„Eftir nokkurra mánaða undirbúning og 20 tíma ferðalag vorum við komin til Kathmandu í Nepal. Við vorum þrír félagar úr Rótarýklúbbnum Hofi í Garðabæ ásamt mökum og nokkrum góðum vinum, alls 12 manna hópur,“ segir fararstjórinn í ævintýraferðinni, Guðmundur Þ. Egilsson, forseti Rkl. Hofs Garðabæ. Þetta var þriðja heimsókn hans til Nepal. Með honum í ferðinni á sl. ári voru Guðmunda Dagmar Sigurðardóttir og Tinna Rán Ægisdóttir, félagar í Hofi, en aðrir ferðafélagar voru: Sigrún Óskarsdóttir, Árni Möller, Stefán Jóhannsson, Axel Þór Gissurarson, Andrea Ingimundardóttir, Bragi Guðbrandsson, Helga Jónsdóttir, Margrét Þórðardóttir, Ragna Ragnars. Alls tólf manns.
Fararstjórinn hefur orðið: „Fyrsta verk var að sækja fund hjá Rkl. Kathmandu Mid-Town en þar höfðum við boðað komu okkar með góðum fyrirvara. Að þeirra ósk höfðum við safnað og tekið með okkur um 30 kg af íslenskum ullarfatnaði fyrir munaðarlaus börn sem við afhentum á fundinum auk þess sem við skiptumst á fánum klúbbanna. Fundurinn var fjölmennur og fór fram á ensku enda alþjóðlegur klúbbur. Hann reyndist nokkuð hefðbundinn utan þess að tíu RotarAct félagar voru heiðraðir með „Paul Harris Fellows“ orðunni fyrir framgöngu þeirra við hjálparstörf þegar jarðskjálftarnir miklu skuku Nepal skelfilega í apríl 2015.
Daginn eftir flugum við áfram til Pokhara en þaðan hófum við mikla ævintýraferð upp í grunnbúðir Anna Purna. Fjallgangan reyndist þokkalega erfið en á níu dögum gengum við samfleytt eina 125 km með um 8.000 m samanlagðri hækkun. Leið okkar lá um stórkostlega náttúru og í gegnum fjölda lítilla fjallaþorpa þar sem við nutum frábærrar gestrisni og þjónustu heimamanna. Í Grunnbúðum Anna Purna vorum við umlukin tignarlegum Himalayafjallgarðinum, þar sem óvægin náttúran hafði þremur vikum fyrr mölbrotið niður allan húsakost án þess þó að valda manntjóni.
Er við komum aftur til Pokhara rek ég augun í að Rotary Club of Pokhara er að halda vikulegan fund sinn á hótelinu okkar síðar þann sama dag. Þvílík tilviljun. Við rétt náðum að stökkva í sturtu áður en við gerðumst boðflennur á fundinum þar sem okkur var tekið virkilega fagnandi. Við skiptumst á fánum og fundurinn snerist mikið til um ferðalag okkar og reyndist mjög skemmtilegur þótt tungumálið þvældist aðeins fyrir. Eftir fundinn fögnuðum við farsælum ferðalokum yfir góðri og langþráðri steik, þeirri fyrstu í langan tíma, þar sem ekki er boðið upp á kjötmeti í fjallgöngunni.“
Frásögn:Guðmundur Þ. Egilsson Myndir:Guðmundur Þ. Egilsson, Árni Möller og nepalskir aðstoðarmenn.