Miðvikudagur, 16. október 2024
HeimFréttirMargslungin kunnátta og þrotlaus vinna

Margslungin kunnátta og þrotlaus vinna

Garðar Cortes, óperusöngvari og skólastjóri Söngskólans í Reykjavík, félagi í Rkl. Borgum Kópavogi, flutti ávarpsorð á tónleikum Rótarý í Hörpu sl. sunnudag. Hann vitnaði í orð Garðars Hólm í Brekkukotsannáli Halldórs Laxness um hinn eina tón og lagði einnig áherslu á mikilvægi menningar og lista í sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar. Í lok ávarpsins beindi Garðar Cortes orðum sínum til viðstaddra, og styrkþega Tónlistarsjóðs Rótarý sérstaklega, er hann sagði:

„Rótarýfélagar, gestir og gangandi. Við, hér viðstödd í þeim tilgangi að styrkja og hvetja til dáða óhamraðan ungdóm, finnum fyrir þeirri ábyrgð sem lögð hefur verið í hendur okkar, ábyrgð sem hvetur til og veitir að lokum kunnáttu til að flytja boðskap þeirrar tónlistar sem frelsar með sannleikanum, agar með fegurðinni, veitir lífsnautn með snilldinni. 

Kæru styrkþegar. Tónlistin er undursamleg list. Ef til vill undursamlegust allra lista. Í stórbrotnustu verkum tónbókmenntanna birtist einhver mesta snilligáfa sem mannsandinn hefur búið yfir en jafnframt stórkostlegur lærdómur, margslungin kunnátta og þrotlaus vinna. Líklegast er tónlistin skýrasta dæmi á sviði allra lista, allra fræðigreina, um það að andleg afrek eru ávallt árangur samstarfs, snilldar og lærdóms, hugmyndaflugs og strits. Tónlistin býr yfir sérstökum töfrum því að hún, ein listgreina, býr yfir hinum eina, sanna tóni. Guð leyfi ykkur að finna, að heyra þann tón, því sá sem hefur heyrt hann þarf einskis að biðja og settu marki er náð. Það er aðeins til einn tónn, sem er allur tónninn.“

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum