Miðvikudagur, febrúar 28, 2024
HeimFréttirKlúbbafréttirLitið yfir 75 ára sögu Rótarýklúbbs Keflavíkur

Litið yfir 75 ára sögu Rótarýklúbbs Keflavíkur

Konráð Lúðvíksson skrifar:

Þegar litið er yfirhart nær 75 ára sögu Rótarýklúbbs Keflavíkur opinberast sú staðreynd að félagar hafa ætíð verið hluti af samfélagi í þróun og vaxið með þeim tíðaranda sem ríkir hverju sinni. Kúbburinn er alþjóðlegur starfsgreinaklúbbur, með fulltrúum sem veljast án tillits til trúarbragða, pólitísks litrófs eða þjóðernis. Þegar við hittumst yfir einföldum kvöldverði og hlýðum á vönduð erindi, sem ætíð eiga skírskotun til þess sem til umfjöllunar er í samfélaginu, þá heilsumst við með handarbandi til að innsigla virðingu hvert við annað. Við lyftum vatnsglasi og skálum fyrir ættjörðinni og okkur sjálfum og tjáum þannig virðingu okkar fyrir tilverunni í því landi sem okkur er svo kært. Við förum saman með fjórprófið.

Er það satt og rétt?
Er það drengilegt?
Eykur það velvild og vinarhug?
Er það öllum til góðs?

Þannig opinberum við Rótarýhugsjónina hvert fyrir öðru. Hún felur í sér háleitar siðgæðiskröfur í athöfnum og embættisrekstri. Hún hvetur til aukinna kynna, með því markmiði að slíkt glæði þjónustuhugsjónina sem er æðsta takmark hreyfingarinnar. Þjónusta ofar eigin hag er veganesti okkar þegar við fögnum hverjum nýjum degi.

Úr fyrstu fundargerð klúbbsins.

Þegar sest er að snæðingi að fundarsetningu lokinni fer um salinn kliður sem gefur til kynna að félagar hafi beðið með eftirvæntingu eftir að fá að hittast og deila kvöldstund saman, enda eru kynnin manna á milli eitt af æðstu markmiðum félagsstarfsins. Við hlýðum síðan á þriggja mínútu erindi eins félaga, þar sem hann fær tækifæri til að tjá sig um hugarefni sitt eða lýsa í orðum atburðum í einkalífi í vikunni sem leið, bæði í gleði og sút. Þannig færumst við nær hverju öðru. Við setjumst síðan saman á „skólabekk“ eins og frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti, orðaði það og hlýðum á erindi, sem oftar en ekki er af slíkum gæðum að sæmdi sér innan háskólaveggja. Við leitum svara við spurningum og fáum tækifæri til skoðanaskipta, sem oft á tíðum verða lífleg. Áður en fundi er slitið opnum við viðburðadagbók félaga fyrir komandi viku og kveðjumst. Úti fyrir bíða sameiginleg verkefni sem í áranna rás hafa verið ærin. Við erum með púlsinn á samfélaginu og finnum leiðir til að styrkja það með athöfnum okkar og framlagi. Eldri félagar minnast þess þegar skipulagðar voru ferðir fyrir eldri borgara og þeim boðið að njóta. Klúbburinn tók þátt í skólastarfi með veitingu viðurkenninga, hélt unglinganámsskeið í ræðurlist og kom að stofnun bókasafns við sjúkrahúsið. Uppbygging Nónvörðunnar var á sínum tíma verk klúbbsins undir stjórn þáverandi félaga Helga S. Jónssonar, skátahöfðingja. Síðar hafa samfélagsverkefnin birst hvert af öðru; stuðningur við Björgina, íþróttafélag fatlaðra Nes, Velferðarsjóð Suðurnesja og orgelsjóðinn, enda Keflavíkurkirkja með hennar blómlega safnaðarstarfi okkur hugleikin. Kirkjuklukkan þurfti aftur að snúast eftir áralanga kyrrstöðu svo fenginn var maður til verksins. Við eigum innan kirkjunnar okkar eigin dag.

Árið 1989 gaf klúbburinn út ritið Suður með sjó, leiðsögn um Suðurnesin í ritstjórn Jóns Böðvarssonar, fyrrverandi skólameistara. Af þessu verki varð nokkur hagnaður, sem veitti tækifæri til styrkveitinga úr sjóði sem stofnaður var 1991. Þannig hefur klúbburinn veitt frumkvöðlaverðlaun til hinna ýmsu starfsgreina þegar klúbburinn minnist tímamóta í eigin starfi.

Guðmundur Björnsson fundarstjóri á opnum fundi um umhverfismál.

Kannski er klúbburinn hvað stoltastur af stofnun Krabbameinsfélags Keflavíkur, sem síðar varð Krabbameinsfélag Suðurnesja, hefur hann hlúð að þeirri stofnun með framlögum og verkum og verið verndari þess frá byrjun. Fulltrúi okkar er þar formaður hverju sinni og fundir færðir inn í félagsstarfið. Umhverfismál hafa ætíð verið hluti af hugsjónum klúbbsins. Í byrjun tók klúbburinn þátt í ræktunarstarfi Skógræktarfélags Suðurnesja inn við Seltjörn og Vatnsholti en þegar hann eignaðist sína eigin spildu upp við Rósaselsvötn hafa kraftarnir beinst þangað. Þar höfum við átt okkar góðu samverustundir þar sem fjölskyldur koma saman og hlúa að móður jörð. Verkefnið hefur vakið athygli og svæðið þarf nú að vernda gegn aukinni ásókn til byggingaframkvæmda.

