Föstudagur, september 29, 2023
HeimFréttirUmdæmisfréttirMenntun og velfeð til umræðu

Menntun og velfeð til umræðu

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, fjallaði um skólamál og ýmsa aðra þætti menntamála í greinargóðu erindi sínu á umdæmisþingi Rótarý á Selfossi. Af hálfu ríkisstjórnarinnar er lögð rík áhersla á að efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Lilja gerði eflingu kennaranáms að sérstöku umræðuefni í ljósi yfirvofandi kennaraskorts.

„Það er afarmikilvægt að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði þeirra og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum“, sagði menntamálaráðherra. Hún benti á að aðsókn í kennaranám hefði minnkað mikið og margir reynslumiklir kennarar myndu brátt hverfa frá störfum vegna aldurs. Fjöldi brautskráðra kennara mæti ekki þörf fyrir nýliðun á öllum skólastigum. Því þurfi að grípa til sérstakra aðgerða til að koma í veg fyrir kennaraskort miðað við mannfjöldaspár til ársins 2033 og fjölda nemenda í skólum samkvæmt þeim. Ráðherrann segir að bæta þurfi starfsumhverfi kennara, m.a. kanna hvort ekki sú unnt að gera 5. kennaranámsárið að starfsnámi, og veita kennaranemum námsstyrk líkt og gert er í Noregi.

Áhersla er lögð á að breyta viðhorfi til starfsnáms og efla það með auknum fjárframlögum og endurskoðun vinnustaðanáms. Aðeins 12% nema innritast í verk- og starfsnám á landsvísu. Athygli vekur að í Fjarðabyggð er það reyndar 33%. Í Noregi er þetta hlutfall 50%.

Samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar á skapandi og gagnrýnin hugsun að vera í fyrirrúmi, að því er fram kom í erindi Lilju. Læsi og þátttaka í lýðræðissamfélagi verður áfram undirstaða íslenska skólakerfisins. Iðnnám og verk- og starfsnám verður einnig eflt í þágu fjölbreytni og öflugra samfélags. Íslensk tunga verði gjaldgeng í stafrænum heimi.

Starfsemi Heilsustofnunar NLFÍ kynnt

„Byggjum brýr til betri heilsu“ var yfirskrift erindis sem Margrét Grímsdóttir, hjúkrunarforstjóri Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði flutti. Ræddi hún um ýmsa alvarlega fylgikvilla númtímalífs, m.a. af völdum streitu og kulnunar í starfi og hvernig unnt væri að bregðast við þeim. Rakti Margrét sögu Náttúrlækningafélagsins í stuttu máli og sagði frá frumkvöðulsstarfi Jónasar Kristjánssonar, læknis. Til marks um breytt viðhorf til heilsuverndar nefndi Margrét að Jónas hefði staðið í strangri baráttu fyrir því fyrr á árum að bannað yrði að auglýsa í blöðum „Læknar reykja Camel“. Hún sagði einnig frá starfsemi Heilsustofnunar og þjónustunni sem þar er veitt.

Samstarf Rótarý og UNICEF

Erna Kristín Blöndal, stjórnarformaður landsnefndar UNICEF á Íslandi, rakti blaðafregnir á Íslandi frá 1924 um útbreiðslu mænusóttar og dauðsföll af hennar völdum sem fjölgaði með degi hverjum í Akureyrarlæknishéraði og víðar á Norðurlandi. Þá stóð enn barátta við þennan vágest hérlendis og raunar lengur, því að síðasti faraldurinn kom upp 1955 og er veikin nánast óþekkt hérlendis eftir 1956 er bólusetningar hófust.

Elín rifjaði upp og þakkaði samstarf Rótarý við UNICEF, Barnahjálp sameinuðu þjóðanna. Það byrjaði 1988, eftir að Polio Plus verkefni Rótarý var hafið með skipulögðum hætti. Með fjöldabólusetningum hefur markvisst verið unnið að því að útrýma lömunarveiki í heiminum. Rótarý hefur lagt fram rúmlega 2 milljarða Bandaríkjadala til starfsins. Fjöldi Rótarýfólks hefur unnið að bólusetningum sem sjálfboðaliðar og hafa 2 milljarðar barna verið bólusettir. Tilfellum hefur fækkað um 99% frá því að samstarf Rótarý og UNICEF hófst.

Framlag Íslands til Rótarýsjóðsins

Einar Sveinbjörnsson, Rkl. Görðum Garðabæ, formaður fjáröflunarnefndar umdæmisins, greindi frá því að framlag rótarýklúbbanna í umdæminu hefði aukist á milli ára frá tæplega 58 þús. $ fyrir rótarýárið 2016-2017 í 76 þús. $. 2017-2018.  Skiptingin á milli sjóða er um 2/3 í AF (Annual Fund) og 1/3 í Polio Plus-sjóðinn. Framlag á hvern meðlim í umdæminu fer úr 48,3$ í 66,7$.  Aukningin á milli ára er ekki alveg marktæk, þar sem sumir klúbbanna drógu greiðslu á þar síðasta ári og kemur út sem tvöfalt framlag á nýliðnu starfsári.

Einar sagði ennfremur frá stóru og metnaðarfullu verkefni í Líbanon sem lýkur á þessu ári og Rótarýsjóðirnir, einkum Annual Fund, hafa styrkt ríkulega. Að síðustu benti hann á leið fyrir klúbbana að tengjast beint verkefnum með þriggja ára söfnun þar sem 50% framlags rennur í sjóðinn District Designated Fund, DDF.  Engir íslensku klúbbana fara þessa leið í dag, en nokkrir eru að skoða samstarf í verkefnum erlendis.

 

 

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Most Popular

Recent Comments