Laugardagur, 14. september 2024
HeimFréttirAlþjóðafréttirLöggjafarþing Rótarýhreyfingarinnar í Chicago 2022

Löggjafarþing Rótarýhreyfingarinnar í Chicago 2022

Rótarýhreyfingin Rotary International heldur löggjafarþing þriðja hvert ár. Tilgangur þingsins er að yfirfara lögin, bæði lög alþjóðahreyfingarinnar (stjórnarskrá RI) og lög klúbbanna.  Reynt er að breyta lögunum í takt við tímann eins og kostur er. Þingið sitja fulltrúar allra umdæma innan RI. Einnig situr aðalstjórn RI þingið, en hefur ekki atkvæðisrétt. Í apríl s.l sat Anna Stefánsdóttir, fyrrverandi umdæmisstjóri, löggjafarþingið 2022 og skrifaði hún stutta frásögn fyrir rotary.is.

„Þingið var haldið í Chicago, borginni þar sem Paul Harris stofnaði fyrsta rótarýklúbbinn.  Þingið sóttu u.þ.b 600 fulltrúar og voru um 400 fulltrúar mættir í Chicago og um 200 tóku þátt rafrænt.

Fyrir þessu þingi lágu 94 lagabreytingatillögur þar af voru 29 samþykktar. Ekki voru gerðar neinar stærri breytingar á lögunum, meira lagfæringar.  Talsverð umræða varð um félagþróun, enda hafa forsetar alþjóðahreyfingarinnar lagt ríka áherslu á það verkefni undanfarin ár. Til dæmis segir Sekhar Metha núverandi forseti  „Each one bring one“

Samþykkt var tillaga um að auka fjölbreytileika og varast einsleitni í félagahópnum. Ekki verður lengur gerð krafa um að félagar í klúbbnum búi í sama sveitarfélagi og klúbburinn starfar í. Rótarýfélagi getur boðið einstaklingi að ganga til liðs við aðra klúbba en sinn eigin.

Skipan í nefndir á vegum RI var einfölduð og kröfur um bakgrunn þeirra sem tilnefndir eru í nefndir minnkaðar m.a til að gefa yngra fólki tækifæri til að sitja í nefndum á vegum RI. Samþykkt var að Rótaractfélagar geti setið í nefndum á vegum alþjóðahreyfingarinnar.

Annars voru litlar breytingar gerðar á stjórnarskránni. Textinn var styttur og einfaldaður, sem er til mikilla bóta.

Samþykkt var eftir nokkra umræðu að hækka árgjaldið til RI. Niðurstaðan verður kynnt á fundi umdæmisráð 10. júni n.k. og síðan kynnt klúbbunum í umdæminu.

Þátttaka í þingi eins og þessu er mjög áhugverð og lærdómsrík. Mér fannst t.d að menning þjóðríkja hafi áhrif á breytingatillögur, umfjöllun um tillögur og atkvæðagreiðslu.  Það virðist taka nokkur löggjafarþing að koma stærri breytingum í gegn.  Eins og þegar ákveðið var að bjóða konum í Rótarý. Tillagan um þá breytingu var samþykkt á fimmta þinginu þar sem hún kom fram.

Mikilvægast við þing eins og þessi er að hitta fulltrúa annarra umdæma, heyra hvað þeir eru að fást við, hvað gengur vel og læra af því.

Fulltrúi frá umdæmi í Úkraínu var viðstaddur þingið. Honum var vel fagnað og hann var sérstaklega ávarpaður af Sekhar Metha alþjóðaforseta.“

 

 

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum