Það var glaðbeittur hópur sem kom saman í gærmorgun á fræðslumótinu fyrir leiðtoga Rótarý á starfsárinu sem hefst 1. júlí nk. Þátttakendur litu björtum augum til verkefnanna framundan.
„Tryggt umhverfi – traust samfélag“ er þemað sem ég hef ákveðið að nota fyrir mitt starfsár,“ sagði Anna Stefánsdóttir, verðandi umdæmisstjóri í ávarpi sínu á fjölþættu og vel skipulögðu fræðslumóti fyrir verðandi forseta, ritara og gjaldkera rótarýklúbbanna á sem haldið var í Menntaskólanum í Kópavogi.
„Á vegum íslenska umdæmisins starfar umhverfisnefnd og undanfarin tvö ár hefur umdæmisstjóri hvatt klúbba til að planta trjám til kolefnisbindingar. Ég hvet klúbba til að halda því verkefni áfram. Nokkrir klúbbar hafa reyndar ræktað trjálundi í mörg ár og er það vel. Ég ætla í samvinnu við umhverfisnefnd að leggja til fleiri verkefni sem tengjast umhverfismálum og mun ræða það í heimsóknum mínum til klúbbanna síðar á þessu ári. Rótarýklúbbar á Íslandi hafa í áranna rás hlúð að nærsamfélaginu með margvíslegum hætti. Með átaki í umhverfismálum hlúum við enn frekar að okkar nærsamfélagi og látum á sama tíma rödd Rótarý heyrast. Rótarýdagurinn, sem haldinn verður 23. febrúar 2020, býður upp á tækifæri til að gera umhverfismálunum góð skil og um leið kynna allt það góða sem Rótarý leggur af mörkum fyrir samfélagið. Við erum ekki nógu dugleg að láta rödd Rótarý heyrast, segja frá verkefnum okkar og tala um fyrir hvað við stöndum.“ sagði Anna um þetta brýna áherslumál sitt og verkefnin framundan.
Anna gerði ennfremur grein fyrir öðrum stefnumálum sínum á starfsárinu, sem eru þessi helst: Nýjar leiðir til að fjölga Rótarýfélögum. Styrkja og efla klúbba og starfið innan þeirra. Efla virkni félaga. Rótarýdagur verður haldinn 23. febrúar 2020. Auka sýnileika Rótarý á samfélagsmiðlum. Samfélagsverkefni klúbba. Framlag í „Annual Fund“ Rótarýsjóðsins verði a.m.k. 50 USD á klúbbmeðlim. Kynna efni á rotary.org og áherslur heimsforseta Rotary International 2019-2020. Ávarp Önnu birt í heild. Smellið hér.
Garðar Eiríksson, umdæmisstjóri, óskaði verðandi embættismönnum klúbbanna velfarnaðar í miklvægum störfum og gerði þeim grein fyrir þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir varðandi farsælt starf í klúbbunum og velgengni Rótarý á Íslandi. Hann vék síðan að stöðu Rótarý, sem nú er 114 ára gömul hreyfing og glímir víða við fækkun félaga. Hún er sér þó meðvituð um að nýir tímar kalla á breytingar og að rótarýleiðtogar þurfa að vera opnir fyrir tækifærum sem skapast. Með breytingum á lögum Rótarý árið 2013 sköpuðust möguleikar til að stofna svokölluð „rótarskot“ eða fylgiklúbba starfandi rótarýklúbba, „satellite clubs“ á ensku. Garðar beindi því eindregið til forystufólks í Rótarý að það nýti þessi tækifæri til að kalla saman ungt fólk eða t.d. samstarfsfólk á vinnustöðum, að lágmarki 8 manns, sem stofnað gæti nýjan rótarýklúbb í tengslum við annan sem fyrir er.
„Ef aðstoðar er þörf við stofnun slíkra klúbba mun ekki standa á umdæminu að stuðla að því,“ sagði Garðar. „Það getur verið mun auðveldara fyrir ungt fólk að seja á stofn sérstakan, lítinn klúbb heldur en að að ganga í rótgtróinn klúbb með fastmótaðar venjur og hefðir. Við eigum að nota okkur þetta verkfæri til að hjálpa okkur áfram. Þetta fyrirkomulag er víða að ná fótfestu. Til dæmis hafa á Englandi verið stofnaðir á síðustu þremur árum meira en 250 slíkir klúbbar.“