Fyrsti vefstofufundur á vegum Rótarýumdæmisins á Íslandi var haldinn í gær með Zoom-fjarfundabúnaði og þótti takast vel. Á þriðja tug þátttakenda var kominn til að fjalla um félagaþróun í rótarýklúbbunum. Bjarni Þór Þórólfsson, aðstoðarumdæmisstjóri, stýrði fundinum en framsögu hafði Guðjón Ó. Sigurbjartsson, formaður félagaþróunarnefndar umdæmisins.
Guðjón greindi frá umræðum, sem nýlega hafa farið fram í nefndinni um leiðir til að fjölga rótarýfélögum með stofnum nýrra klúbba eða nýjum félögum í starfandi klúbbum. Fram kom í máli hans að undirbúningur er hafinn að stofnun nýs Rotaract-klúbbs fyrir ungt fólk 18 – 30 ára. Rótarýklúbburinn Reykjavík – Miðborg mun hafa forgöngu í málinu og er kynningarfundur fyrirhugaður um miðjan þennan mánuð. Stefnt er að samstarfi við nemendur úr Háskólanum í Reykjavík um þetta verkefni. Guðjón taldi æskilegt að gerðar yrðu fleiri tilraunir með stofnun Rotaract-klúbba í skólaumhverfi og nefndi hann Háskólann á Akureyri í því sambandi.
Nýlegt kynningarátak Rótarý á Íslandi með myndböndum á samfélagsmiðlum var til umræðu. Kynningarnefnd umdæmisins var þakkað gott framtak en jafnframt töldu nokkrir þátttakendur í fundinum þörf á skýrari leiðsögn varðandi eftirfylgni þegar fyrirspurnir eða óskir um inngöngu berast frá áhugasömum einstaklingum um að gerast rótarýfélagar. Fram kom að ýmsir klúbbar hafa verið að treysta innviði og efla starfsemi sína með fjölgun félaga að undanförnu.
Margt annað í félagaþróun bar á góma á líflegum fundi sem stóð í rúma klukkustund. Tilkynnt hefur verið að fleiri slíkir fræðslu- og umræðufundir á vegum Rótarýumdæmisins verði boðaðir í vefstofum á næstu mánuðum.