrir rigningunni.

„Eldsnemma á laugardagsmorgni vorum við svo sett í nýtt hlutverk sem við vorum í það sem eftir lifði helgar – núna vorum við orðin hjálparstarfsmenn á vegum ShelterBox sem skyldu ferðast til landsins Nagalo þar sem fellibylur hafði geysað og valdið mikilli eyðileggingu.  Við Íslendingarnar vorum í hóp með rótarýfélaga frá Finnlandi.

Verkefni hópsins okkar fólst í því að heimsækja ráðamenn, hagsmunaaðila, íbúa og fulltrúa samtaka í landinu ásamt því að heimsækja fólk í flóttamannabúðum og hellum. Já og þetta eru sko engar ýkjur því það fólk sem að þessu stóð bjó allt yfir ómældum leikarahæfileikum og gæti hvar og hvenær sem er fengið vinnu við leikmyndagerð og leik. Þarna léku þau alls kyns hlutverk aðila sem hver og einn var að gæta sinna hagsmuna og í forsvari fyrir sinn hóp og fólk. Okkar var að afla upplýsinga hjá þeim, greina þörfina og aðstæðurnar á sem bestan hátt til að miðla upplýsingum áfram til ShelterBox.  Fluttum við svo í lokin munnlega skýrslu um mat okkar á stöðunni og tillögur um hjálpargögn. Upplýsingarnar voru svo nýttar til að ákvarða hvaða hjálpargögn skyldi senda og hvernig hægt væri að flytja þau til Nagalo.

Ekki bara vorum við í því hlutverki að spyrja þessa aðila spurninga  og safna upplýsingum – því við sem fulltrúar ShelterBox á þessu hamfarasvæði vorum líka krafin upplýsinga og svara frá fólki sem var jú að upplifa hamfarir, ótta og hættu.  Lærdómskenning Dewey‘s kristallaðist vel í þessari reynslu allri – þar sem að jú maður lærir svo ansi mikið á að prufa, reyna og gera sjálfur,“ segja þau Sigríður og Bjarni reynslunni ríkari og fróðari um verkefni.

Sviðsettar aðstæður til skapa upplifun af verkefninu

Þau segja þetta vissulega einfaldar sviðsettar aðstæður og þau auðvitað mjög svo þakklát fyrir að þurfa ekki að vera í þessum aðstæðum í raunveruleikanum, en að fá þó að minnsta kosti svona að reyna á eigin skinni í þessum hlutverkaleik á hvað reynir og hvernig sú aðstoð og hjálp sem ShelterBox stendur fyrir kemur að gagni. Í lok helgarinnar fengu þau svo kynningu og fyrirlestra frá fólkinu sem hafði verið með þeim í hlutverkaleiknum.

„Fengum við að heyra beint frá þeim, sem mörg hver höfðu einmitt staðið oft í þessum sporum í bláköldum raunveruleikanum í hamfaraaðstæðum víða um heim. Það voru klárlega gæsahúða móment og magnað að heyra sögur þeirra og reynslu, þannig gátum við enn betur tengt við og skilið hvað þetta er magnað og mikilvægt starf sem ShelterBox sinnir.

Hópurinn sem tók þátt í kynningunni.

Við fórum því sannarlega fróðari heim og enn áhugasamari um ShelterBox, en jú líka ansi þreytt og tiltölulega ósofin eftir hópsamverusvefn á svefnloftinu“ og ansi hreint kalda tjaldútileguna með okkar kæra vini frá Finnlandi.

Hvað er ShelterBox?

ShelterBox eru samtök sem tengjast Rótarý og vinna að því að koma fólki til aðstoðar á hamfarasvæðum. Meginmarkmið þeirra er að stuðla að því að fólk hafi skjól í einhverri mynd, hjálpa því við grunnþarfir eins og koma þaki yfir höfuðið td í formi tjalda eða þá verkfæra til að byggja kofa úr þeim efnivið sem kann að vera á staðnum. Ljós, flugnanet, vatnshreinsitæki og fleira.

Árið 2000 fékk Rótarýklúbburinn Helston-Lizard í Cornwall á Englandi hugmyndina að ShelterBox, þegar Rótarý hvatti félaga til að koma með verkefni í tilefni árþúsundamótsins. Með stuðningi rótarýfélaga og klúbba um allan heim óx ShelterBox í að verða alþjóðaviðurkennd, óháð hamfarahjálparsamtök. Síðan 2012 hafa ShelterBox og Rótarý verið opinberir samstarfsaðilar í hamfarahjálp.

Starfsemi ShelterBox byggist fyrst og fremst upp á styrkjum, td. frá rótarýklúbbum um allan heim. „Verðu það spennandi verkefni að vinna að því með öflugu rótarýfólki hér á landi að styrkja starf þeirra áfram og meira-,“ segja þau Sigríður og Bjarni að lokum.

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum