Ný heimasíða Rótarý á Íslandi var tekin í notkun á umdæmisþingi hreyfingarinnar á Selfossi í síðustu viku. Undirbúningsvinna hefur staðið um alllangt skeið enda breytingarnar margþættar. Þeir Guðni Gíslason, Rkl. Hafnarfjarðar, og Ólafur Ólafsson, Rkl. Reykjavík Grafarvogur, höfðu veg og vanda af undirbúningi verksins á vegum vefnefndar umdæmisins.
Á morgunfundi á umdæmisþinginu á Selfossi með forystufólki rótarýklúbbanna kynnti Guðni Gíslason helstu nýjungar sem hin breytta heimasíða býður. Hún skiptir miklu máli fyrir embættismenn klúbbanna sem eiga að skrá og viðhalda upplýsingum í gagnabanka, svo sem félagaskrá og yfirliti um ýmsa þætti í starfi klúbba.
Þá er ekki síður mikilvægt að sá hluti heimasíðunnar sem snýr að almennri kynningu á Rótarý á Íslandi, rotary.is, hefur nú fengið annað og nútímalegra útlit en áður. Þar með er lagður grunnur að öflugu kynningarstarfi vegna þess sem gerist innan Rótarý innanlands sem utan, bæði gagnvart rótarýfólki og öðrum áhugasömum, sem vilja fræðast um starfið. Efni af heimasíðunni mun einnig birtast á samfélagsmiðlum eftir því sem við á. Það er stefna Rótarý að láta rödd hreyfingarinnar heyrast út á við en yfirleitt hefur verið hljótt um þau verkefni, sem hreyfingin leggur af mörkum í samfélagsþjónustu og mannúðarmálum. Það er stefna forystunnar í alþjóðahreyfingu Rótarý að efla kynningarstarfið.
Garðar Eiríksson, umdæmisstjóri, opnaði heimasíðuna formlega á umdæmisþinginu og færði þeim Guðna Gíslasyni og Ólafi Ólafssyni bestu þakkir fyrir vel unnið starf með því að veita þeim Paul Harris-heiðursmerki.