Í samvinnu við suðurnesjadeild Garðyrkjufélags Ísland gerðist klúbburinn verndari Aldingarðs æskunnar, spildu í Skrúðgarði Reykjanesbæjar sem ætlunin er að nýta til að tengja æskuna við gróðurrækt með kennslu og verkmennt. Þannig tekur klúbburinn þátt í þeim verkefnum sem lúta að umræðunni um loftslagsmál í hlýnandi heimi og þeim öfgum sem fylgja.

Það voru forréttindi þegar ritari fékk í sinni fyrri forsetatíð tækifæri til að opna klúbbinn fyrir aðkomu kvenna að klúbbnum. Karllæg gildi fengu þá tækifæri til að víkja fyrir sameiginlegum, mannlegum lífsgildum og opna augu kynjanna fyrir því að við róum sama báti. Í dag eigum við fulltrúa átta starfsgreina kvenna sem auðga starf okkar og bæta ímyndina. Við hlökkum til að hittast og verma klúbbstarfið sameiginlega. Ferðalögin okkar innan- og utanlands bera þess vitni.

Merki við fundarstað klúbbsins.

Rótarýhreyfingin er alþjóðleg hreyfing, starfrækt í yfir 200 löndum með yfir 1,2 miljónir félaga í 35 þúsund klúbbum sem starfa undir formerkjum fjórprófs­ins. Við hér í Keflavík, sjötti kúbburinn sem stofnaður var á landvísu 2. nóvember 1945, erum því meiður í hjóli sem snýst um heim allan. Við tökum þátt í alþjóðaverkefnum, styrkjum Rótarýsjóðinn, sem er okkar flaggskip, með framlögum, aukum alþjóðleg samskipti með nemendaskiptum og heimsóknum, því Rótaýfélagi er aufúsugestur meðal jafningja um allan heim. Stærsta verkefni Rótarýsjóðsins hefur verið að stuðla að útrýmingu á lömunarveiki á alheimsvísu, Polio-Plus, sem hófst 1985. Með dyggum stuðningi Bill og Melindu Gates sér nú fyrir endann á því verkefni. Sjóðurinn styrkir annars mörg verkefni sniðin að ungu fólki. Friðarstyrkir til að opna augu ungmenna fyrir því að við eigum einn heim sem við þurfum að gæta og hlúa að í eigin þágu og nemendaskipti milli þjóða.

Konráð Lúðvíksson, forseti Rótarýklúbbs Keflavíkur 2019-2020.

Rótarýklúbbar í tilgreindum lönd­um/svæðum mynda umdæmi. Ísland er í umdæmi 1360 með sinn eigin umdæmisstjóra sem er æðsti yfirmaður hreyfingarinnar hér. Umdæmisþing eru haldin árlega þar sem umdæmisstjóri kynnir áherslur sínar fyrir það árið. Rótarýklúbbur Keflavíkur hefur í áranna rás átt fjóra umdæmisstjóra, þá Alfreð Gíslason, Jóhann Pétursson (sem báðir eru látnir), Ómar Steindórsson og Guðmund Björnsson, trygga félaga í klúbbi okkar. Núverandi umdæmisstjóri, Anna Stefánsdóttir, fv. hjúkrunarforstjóri Landspítalans, hefur valið sér einkunnarorðin: „Tryggt umhverfi – traust samfélag“, þar sem megináhersla er lögð á umhverfisvernd í sínum víðasta skilningi. Rótarýhreyfingin á Íslandi hefur um árabil styrkt efnilega tónlistamenn til framhaldsnáms með framlagi úr Tónlistasjóði Rótarý á Íslandi. Fyrsti styrkþeginn var Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikari.

Rótarýdagurinn er vettvangur hreyfingarinnar til að kynna starf sitt fyrir almenningi. Hann var haldinn í Keflavík í Fjölbrautaskóla Suðurnesja sunnudaginn 23. febrúar kl. 13 og helgaður umhverfismálum með fróðlegum erindum. Þá voru liðin 115 ár frá stofnun Rótaýhreyfingarinnar. Frummælendur voru:

  • Sævar Helgi Bragason – stjarnvísindamaður og vísindamiðlari
  • Albert Albertsson – hugmyndasmiður hjá HS Orku
  • Konráð Lúðvíksson – forseti Rótarýklúbbs Keflavíkur
  • Berglind Ásgeirdóttir – garðyrkjufræðingur hjá Reykjanesbæ
  • Hrönn Ingólfsdóttir – forstöðumaður hjá Isavia
  • Nemendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja. 

Konráð Lúðvíksson,
forseti Rótarýklúbbs Keflavíkur.

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum