Hinn nýi alþjóðaforseti Rótarý hefur starf sitt 1. júlí n.k. til eins árs. Það er Shekhar Mehta, Rótarýklúbbi Calcutta-Mahanagar, RID 3291 á Indlandi, sem valinn hefur verið til starfans. Hann hefur verið félagi í Rótarý síðan 1984, rekur eigið fasteignafyrirtæki í Kalkútta, og hefur verið mjög virkur í ýmsum verkefnum á sviði heilbrigðis- og mannúðarmála í heimalandi sínu.
Í nýlegu viðtali tjáði Shakhar sig um að félagaþróunin innan Rótarý á heimsvísu væri mikil áskorun fyrir sig og ætti hún að vera algjört forgangsverkefni hjá hreyfingunni í heild. Hann lítur svo á að með skipulegu átaki á mismunandi heimssvæðum, inngöngu ungra Rotaract-félaga í rótarýklúbbana og fjölgun kvenna í klúbbunum, ætti að vera unnt að hækka félagatöluna um 5% á ári. Shekhar Mehta fjallaði m.a. um þetta viðfangsefni á fjarfundi með verðandi umdæmisstjórum. Sjá myndband.
Shekhar og Rashi eiginkona hans hafa ásamt öðru forystufólki Rotary International hafið undirbúning að heimsþingi Rótarý 2022, sem haldið verður í Houston í Texas. Kynningarmyndband hefur verið sent út og skráning þátttakenda er þegar hafin. Sjá myndband.