Miðvikudagur, 16. október 2024
HeimFréttirUmdæmisfréttirNýtt umdæmisráð Rótarý á Íslandi tekur til starfa

Nýtt umdæmisráð Rótarý á Íslandi tekur til starfa

Umdæmisráðið kom til fyrsta fundar síns sl. fimmtudag, 22. ágúst. Anna Stefánsdóttir, umdæmisstjóri, var í forsæti á fundinum. Starfað er samkvæmt nýjum starfsreglum fyrir umdæmisráðið sem samþykktar voru af fyrra umdæmisráði hinn 24. maí sl.

Umdæmisstjóri er sjálfkjörinn í umdæmisráð og er hann jafnframt forseti þess. Umdæmisráð skal skipað fimm félögum þ.e.  umdæmisstjóra, verðandi umdæmisstjóra, tilnefndum umdæmisstjóra og tveim fyrrverandi umdæmisstjórum.  Í umdæmisráði sitja einnig aðstoðarumdæmisstjórar með málfrelsi og tillögurétt.

Rannveig Björnsdóttir, aðstoðarumdæmisstjóri, birtist á tölvuskjánum norðan frá Akureyri og tók þannig þátt í fundinum.

Breytt skipan umdæmisráðs skv. reglunum felur það í sér, að nú sitja í ráðinu tveir fyrrverandi umdæmisstjórar í stað fjögurra áður. Einnig er ákvæðið um aðstoðarumdæmisstjórana nýmæli.

Um markmið umdæmisráðs segir að það skuli efla Rótarý á Íslandi og Rótarýhugsjónina. Það er umdæmisstjóra til aðstoðar og ráðgjafar og ræðir mál sem umdæmisstjóri leggur fyrir og snerta Rótarýmálefni svo og þau mál sem Rótarý á Íslandi vill beita sér fyrir og styðja. Hver umdæmisráðsmaður  getur æskt fundar í umdæmisráði og/eða borið upp mál sem að hans dómi varða eða geta varðað Rótarý, viðfangsefni íslensku Rótarýklúbbanna á hverjum tíma eða tilmæli Rotary International um að sinna sérstökum verkefnum.  Umdæmisráð getur vísað tilteknum málefnum til umfjöllunar og ákvörðunar umdæmisþings.

Umdæmisráð skal funda að minnsta kosti fimm sinnum á ári. Umdæmisstjóri boðar til fundar með dagskrá. Öll fundastörf skulu færð til bókar.

Í reglunum er einnig fjallað um hlutverk umdæmisstjóra, sem er fulltrúi alþjóðaforseta Rotary International og fer um starf hans og stöðu gagnvart umdæmisráði svo sem kveðið er á um og mælt fyrir um af Rotary International. Umdæmisstjóri er jafnframt tengiliður milli Rotary International og Rótarý á Íslandi og nýtur aðstöðu til starfsemi sinnar í húsnæði Rótarý á Íslandi. Ennfremur er gerð grein fyrir hlutverki, undirbúningi og dagskrá árlegs umdæmisþings sem umdæmisstjóri og klúbbur hans halda.

„Ég hlakka til að heimsækja klúbbana og hitta Rótarýfélaga alls staðar á landinu. Mér finnst áhugavert að kynnast því góða starfi sem fer fram hjá klúbbunum, bæði innra starfi og því sem klúbbarnir leggja af mörkum í nærsamfélagi sínu,“ sagði Anna Stefánsdóttir, umdæmisstjóri á fyrsta fundi umdæmisráðs á nýju starfsári Rótarý.

 

 

 

 

Related Images:

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjast

Fréttir af klúbbunum