Dagana 14. – 19. september var haldið í fyrsta sinn í 20 mánuði rótarýþing í Evrópu þar sem 500 rótarýfélagar frá 10 rótarýsvæðum, ásamt góðum gestum úr öðrum heimshlutum, hittust í eigin persónu til að fræðast, skiptast á skoðunum og til að ræða framtíð þessara virtu mannúðarsamtaka. Þingið var haldið í hinni fögru Prag.
Verðandi umdæmisstjóri, Bjarni Kr. Grímsson og kona hans Brynja Eggertsdóttur tóku þátt í GETS þjálfun fyrir verðandi umdæmisstjóra og tilnefndur umdæmisstjóri Ómar Bragi Stefánsson og kona hans María Björk Ingvadóttir tóku þátt í GNTS þjálfun fyrir tilnefnda umdæmisstjóra. Kristján Haraldsson var fulltrúi íslenska umdæmisins á COL, Council of Legislation og Soffía Gísladóttir, fyrrverandi umdæmisstjóri, fór fyrir hönd umdæmisins til að kynna þátttöku íslenska umdæmisins í uppbyggingu Rosary Sisters Hospital í Beirút í Líbanon og einnig til að bjóða til Rotary Summit of Action sem haldið verður hér á landi 13. – 18. september á næsta ári ásamt GETS og GNTS.
„Þetta var mjög vel heppnað þing og íslensku fulltrúarnir komu heim með gríðarlega gott veganesti inn í íslenska rótarýárið,“ segir Soffía Gísladóttir. „Umfjöllunin um þátttöku íslenska umdæmisins í uppbyggingu Rotary Sisters Hospital í Beirut var tekin út frá vinkli þeirra rótarýumdæma og rótarýklúbba sem taka þátt í slíkum verkefnum og ákveða að leggja til fjármagn.“
Það koma á hverju ári tugir fyrirspurna um þátttöku í gríðarlega mikilvægum verkefnum Rótarý um allan heim, en til þess að ákvörðun sé tekin um þátttöku þarf að ríkja traust á milli aðila og því er uppbygging sterks tengslanets í Rótarý mikilvæg. Verkefnin þurfa að vera vel undirbúin, vera vel kynnt með skýrum skilaboðum í kjarngóðum texta og verkefnin þurfa sterka talsmenn. Í okkar tilfelli hvað varðar Rosary-spítalann, sendi Virpi Honkala, sem er RI Director fyrir okkar Rótarý-svæði nr. 18, út skýr skilaboð – HELP IS NEEDED IN BEIRUT.
„Þessi skýru skilaboð dugðu til að verkefnið fengi frekari skoðun hjá umdæminu. Skilaboðin voru skýr, röddin var sterk, verkefnið er mjög mikilvægt og aðilarnir sem standa fyrir verkefninu traustsins verðir og með mikla reynslu,“ sagði Soffía Gísladóttir.
Íslenska Rótarýumdæmisins bíður mjög stórt og mikilvægt verkefni þetta árið við að undirbúa Rotary Summit of Action sem haldið verður hér í september á næsta ári. Lena Mjerskaug, RI Director Elect fyrir Svæði 17 og 18 og Nicki Scott RI Director fyrir Svæði 19 og 20 ætla að sameinast um að halda GETS og GNTS á Íslandi ásamt því að halda Rótarýþing sem þær kjósa að kalla Summit of Action þar sem nýstárleg leið verður farin til að virkja alla ráðstefnugesti.
Soffía Gísladóttir, fyrrverandi umdæmisstjóri, fer fyrir íslensku undirbúningsnefndinni og um fjármálahliðina sér Knútur Óskarsson, fyrrverandi umdæmisstjóri. Aðrir sem koma að undirbúningnum til að byrja með eru Heiðrún Hauksdóttir, umdæmisritari, ásamt umdæmisráði. En verkefnið er risavaxið þar sem von er á 500 gestum til landsins og mun undirbúningshópurinn þurfa að kalla til verulegan fjölda rótarýfélaga til liðs við sig. Þeir sem eru áhugasamir um að taka að sér verkefni tengd þessum merka viðburði í sögu íslenska Rótarýumdæmisins geta snúið sér til Soffíu Gísladóttur í síma 895-6773 eða með tölvupósti soffiagisla65@gmail.com.