Fyrsti fundur Ásdísar Helgu Bjarnadóttur, umdæmisstjóra 2021-22, með umdæmisráði Rótarý á Íslandi, var haldinn sl. föstudag á skrifstofu umdæmisins í Reykjavík. Auk umdæmisstjóra sátu fundinn þau Soffía Gísladóttir, fráfarandi umdæmisstjóri 2020-21, Anna Stefánsdóttir, fyrrverandi umdæmisstjóri 2019-20, Bjarni Kr. Grímsson, verðandi umdæmisstjóri 2022-23 og Ómar Bragi Stefánsson, tilnefndur umdæmisstjóri 2023-24. Auk þeirra voru á fundinum aðstoðarumdæmisstjórarnir Bjarni Þór Þórólfsson, Rkl. Görðum, og Vilborg Stefánsdóttir, Rkl. Neskaupstaðar.
Að sögn Ásdísar Helgu var farið yfir heimsóknaáætlun hennar til klúbbanna en flestir klúbbar eru byrjaðir að funda eða byrja á fyrstu dögum septembermánaðar. Þá var fjallað um fjárhagsáætlunina og munu árgjöld hækka ögn enda hafa þau verið óbreytt í fjögur tímabil. Nokkur hækkun verður á ferðakostnaðarliðum enda áhersla lögð á að trúnaðarmenn, sem skipaðir hafa verið í ráð og nefndir umdæmisins, endurspegli allt landið.
Soffía Gísladóttir er formaður undirbúningsnefndar fyrir Rotary Summit, ráðstefnu rótarýumdæma á Norðurlöndunum og meginlandi Evrópu norðanverðu, sem verður haldin á Íslandi í september á næsta ári og fer fram á höfuðborgarsvæðinu. Búist er við 400-500 þátttakendum; leiðtogum umdæma, fulltrúum Rotary international ásamt mökum. Það mun verða leitað til klúbba umdæmisins um að koma að ákveðnum þáttum og er vonast til að vel verði tekið á móti þeirri beiðni. Soffía mun útbúa kynningarefni um þennan viðburð, sem miðlað verður til klúbbanna.
Fljótlega verða send út skráningareyðublöð til forseta og gjaldkera klúbbanna vegna umdæmisþingsins sem haldið verður á Hallormsstað 8.-10. október n.k. Klúbbarnir eru hvattir til að kosta fulltrúa sína á þingið, ekki síst forseta, gjaldkera og ritara, enda litið á það sem skyldumætingu þeirra. Þingið er opið öllum rótarýfélögum og mökum.
Á fundi umdæmisráðsins var einnig fjallað um tillögur frá kynningarnefnd umdæmisins. Hún hefur beitt sér fyrir gerð kynningarmyndbanda sem frumsýnd verða á umdæmisþinginu. Rótarýfélagar verða í framhaldinu hvattir til að dreifa þeim og deila, einkanlega á samfélagsmiðlun. Í tengslum við það verður hvatning um að ganga til liðs við Rótarý. Því er treyst að klúbbar séu tilbúnir að taka á móti nýju, áhugasömu fólki og skoða tækifærin til að stofna nýja klúbba, t.d. með öðrum fundartímum en eru hjá viðkomandi klúbbum. Reynsla rótarýfélaga, og stuðningur frá þeim sem þekkja hreyfinguna vel, skiptir miklu máli í þessu sambandi.