Miðvikudagur, 13. nóvember 2024
HeimFréttirMikilvægt framlag Rótarý til tónlistarmála

Mikilvægt framlag Rótarý til tónlistarmála

Alls hafa 24 tónlistarstyrkir verið veittir

Við upphaf stórtónleika Rótarý í Hörpu á þrettándanum flutti Garðar Eiríksson, umdæmisstjóri áramótakveðju og ávarp. Hann beindi sérstöku þakklæti til Jónasar Ingimundarson, píanóleikara, Rkl. Reykjavíkur, sem verið hefur ráðgjafi og skipuleggjandi tónleikadagskrár á Rótarýtónleikunum frá upphafi. Þeir hafa verið haldnir árlega síðan 1998. Árni Heimir Ingólfsson, tónlistarfræðingur, kynnti tónleikana og veitti ýmsan fróðleik um verkin á efnisskránni og höfunda þeirra, af þekkingu og smekkvísi.

Tveimur tónlistarnemum, Geirþrúði Önnu Guðmundsdóttur, sellóleikara, og Óskari Magnússyni, gítarleikara, voru að þessu sinni veittir styrkir til framhaldsnáms, kr. 800.000 hvoru. Þar með hafa 24 efnilegir tónistarnemar fengið styrki frá Rótarý til að stunda framhaldsnám frá því að Víkingur Heiðar Ólafsson, píanóleikari, varð fyrstur til að hljóta slíkan styrk árið 2005. Alls hefur Rótarý á Íslandi varið yfir 20 milljónum króna til styrkveitinganna. 

Það var stjórn Tónlistarsjóðs Rótarý sem venju samkvæmt auglýsti styrkina á haustdögum og vann úr umsóknum. Í stjórninni eiga sæti Kjartan Óskarsson, Rkl. Reykjavíkur, formaður, Kjartan Sigurjónsson, Rkl. Borgum Kópavogi, Sigrún Hjálmtýsdóttir, Rkl. Reykjavíkur, Sveinn Hjörtur Hjartarson, Rkl. Kópavogs, Arna Kristín Einarsdóttir, Rkl. Reykjavík Austurbær og Svanhildur Konráðsdóttir, Rkl. Reykjavík Austurbær.

„Rótarý hefur víða stuðlað að tónlistarmenntun,“ sagði Garðar umdæmisstjóri í ávarpi sínu.  „Til dæmis stóðu félagar í Rkl. Selfoss að stofnun Tónlistarskóla Árnesinga á sínum tíma og hefur klúbburinn stutt það starf æ síðan með framlögum í hljóðfærasjóð en notið í staðinn tónlistaratriða frá skólanum við ýmis tækifæri. Með stuðningi við okkar framsækna tónlistarfólk stuðlar Rótarý á Íslandi að því að tónlist í allri sinni mynd, ekki bara klassík heldur öll tónlist, þrífist og þroskist og birtist okkur í mörgum myndum, í gleði og sorg, í söknuði jafnt og fögnuði. Og nú skulum við fagna. Ég vil þakka stjórn Tónlistarsjóðs Rótarý og þá sérstaklega Kjartani Óskarssyni, formanni sjóðsins, fyrir gott samstarf og þá vil ég þakka Ingimundi Sigurmundssyni, Rkl. Selfoss, framkvæmdastjóra tónleikanna, fyrir hans vinnu við að gera þetta allt mögulegt,“ sagði Garðar Eiríksson. 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum