Föstudagur, júní 21, 2024
HeimFréttirNýir leiðtogar búa sig undir verkefnin á næsta starfsári

Nýir leiðtogar búa sig undir verkefnin á næsta starfsári

„Ef við fylgjum hjarta okkar, innsæi og ástríðu munu opnast tækifæri sem eru gefandi, eftirminnileg og árangursrík. Áhrif þess munu ná langt umfram okkar eigin velgengni. Þar sem hjartað slær er hamingjan nær,“ voru áhersluorð Ásdísar Helgu Bjarnadóttur, verðandi umdæmisstjóra, þegar hún ávarpaði fræðslumót fyrir forystufólk í íslensku rótarýklúbbunum 2021-2022, sem fram fór sl. laugardag kl. 9-12 f.h. á fjarfundi á Zoom. Ásdís Helga tekur við embætti umdæmisstjóra 26. júní n.k. á fundi í klúbbi sínum, Rkl. Héraðsbúa á Egilsstöðum.

Umdæmisráð á undirbúningsfundi sl. föstudag. Soffía Gísladóttir og Ásdís Helga Bjarnadóttir fremstar. Síðan koma Anna Stefánsdóttir, fyrrv. umdæmisstjóri og aðstoðarumdæmisstjórarnir Jón Karl Ólafsson, Guðlaug B. Guðjónsdóttir og Bjarni Þór Þórólfsson. Næstur honum er Bjarni Grímsson, verðandi umdæmisstjóri 2022-2023.

Umdæmisráð Rótarý hélt fund daginn fyrir fræðslumótið þar sem farið var yfir lokaatriði undirbúnings. Að ýmsu þurfti að hyggja tæknilega og þá sérstaklega með tilliti til umræðna sem fram áttu að fara í fjórum vinnuhópum þátttakenda. Þeim var falið að fjalla ítarlega um hinar ýmsu áskoranir sem forystufólk í rótarýklúbbunum og hreyfingin í heild stendur frammi fyrir. Tryggja þurfti tæknilegu útfærsluna á Zoom og gott skipulag verkefnavinnu undir forystu aðstoðarumdæmisstjóranna.

Soffía umdæmisstjóri við samskiptabúnaðinn á fjarfundinum.

Soffía Gísladóttir, umdæmisstjóri, setti mótið en Sigríður Björk Gunnarsdóttir, Rkl. Hofi, Garðabæ, stýrði fundi.  Tilgangur hins árlega fræðslumóts er að undirbúa viðtakandi forseta, ritara og gjaldkera fyrir starfsárið. Einnig skapar það góða kynningu og tengsl fyrir samvinnuna framundan, því að þarna hittast embættismennirnir í klúbbunum ásamt umdæmisstjóra og aðstoðarumdæmisstjórunum.

Heildaryfirsýn yfir starfið í umdæminu sem og árangur Rótarý á heimsvísu var á dagskrá og ennfremur undirbúningur vegna starfsáætlana klúbbanna 1. júlí 2021 til 30. júní 2022. Þá var einnig rætt um undirbúning umdæmisþings á Hallormsstað, sem boðað er til 8. og 9. október n.k. Það verður í umsjá Rkl. Héraðsbúa.

Í upphafi bað Sigríður Björk fundarmenn um að segja deili á sér og voru farin stökk á milli landshluta þegar fulltrúar klúbbanna kynntu sig hver af öðrum. Greinilegt er að rótarýfólk kann vel að nýta sér fjarfundatæknina og voru ekki merki um að tæknilegir annmarkar yrðu til trafala.

Ásdís Helga hélt fræðsluerindi um sögu og skipulag Rótarý. Hún fjallaði um hin margbrotnu og árangursríku verkefni hreyfingarinnar á sviði mannúðarmála og friðsamlegra samskipta milli þjóða. Baráttan gegn lömunarveiki í heiminum er efst á dagskrá, en friðarstarf og nemendaskipti milli landa eru önnur veigamikil atriði. Einnig gagnkvæmar heimsóknir rótarýfólks.

Verðandi umdæmisstjóri við námskeiðsstjórnun á fjarfundi.

Þegar Ásdís Helga hafði ennfremur farið yfir hlutverk og skyldur embættismanna klúbbanna, vék hún nánar að þáttum í starfinu sem hún undirstrikar sérstaklega fyrir starfsár sitt. Hún hvetur forystufólkið til að virkja áhuga og ástríðu félagsmanna gagnvart verkefnum sem eflt geta klúbbinn, samfélagið á landsvísu eða á heimsvísu. Þjónustuverkefnin verði gerð sýnilegri og rótarýfólk láti vita af þeim opinberlega með öflugri miðlun á heimasíðum klúbba og í samfélagsmiðlum.

Ásdís Helga ræðir hér við fundarmönnum á tölvuskjánum.

Fjölgun félaga og klúbba er brýnt úrlausnarefni, sem verðandi umdæmisstjóri leggur þunga áherslu á. Ásdís Helga fjallaði um félagaþróunina hjá íslensku klúbbunum og benti á að umdæmið hér væri rétt á mörkum þess að ná þeim fjölda félaga sem Rotary Internatiional gerir kröfu um hjá hverju sjálfstæðu umdæmi. Við þessu yrði að bregðast með því að hver og einn núverandi rótarýfélagi byði a.m.k. einum nýjum félaga í sinn klúbb. Þá þyrfti að nýta nýja möguleika sem bjóðast við stofnun klúbba, og sveigjanleika í klúbbfomum. Þetta var svo meðal umfjöllunarefna vinnuhópanna síðast á námskeiðinu. Umræðan þar benti til að líklega myndu klúbbar fara að bjóða meira upp á blandað fundarform þ.e. að hafa meira val um að sækja fundi eða taka þátt í fjarfundum; sömuleiðis að klúbbar fari að bjóða félögum að taka þátt í fjarfundum annarra klúbba. Þá var ræddur sá möguleiki að taka upp erindi á myndrita og bjóða þau öðrum klúbbum.

Stofnun rótarskots-klúbba eða Rótarakt-klúbba fyrir yngra fólk var rædd og hvatt til að nýta starfskrafta eldri rótarýfélaga í að miðla af reynslu sinni með leiðtogaþjálfun.

Veffræðsla frá umdæminu verður með reglulegu millibili á starfsárinu, og meðal fjölda annarra verkefna á starfsskrá Ásdísar Helgu eru heimsóknir til klúbbanna, umhverfisverkefni, umdæmisþingið, Rótarýdagurinn 2022 og Rótarýtónleikar.

Eftirtektarvert var að sjá nýstárlega og öfluga kynningu sem Shekhar Metha frá Indlandi, verðandi heimsforseti Rótarý, flutti. Á þessu áhrifaríka 13 mínútna myndbandi var víða komið við og kynnti heimsforsetinn markmið sín í hnotskurn. Einkunnarorð hans eru „Serve to Change Lives“ eða „Breytum lífi, bætum hag“ eins og það er orðað á íslensku. Var boðskapur heimsforsetans gott veganesti fyrir þá sem taka að sér forystuna í rótarýklúbbum hér á landi sem annars staðar næsta starfsárið.

Texti og myndir: Markús Örn Antonsson.

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum